Hræðslan við að gera mistök

Hræðslan við að gera mistök

Hræðslan við að gera mistök virðist á stundum stjórna ákvörðunum okkar. Við erum hrædd um að bíða álitshnekkis vegna gjörða okkar, hrædd um að það sem við gerum eða hvernig við framkvæmum það falli ekki í kramið hjá þeim sem okkur þykir við vera félagslega eða jafnvel efnahagslega háð.

Hræðslan við að gera mistök virðist á stundum stjórna ákvörðunum okkar. Við erum hrædd um að bíða álitshnekkis vegna gjörða okkar, hrædd um að það sem við gerum eða hvernig við framkvæmum það falli ekki í kramið hjá þeim sem okkur þykir við vera félagslega eða jafnvel efnahagslega háð. Á slíkum stundum reynum við jafnvel að færa rök fyrir því gagnvart sjálfum okkur að það sé einfaldlega best að sitja heima og gera ekki neitt. Í því felist engin áhætta og ólíklegt að maður geri mistök.

Við sem tilheyrum kristinni kirkju erum hér engin undantekning. Okkur hættir til að sitja heima í stað þess að axla ábyrgð í samfélaginu. Og það ekki aðeins af ótta við hvernig okkar nánustu líkar það sem við gerum né af ótta við það hvernig yfirmenn okkar á vinnustöðum bregðast við gerðum okkar heldur af ótta við það hvernig fólk sem við þekkjum ekki neitt bregst við. Í stað þess að fylgja köllun kristinnar manneskju, lokum við okkur sjálf innan múra óttans.

Sérhver kristin manneskja er kölluð til að vera samverkamaður Krists í heiminum. Þrátt fyrir mannlega veikleika er það verkefni kristins fólks að láta ekki sitt eftir liggja, heldur nota þá hæfileika, þær gjafir sem Guð hefur gefið sérhverjum einstaklingi til þess að taka saman höndum og hafa áhrif í þessari veröld. Það er blessun falin í því að vera samverkamaður. Hér er engum falið verkefni sem hann þarf að axla einn síns liðs heldur er hin kristna kirkja að verki sem teymi undir handleiðslu Krists. Sem hluti af þessu teymi berum við ábyrgð gagnvart Kristi, sjálfum okkur og öðrum. Það uppbyggilega og góða gerist enn frekar þegar við tökum þessa ábyrgð alvarlega og leggjum okkar skerf til verksins.

Hvernig getur þessi skerfur okkar litið út? Innlegg okkar getur verið falið í því að við önnumst fyrirbæn og biðjum um að kærleikur Krists sé leiðarljós í ákvörðunum okkar og annarra. Framlag okkar getur líka einfaldlega verið í því að við komum vel fram við aðra og gefum þeim manneskjum sem við mætum jákvæð viðbrögð við þeirra gjörðum. Vonin sem við berum í brjósti er líka mikilvæg í þessu samhengi og hana getum við styrkt meðal annars með því að styðja við þau verkefni sem stuðla að sjálfbærni. Þá er einnig mikilvægt að við tölum vel við okkur sjálf og um okkur sjálf, hrósum okkur þegar það á við og förum varlega í að álasa sjálfum okkur. Með því að hvetja aðra sem eru að gera gott, leggja jákvæð orð á vogarskálarnar og brosa er hálfur sigur unninn.

Við þurfum að vinna sigur á hræðslunni, setja kærleika og von í fyrsta sæti í lífi okkar. Sem samverkafólk getum við staðið saman, hlýtt á vilja Drottins og gengið fram veginn í stað þess að sitja heima. Hvar værum við í dag ef Kristur hefði setið heima í Nasaret?