Vankaðar konur með kúlu á höfði

Vankaðar konur með kúlu á höfði

VR á heiður skilinn fyrir að taka þetta ljóta vandamál alvarlega. Eða réttara sagt; Það er sjálfsagt að VR taki þetta ljóta vandamál alvarlega. Sjónvarpsauglýsingin þeirra er ágæt að mörgu leyti. Hún er ljót en misrétti er ljótt. Hún er reyndar ótrúlega gamaldags þar sem nýfæddur drengur klæðist bláu og nýfædd stúlkan bleiku. Ég er nokkuð viss um að fæðingardeildir séu hættar að merkja börn eftir kyni við fæðingu.
Guðrún Karls Helgudóttir - andlitsmyndGuðrún Karls Helgudóttir
21. september 2011

lettum_alogunum_vefur.gif Nú ber svo við að ég get fengið 10% afslátt í IKEA í tvo daga vegna þess að ég er kona. Ég gat einnig fengið afslátt í Hagkaupum í einn dag og kannski á fleiri stöðum. Allt VR að þakka.

Hugmyndin er ekki vitlaust ef hún er sett fram sem argasta kaldhæðni þ.e. að konur versli á lægra verði vegna þess að þær eru minna metnar sem starfskraftar.

Það undarlega er að nokkrar verslanir taka þátt og segja að það sé vegna þess að þær styðji átakið. Ég get ekki sagt að þetta auki áhuga minn á eða velvild i garð þessara verslana. Ef verslanirnar styðja þetta átak þá gera hljóta þær að gera með því að greiða starfsfólki sínu sömu laun fyrir sambærileg störf áháð kyni. Það hljóta þær að gera með því að setja ekki titla á strákana til þess að geta greitt þeim svolítið meira.

Ég hlýt að líta svo á að þessar verslanir séu ekki að standa sig, viti upp á sig skömmina og í stað þess að leiðrétta þetta þá gefa þær bara öllum konum 10% afslátt í einn eða tvo daga og þurfi síðan ekki að hafa áhyggjur af þessu meir. Eða hvað? Ekki eru þær að gefa mér afslátt vegna þess að þær eru með sitt á tæru? Þá þyrftu þær ekki að taka þátt.

VR á heiður skilinn fyrir að taka þetta ljóta vandamál alvarlega. Eða réttara sagt; Það er sjálfsagt að VR taki þetta ljóta vandamál alvarlega. Sjónvarpsauglýsingin þeirra er ágæt að mörgu leyti. Hún er ljót en misrétti er ljótt. Hún er reyndar ótrúlega gamaldags þar sem nýfæddur drengur klæðist bláu og nýfædd stúlkan bleiku. Ég er nokkuð viss um að fæðingardeildir séu hættar að merkja börn eftir kyni við fæðingu.

Ég hélt reyndar að formaður VR hefði ætlað að hjóla í fyrirtækin og krefjast launaleiðréttinga en ég hef misskilið þetta eitthvað. Þetta vekur auðvitað meiri athygli og getur mögulega gefið fyrirtækjunum sem taka þátt að aukna auglýsingu og meiri viðskipti.

Annars ég er með hugmynd að næstu auglýsingu. Hún sýnir konur á besta aldri, vankaðar með kúlu höfði eftir að hafa rekið sig harkalega í glerþakið.