Einhversstaðar á milli Blönduóss og Vatnsdals

Einhversstaðar á milli Blönduóss og Vatnsdals

Ekkert okkar á einfalt líf og fæst okkar, ef nokkur, eru að lifa því lífi sem til stóð.

Hefur þú tekið eftir því hvernig sumir atburðir búa í minni þínu lengur en aðrir? Orð féllu, aðstæður komu upp, viðbrögð þín og annara urðu svona eða hinsegin og árum síðar er það sem gerðist ofarlega í minni þótt flest annað sé horfið á gleymskunnar braut. Undarlegur er mannshugurinn þegar hann velur sér minningar.

Þegar ég og mitt fólk ökum norður í land er einn staður á hringveginum sem ekki lætur mikið yfir sér en jafnan þegar bíllinn þýtur þar hjá, hnippum við hvert í annað og segjum Öxl!

Það var undir lok níunda áratugarins þegar börnin voru enn bara tvö og bílakostur okkar var lítil hvít Lada bifreið með kringlóttum ljósum og ég man að það var hægt að snúa þennan bíl í gang með þar til gerðri sveif sem geymd var í skottinu. Við vorum að ljúka hringferð um landið, börnin dormuðu í aftursætinu og bíllinn var drekkhlaðinn viðlegubúnaði og ástandið eins og það er með ung börn í lok ánægjulegra langferða... þá hægir hann Bjarni minn skyndilega á bílnum, leggur út í kant, drepur á vélinni og stynur up úr sér: Viftureimin!

Þarna sátum við óravegu frá allri þjónustu einhversstaðar í Húnavatnssýslunni nærri Vatnsdalnum, tími gsm símanna ókominn og þegar húddið var opnað sást hvorki tangur né tetur af viftureiminni og því ekki hægt að hafa bílinn í gangi hvað þá aka honum. Sem við stöndum þarna í vandræðum okkar ber að mann á jeppa sem spyr hvort okkur vanhagi eitthvað og við segjum honum eins og er. „Ég held ég eigi reim úr svona bíl“, mælti maðurinn. „Þið ættuð að koma heim á bæ og fá ykkur hressingu og svo sé ég hvað ég get gert fyrir ykkur.“ Skömmu síðar sátu börnin okkar með mjólkurskegg við eldhúsborðið heima á bænum Öxl en Bjarni var farinn með bónda að leita að réttu viftureiminni sem raunar fannst ekki fyrr en á Blönduósi klukkutíma síðar. Þegar við svo ókum af stað á okkar Lödu með nýja reim undir húddinu hafði þessi góða fjölskylda gefið okkur þrjá klukkutíma af lífi sínu, kynstrin öll af kaffi og meðlæti og meira en hundrað kílómetra akstur og stúss.

Alla tíð síðan býr velgjörð þessa fólks innra með okkur. Gestrisni þeirra og góðvild. Og jafnvel þótt ég hafi glatað nöfnum þeirra og viti ekkert um líf þeirra og afdrif í ati daganna þá man ég hve fegin og undrandi ég var að þetta fólk skyldi hjálpa bláókunnugum ferðalöngum með þessum rausnarlega hætti og huga jafnt að þörfum barnanna okkar og öllu öðru. Enn hnippum við hvert í annað og segjum Öxl þegar ekið er framhjá og rennum þakkarhug til ábúenda.

Það er aðfangadagskvöld. Saga jólanna er saga af rausn og tómlæti hún er í rauninni rannsókn á mannlegum kjörum, spegill til að horfa í og skoða sitt eigið líf.

Horfum á Jósef. Hver var hann? Hann var karlmaður sem tók ákvörðun um það að vera faðir barns sem var ekki hans barn. Barnið sem María gekk með var heldur ekki uppfylling á hennar óskum. Hún hafði ætlað að eiga öðru vísi líf. Einfaldara líf.

Við erum mörg saman komin hér í kvöld. Skyldi einhver vera hér í kirkjunni í kvöld sem á einfalt líf? Er einhver hér í kirkjunni núna sem náð hefur fjörutíu ára aldri og er að lifa lífinu sem hann eða hún ætlaði að lifa? Sennilega ekki. Ekkert okkar á einfalt líf og fæst okkar, ef nokkur, eru að lifa því lífi sem til stóð. María og Jósef voru svona fólk eins og við. Og jólasagan segir okkur hvernig þau tóku ákvarðanir um það að taka aðstæðum eins og þær voru. Þau ákváðu að heilsa lífinu ekki með tómlæti heldur lifa því og láta sér ekki á sama standa. Þau ákváðu að takast á við tilveru sína eins og hún birtist jafnvel þótt ekkert væri eins og til hefði staðið.

Á þessu kvöldi fylgir heimsbyggðin Jósef og Maríu eftir á vegi vonbrigðanna áleiðis til Betlehem þar sem allar dyr standa þeim lokaðar uns þau koma að gætt fjárhússins og beygja sig til að fara inn.

Hvaða gættir hefur þú gengið fram á í þínu lífi? Hvaða fjárhúsgættir hefur þú þurft að beygja þig undir svo að tilveran mætti halda áfarm? Hefur þú ekki, rétt eins og ungu hjónin í sögunni, staðið einhversstaðar þar sem þú ætlaðir alls ekki að vera? Og augun þín þurftu að venjast myrkrinu áður en þú fórst að greina útlínur og geta hreyft þig um... Þarna ætlaðir þú alls ekki að standa. En stóðst þar samt. Og þá komu e.t.v. í ljós alveg nýjar hliðar á fólki. Þau sem þú áttir jafnvel von á komu ekki en óvæntir vinir skutu upp kollinum líkt og fjárhirðarnir sem knúðu dyra til að sjá barnið, eða vitringarnir sem komu færandi hendi og efldu kjark ungra foreldra svo að erfiðar kringumstæður yrðu ekki að niðurstöðu í sál þeirra.

Einmitt. Það gildir um jólasöguna jafnt og þína sögu að spurt er að leikslokum. Hver er niðurstaðan? Ráða kringumstæðurnar niðurstöðunni eða eru áhrifaþættirnir fleiri?

Barnið sem á þessu kvöldi liggur í jötunni. Barnið sem fætt er á vondum tíma við óboðlegar aðstæður og á þessa samsettu fjölskyldu. - Barnið sem fæðist inn í tilveruna eins og hún átti ekki að vera. - Þetta barn er tilboð um óvænta niðurstöðu.

Einhversstaðar á leiðinni milli Blönduóss og Vatnsdalsins liggja enn í vegarkanti leifarnar af viftureiminni sem gaf sig. Einhversstaðar í urðinni liggur hún tætt og trosnuð og skiptir engu máli vegna hinnar óvæntu niðurstöðu. Bóndinn á Öxl sá börnin í baksætinu og gat ekki hugsað sér annað en að drífa þau inn í bæ og gefa þeim eitthvað. Án þeirrar rausnar hefðu vandræðin vafið upp á sig og þessi slitna reim orðið að niðurstöðu en ekki minningin um ilmandi kaffið og mjólkurskeggið á andliti barnanna.

Saga jólanna er um þetta. Hún er um það sem gerist andspænis barninu. Hún er um það val sem við eigum í öllu lífi við allar aðstæður m.a.s. þegar þær verða svo slæmar sem í tilfelli Jósefs og Maríu að þau enduðu sem flóttamenn í Egyptalandi. Við eigum alltaf val um það að horfa í augu samferðafólks okkar og virða líf þeirra. Við eigum alltaf val um það að sjá og skilja að allt fólk er að berjast harðri lífsbaráttu, að enginn á einfalt líf og fæst eigum við lífið eins og til stóð að hafa það.