Gefið, gefið þannig að þið finnið fyrir því.

Gefið, gefið þannig að þið finnið fyrir því.

Þessi saga hefur verið kölluð „Eyrir ekkjunnar“, líklega til þess að undirstrika að það er ekkja sem gefur, bágstödd kona, það er ekki bara að hún eigi lítið – með því að nefna ekkjustand hennar vitum við að hún hefur misst mikið. Á lítið – misst mikið. Skemmtilegt stílbragð.

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“ (Mrk 12.41-44)

Móðir Teresa lét eitt sinn þessi orð falla: „Gefið, gefið þannig að þið finnið fyrir því.“

Og önnur merk kona , George Eliot, sagði: „Maður verður að vera fátækur til þess að skynja unaðinn sem felst í því að gefa.“

Báðar þessar konur eru í raun að segja sögu guðspjallsins í dag. Með eigin orðum. Taka kjarnann úr þessu stutta guðspjalli og senda hann áfram.

Þessi saga hefur verið kölluð „Eyrir ekkjunnar“, líklega til þess að undirstrika að það er ekkja sem gefur, bágstödd kona, það er ekki bara að hún eigi lítið – með því að nefna ekkjustand hennar vitum við að hún hefur misst mikið. Á lítið – misst mikið. Skemmtilegt stílbragð.

Ekkjurnar eru víða og vandamál þeirra eru meiri og alvarlegri en sú spurning hver verður forsætisráðherra í næstu ríkisstjórn á Íslandi. UN Women á Íslandi hefur sett af stað mikla neyðarsöfnun fyrir konur og stúlkur frá Sýrlandi sem hafa aðsetur – heimili ef heimili skyldi kalla – í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Mjög margar, raunar flestar fullorðnu konurnar í þessum búðum eru ekkjur. Og þær eru í mörgum tilfellum margra barna mæður sem þurfa skjól, þær þurfa vernd og öryggi. Þær þurfa hjálp til þess að geta orðið heilar á ný.

Um 80% íbúa Zaatari eru konur og börn og þetta fólk er í hrikalegri stöðu – skelfilegri hreint út sagt; því það er vitað með vissu að konur og stúlkur á flótta, í flóttamannabúðum og utan slíkra búða, eiga í stórskotlegri hættu á að verða fyrir kynferðislegu áreiti og kynbundnu ofbeldi – vera svívirtar og jafnvel drepnar af vondum mönnum fullum af órum og ógeði. Og þá er ein birtingarmynd his kynbundins ofbeldis í Zaatari búðunum að neyða kornungar stúlkur í hjónabönd. En þær tölur hafa heyrst að einn þriðji þessara kvenna hafi verið þvingaðar í slík hjónabönd – börn að aldri. Auðvitað þarf ekki að fara mörgum orðum um það að slík hjónabönd hafa verulega vond áhrif á líðan þessara stúlkna og þessi siður hefur oft og tíðum ógeðsleg áhrif á líkamlega heilsu þeirra og svo auðvitað allar framtíðarhorfur. Já það er mikið dæmalaust hvað við erum rík, Íslendingar.

Og höfum hugfast að Zaatari flóttamannabúðirnar í Jórdaníu eru ekki einu flóttamannabúðirnar í heiminum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir okkur að: Aldrei hafi fleiri þurft að flýja heimili sín á heimsvísu, eða 65,3 milljónir manna. Og núna eru nærri 21,3 milljón flóttamanna á ferli en um helmingur þeirra er undir átján ára aldri. Þá eru tíu milljónir manna ríkisfangslausir, það er fólk sem neitað hefur verið um þegnrétt og aðgang að almennum réttindum eins og menntun, heilsugæslu, vinnu og ferðafrelsi. Já við búum í heimi þar sem nálægt 34 þúsund manns þurfa að flýja heimili sín á hverjum degi vegna átaka eða ofsókna. Hugsið um það. Já, og um það að yfir 50% af öllum flóttamönnum í heiminum koma frá þremur löndum: Afganistan, Sýrlandi og Sómalíu.

Við getum auðvitað hvorki fóðrað né fóstrað allt þetta fólk en okkur ber að gefa. Okkur ber að gefa þeim sem höllum fæti standa, hérlendis sem erlendis. Við erum rík þjóð sem ver tíma sínum og orku í því að þrátta um tittlingaskít og Costco og Ríkisútvarpið og ferðamenn og lambakjöt og hvort maður eigi að tala um siðaskipti eða siðbót. Fólk sem þannig er ástatt um á ekki bágt. Nema kannski vegna andlegrar þreytu í boði alsnægta og hóglífis – og bæklinga frá ferðaskrifstofum og bílaumboðum. Við deyjum ekki þótt við fáum drullu. Við örkumlumst ekki þótt við skerum okkur í fingur. Við deyjum ekki þótt við fáum slæma sýkingu í hálsinn. Við drepumst ekki vegna þess að vatnið er mengað – eða vegna þess að það er ekkert vatn. Við missum ekki sjónina vegna sárasaklausra augnsýkinga. Við förum og kaupum verkjatöflur og bólgueyðandi ef okkur verkjar eða erum bólgin, við veljum á milli ótal tegunda af húðkremi ef okkur klæjar eða fáum einhver útbrot. Og ef það hleypur á okkur – þá kaupum við pillur við því.

Við höfum allt! Og étum þessvegna allt of mikið af pillum! Undarleg þverstæða.

Og svo eru það þau sem hafa ekki neitt. Ekkert. Ekkert. Ekkert. Eru ekkjur þessa heims af báðum kynjum – í flóttamannabúðum, eða á vatnslausum svæðum, eða þar sem sóttir herja, eða þar sem stríð geysar og menn drepa menn svo einhverjir allt aðrir menn geti auðgast. Og kannski látið á sér bera þegar fé er sett í fjárhirsluna; já „Margir auðmenn lögðu þar mikið.“ Svo ekki sé nú minnst á hina samfélagssóðana, skrílmennin, sem nota öll brögð til þess að borga ekki í fjárhirslu samfélagsins. Það er kategóría sem ég nenni ekki út í núna en er alveg einnar predikunar virði – og kemur síðar, við tækifæri.

Fermingarbörn næsta vors, þau hafa verið að ganga um bæinn og safna fé fyrir hjálparstarf kirkjunnar. Og nánast öll fermingarbörn á landinu hafa verið að gera það sama – og hafa gert það sama ár eftir ár. Hjálparstarfið hefur verið að einbeita sér að því að grafa brunna – svo fólk fái hreint vatn. Hugsið ykkur svo fólk fái vatn. Vatn, það er þetta sem við látum renna svo það verði kaldara, það er þetta sem flæðir úr kústunum á bílaþvottaplönunum, það er þetta sem ólgar um allt hjá okkur því við eigum svo mikið – svo ofsalega mikið af því. Við erum rík þjóð – sem rífst um tittlingaskít sér til afþreyingar; þráttar um skurð á lambakjöti, verð á tekexi og grenjar opinberlega ef það kaupir skemmt avakadó í Bónus. Við erum svo dæmalaust rík.

Jesús kallar til okkar sem viljum vera lærisveinar hans; munum eftir því að það erum við – skírð og fermd. Hann vill að við horfum til þeirra sem verst standa – en ekki bara horfum heldur gefum. Því við erum svo dæmalaust rík.

Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.