Jafnrétti: Tíska eða sannfæring?

Jafnrétti: Tíska eða sannfæring?

Kynjasamþætting horfir til þess að konur og karlar hafa um margt ólíkar forsendur og ólíka reynslu og að stefnumótun getur leitt til aukinnar mismununar á grundvelli kynferðis eða dregið úr henni.

Bleikt og blátt

Jafnréttismál eru mál samfélagsins í heild. Þau koma okkur við og hafa áhrif á hag okkar. Það er fagnaðarefni að sífellt fleiri láta sig þessi mál skipta. Ný aðferð til að koma á jafnrétti milli karla og kvenna ryður sér nú rúms. Á alþjóðavettvangi kallast hún „gender mainstreaming“. Flest sem tala fyrir þessari aðferð á Íslandi notast við nýyrðið kynjasamþætting. Hér er ekki einungis um nýja aðferð að ræða heldur breytta hugsun sem er ætlað að endurskilgreina hefðbundin hlutverk kynjanna.

Þessi nýja hugsun kemur skýrt fram í lögum um jafna stöðu karla og kvenna nr. 10/2008. Þjóðkirkjan hefur tekið hana upp í Jafnréttisstefnu kirkjunnar sem samþykkt var á Kirkjuþingi 2009 og setur sér þar með það markmið að flétta sjónarhorn kynferðis inn í alla stefnumótun sína, bæði hvað innra starf varðar sem og hið ytra. Slík vinna ætti meðal annars að skila því að konum og körlum er gert betur kleift en áður að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf. Mikilvægt er að hafa í huga í þessu samhengi að hér er ekki um átaksverkefni að ræða. Kynjasamþættingin virkar ekki ef hún er skilin sem tískufyrirbæri, orð eða aðferð sem henti í smá tíma. Hér er þörf á sannfæringu þar að lútandi að það sé allra hagur að sjónarhorn kynferðis verði sjálfsagður hluti allrar ákvarðanatöku og alltaf lagt til grundvallar.

Með kynjasamþættingu er horfið frá kynhlutleysi í stefnumótun, miklu fremur er hér spurt hverjar séu sérstakar þarfir og reynsla kvenna og karla. Þar með er settur fram aukinn skilningur á því að kynferði hefur áhrif á líf okkar allra, innan kirkjunnar sem utan, á heimili sem í atvinnulífi, í vinahópi sem úti á götu. Kynjasamþættingin horfir til þess að konur og karlar hafa um margt ólíkar forsendur og ólíka reynslu og að stefnumótun getur leitt til aukinnar mismununar á grundvelli kynferðis eða dregið úr henni. Stefnumótun sem unnin er án kynjasamþættingar getur þannig einnig skapað aðstæður sem hygla öðru kyninu á kostnað hins og leitt til aukinnar mismununar , nokkuð sem varla er markmið þeirra sem vinna að stefnumótun. Markviss kynjasamþætting í stefnumótunarvinnu og allri framkvæmd daglegra starfa leiðir hins vegar til þess að við stöndum öll uppi sem sigurvegarar, jöfnum fótum, óháð kyni.

Ef stefnumótun er ætlað að ná fram markmiðum kynjasamþættingar þurfa fjórar frumforsendur að vera til staðar, þ.e. upplýsingar um stöðu karla og kvenna þurfa að liggja fyrir, ákveða þarf hver ber ábyrgð á framkvæmdinni, fræðsla um jafnréttismál þarf að vera komin í farveg og framkvæmd og búa þarf til aðferðir sem hægt er að beita til að koma jafnri stöðu kynjanna í framkvæmd. Liggi þær fyrir er hægt að hefjast markvisst handa við þetta langtímaverkefni þar sem kynferði er á skipulagðan hátt tekið með í reikninginn. Og hver þarf að hefjast handa? Hver einasta kona og hver einasti karl! Ekki síst við í kirkjunni!