Breytni eftir Kristi

Breytni eftir Kristi

Prédikun í Gaulverjabæjarkirkju sunnudag 13. nóv. 2016. Kristniboðsdagurinn.

Við fögnum í dag kristniboðinu í heiminum og látum hugann hvarfla að því um leið hvernig við gleðjumst yfir því að við urðum kristin. Við skulum jafnframt minnast þess að við, sem iðkum kristni, höfum ákveðið takmark að stefna að. Takmarkið er að upplifa fullkomna og eilífa gleði í því að sjá inná landslagið í himnaríki og sjá veruleika Guðs. En fyrst það er í framtíðinni og í eilífðinni er ævinlega vísað til þess í starfinu hér í söfnuði Guðs að maðurinn elski það sem Guð elskar. Og það gerum við af því að bæði krefst það æ betra siðferðis og góðrar breytni í daglegu lífi en líka vegna þess að með því að elska það sem Guð elskar og njóta þess með öðru fólki í samfélagi kirkjunnar megum við vænta góðrar uppskeru og ríkulegra ávaxta af góðvild, hjálpsemi, friði og helgun. Sæll og glaður er sá mannskapur sem stefnir að því. Þetta er í sjálfu sér ekki mjög flókið mál, hvað þá stjörnuvísindi, að muna af hverju við stundum kristniboð því þar er einfaldlega að finna í guðspjalli dagsins frásögn af því hvernig Drottinn stofnaði til boðun fagnaðareindisins. Í frásögn Matteusar er sagt frá því atviki þegar lærisveinarnir höfðu hlýtt því að fara á fjall nokkurt í Galíleu, sem Jesús hafði stefnt þeim til, eftir að hann var upprisinn. Þeir sáu hann þar og veittu honum lotningu og hann lagði þeim á hjarta þann boðskap sem æ síðan hefur verið kallaður kristniboðsskipunin eða skírnarskipunin og er hún rifjuð upp við hverja skírn í kirkjunni okkar eða hvar sem við skírum. Síðan steig hann upp til himna. Þessi orð eru enn ein opinberunin sem varð eftir upprisuna og fram að uppstigningunni, þegar allt var komið fram. Og þar sem ég kom akandi hingað núna framhjá Stokkseyrarkirkju er gaman að hugsa til þess að altarismyndir þessara kirkna kallast á við tíma textans þar sem hér eru síðustu orð Krists á krossinum, sú staða í guðspjöllunum sem minnir okkur á að sigur Krists er í Gaulverjabæ um það bil að vinnast og á Stokkseyri uppstigningin. Hér það síðasta sem menn sáu af Jesú í jarðneskri baráttu hans og þar það síðasta sem menn sáu áður en hann varð alveg himneskur. Hér sú stund þegar hann er að fullkomna verk sitt sem fullkominn maður og þar sú andrá er hann opinberar alveg að hann er fullkomlega sá Guð, sem tókst að fullkomna tilveru mannsins. Að halda allt það sem hann hefur boðað kallar á talsverða vinnu af hálfu hins kristna manns og kallar á að maðurinn setji sér markmið. Okkur hafa verið rétt ótal tæki í hendur og okkur er einnig ljóst að verkið verður ekki unnið bara í dagvinnu eða einhvern tíma þegar við höfum tíma til þess frá dagsins önn og amstri. Tækin eru til að nota alla daga og hverja stund meðfram öllu því sem við gerum. Það er helgunin sem við eigum kost á að klæðast og láta hana þannig hafa áhrif á það sem við viljum. Viljinn er ekki tekinn frá manninum í þessari tilveru kristins manns því það er eitt helsta einkenni og aðalsmerki kristinnar trúar að vilji mannsins er styrkur hans og alls ekki beygður eða brotinn niður. Hann er styrktur með því að maðurinn hefur þegar séð og fær alltaf að sjá örugga og fagra fyrirmynd í Kristi sem var ekki aðeins fullkominn maður heldur einnig sá maður sem vissi fullkomlega hver var vilji Guðs og gat borið saman það sem hann vildi sjálfur. Þessu lýsir Thomas Aquinas ágætlega í guðfræði sinni en hann var uppi á 13. öld og hafði gríðarleg áhrif á hugmyndir um tilvist mannsins og takmark í lífi hinna kristnu. Þar sem gengið er út frá vilja mannsins er jafnan lagt upp með að bera hann saman við það hvernig við getum fylgt eftirdæmi Jesú, lært af því sem Jesús sagði og gerði. Með þessa nálgun sjáum við að breytni eftir Kristi er að gera helst bara það sem er í samræmi við kenningar hans og verk, í samræmi við boðskap hans um kærleika og virðingu fyrir manneskjunni og í samræmi við allt það sem á að einkenna samfélagið í kirkjunni og í heiminum. Það er svona inngróið í okkur í sama mæli og við vitum innst inni alveg að hér í kirkjunni fer aðeins það fram sem er í samræmi við kristna trú og góða siði, en það er einmitt uppá það sem guðshúsið er helgað og vígt. Við eigum marga góða guðfræðinga og heimspekinga allt frá miðöldum, einsog Thomas a Kempis sem lýsir því í frægri bók sinni, Breytni eftir Kristsi (Imitatio Kristi), hvernig hægt er að þjálfa sig í eftirbreytni í persónulegu lífi sínu og stefna að andlegum þroska. En hann bendir líka á eina leið þess að verða að góðum lærisveinum Jesú og gera einsog þeir. Þeir komu þangað sem Jesús hafði boðað þá en einmitt með því að þeir hlýddu því kalli fengu þeir að sjá hann og heyra - upplifa takmark trúarinnar. Þessi leið til að verða að góðum lærisveini Jesú á öllum tímum kemur strax fram í bréfum Páls postula sem gerir þó nokkuð af því í safnaðarbréfum sínum að fara fögrum orðum um það sem einkennir kærleiksríkt og friðsamt samfélag þeirra sem trúa á Guð. Enn lengra gætum við farið og minnst á enn einn Tómas, Tómas postula, þó ekki væri nema til að sýna að við tókum eftir því í guðspjalli dagsins að enn efuðust nokkrir í hópi þeirra sem höfðu þó séð Jesú upprisinn og voru þó komnir á fjallið í Galíelu og hlýddu þó stefnu Drottins. Það ætti að stjaka við þeim sem enn setja fyrirvara á sumt af því sem fylgir því að fylgja Jesú. Við erum þarna öll og viljum þó breyta eftir Drottni og heyra honum. Þegar kemur að kristniboði er ekkert sterkara en vera þessi góða fyrirmynd og hafa þessu að miðla sem er fegursta myndin af því að breyta eftir Kristi. Þar höfum við miki að gefa og mikið að boða í heimi sem þarf fyrst og fremst á því að halda að heyra um frið og kærleika og miskunn en einnig að sjá í þeirri breytni virðingu fyrir manngildinu og von um bjartari framtíð, helgun mannsins og eilíft líf. Það er væntanlega um þetta sem málið snýst þegar kemur að kristniboði. Ágætur vinur minn, sem starfaði lengi sem kristniboði í Afríku, og kom í heimsókn í söfnuðinn minn fyrir nokkrum árum, bað mig að setja ekki í messutilkynninguna að hann væri trúboði heldur kristniboði. Hlutverk hans var að boða kristna trú. Orðið trúboði gat í fyrsta lagi vísað til þess að hann vildi boða fólki trú sem hefði enga trú fyrir. Flestir, ef ekki allir, eru trúhneigðir á einhvern hátt þótt átrúnaður geti haft á sér margar myndir. En hann lagði áherslu á að í orðinu kristniboði fælist að hann væri kristinnar trúar sjálfur og fylgdi Kristi með eins fögrum og djúpum hætti og honum var unnt, auk þess sem orðið kristniboði vísaði bæði á fyrirmynd boðskaparins í Kristi og á samfélagið sem við köllum kristni. Þessar skýringar komust að sjálfsögðu ekki fyrir í einni messutilkynningu en ég hef hugleitt þetta síðan, því fram að þessu hafði ég ekki gert á þessu mikinn greinamun. Við minnumst þess í dag að við boðum samfélag og það samfélag mótast af því hvernig við breytum eftir Kristi. Það mótast einnig af viðleitni okkar til að skilja æ betur tilvist okkar sem fólk í kristni. Það mótast af því að skilja vilja okkar og að bera vilja okkar saman við markmið þess að lifa í kristni. Og þannig séð hefur kristniboð ekki bara að gera með fólk úti í heimi sem má til með að heyra af fagnaðarerindinu um Jesú Krist heldur byrjar starfið hér heima í kristnum söfnuði sem skapar af sér það fólk sem fer sem fulltrúar þess er við stöndum fyrir. Þess vegna er sagt að kristniboð sé órjúfanlegur þáttur af safnaðarstarfi í hverri sókn engu síður en hjálparstarf. Það beinist ekki bara að þeim sem eru í þessum söfnuði og er heldur ekki bara verkefni kirkjunnar í heild sinni sem stofnun, heldur hluti af því að vera kristinnar trúar hér heima. Við getum jafnvel tekið það alveg yfir á persónulega sviðið og sagt að það sé einkamál mannsins að vera kristinnar trúar líkt og ýmsir ráðamenn vilja halda fram til að losna við kristni úr opinberri umræðu og af opinberum vettvangi, fólk sem tekur það nærri sér og er mörg ár að jafna sig á því að forsætisráðherra þessa lands hafi einu sinni í sjónvarpsávarpi beðið Guð að blessa Ísland. Og þó er þetta land sem hefur verið helgað Kristi frá því fyrir fyrstu byggð landnámsmanna, helgað á þann hátt að beðið hefur verið fyrir náttúru þess, lífmagni og kröftum, fegurð sköpunarverksins og tilvist mannsins í samhljómi við vilja Guðs um gott líf, frið, ábyrgð og kærleika. Við erum rík af þessum sið og rík af því að Guð hefur blessað Ísland, en rík erum við þá fyrst ef við getum miðlað öllu því sem er gott og fagurt í okkar kristna sið með því að vera stöðugt að stefna að því hvernig við getum verið betri og miðlað meiru af þeirri fyrirmynd sem við sjáum sjálf í Kristi. Það er þess vegna sem talað er um að kristniboð byrji ekki aðeins heima í söfnuðinum heldur heima í hverjum og einum sem vill að Drottinn blessi sig og leiði í átt að settu marki, sem er að vilja vera einn af lærisveinum hans. Ég hugsa að þetta sé eina leiðin til að við getum kallað til fylgdar við Krist af því að það er líka í samræmi við það samhengi sem felst í orðum hans í lok Matteusar. Að kenna allt það sem hann hefur boðið er að vera sjálfur í samræmi við endanlegt markmið með tilvist kristins manns en það er að lifa í kærleika og friði og helga okkur honum, því þannig kallar Kristur æ fleiri til fylgdar við sig sem fleiri góð dæmi eru af þeim sem heyra og sjá Drottinn og heyra kristni.

Fyrri ritningarlestur þessa Drottins dags, sem er kristniboðsdagurinn, er úr spádómsbók Jesaja 12.2-6: Á þeim degi skaltu segja: Ég vegsama þig, Drottinn. Þú varst mér reiður en þér hvarf reiðin og þú huggaðir mig. Sjá, Guð er hjálp mín, ég er öruggur og óttast ekki. Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur, hann kom mér til hjálpar. Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Á þeim degi munuð þér segja: Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna. Hafið í minnum að háleitt er nafn hans. Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert, þau verða þekkt um alla jörð. Fagnið og gleðjist, þér sem búið á Síon, því að Hinn heilagi Ísraels er mikill á meðal yðar.

Síðari ritningarlesturinn er úr Rómverjabréfinu 10.8-17: Hvað segir það þá? „Nálægt þér er orðið, í munni þínum, í hjarta þínu.“ Það er: Orð trúarinnar sem við prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn. Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem á hann trúir verður aldrei til vansæmdar. Í þessu er enginn munur á Gyðingum og Grikkjum. Hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann því að „hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn“. En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað nema hann sé sendur? Svo er og ritað: „Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða.“ En ekki tóku allir við fagnaðarerindinu. Jesaja segir: „Drottinn, hver trúði því sem við boðuðum?“ Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.

Matteus 28.16-20 En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“