Trúin treystir Guði

Trúin treystir Guði

Trúin týnir sjálfri sér ekki í að rannsaka hvernig Jesús gat fjölgað brauðunum, ekki frekar en þú týnir þér í að rannsaka afhverju sólin skín og grasið vex. Þú vilt um fram allt njóta og endurnærast af dýrðinni.

Þú fagra tíð, er fjall og dal Með fagurt þekur blómaval Og skrýðir grænu skrúði Vor hjörtu fögru skrúði skrýð Og skærum dyggða blómum prýð Þú Drottins dýra brúði.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Nú stendur hæst hátíð á Fáskrúðsfirði sem vitnar um fagra tíð. Sumarið skrýðir fjöll og dal sínum fegursta skrúða og mannsins andi lyftist í hæðir þar sem gestrisni og velgjörðir umvefja allt. Maður er manns gaman sannast hér á vinamóti þar sem við njótum lífsins.

Hátíð merkir að tíðin rís hærra en venjulega og maðurinn lyftist upp á efri hæðina í sjálfum sér eins og þegar himinn trúarinnar hvelfist yfir alla tilveru mannsins þar sem hann finnur áþreifanlega til snertingar við eilífðina og Guð. Í guðspjallinu sem ég las og tileinkað er þessari helgi kirkjuársins segir líka frá hátíð á vinamóti. Fjögur þúsund manns eru samankomin í óbyggðum á þriggja daga útihátíð. Tilefnið er að vera í samfélagi með Jesú Kristi, hlusta, fræðast og styrkjast af sál og anda í gefandi trú. Nú segir frásögnin frá því að fólkið var orðið svangt. Jesús spyr lærisveina sína hve mikið brauð væri til staðar. Jú, þau voru sjö og fáeinir fiskar. Hann bauð fólkinu að setjast, tók brauðin, braut þau, gjörði þakkir og bað lærisveina sína um að gefa fólkinu. Fólkið borðaði og allir urðu saddir. Svo var leifunum safnað sem fylltu sjö heilar körfur.

Ég spyr sunnudagsskólabörnin mín gjarnan, þegar við lesum þessa sögu, hvernig það geti gerst að ein kartafla sem sett er í jörð á vori skuli verða orðin að mörgum kartöflum í lok sumars. Og enn spyr ég hvort geti verið að einhver maður sé þarna niðri í jörðinni til að framleiða öll þessi jarðepli. Þá brosa börnin og segja í einum kór: Ne, hei. Það er ekkert svoleiðis. Þetta gerist bara einhvern veginn.

Mikið undur er náttúran til lands og sjávar sem stendur svo ofar öllum skilningi mannsins og hvað þá mætti hans. Við heyrum margt og sjáum enn meira. En mikið gengur okkur illa að skýra út innsta eðli og framvindu fyrirbæra og atburða. Samt þráir maðurinn fátt meira en að vita, þekkja og skilja. Sagan um manninn og hestinn sem lokaðir voru af innan hárra múra er táknræn um það. Þeir höfðu allt sem hugur og löngun girntist til að lifa og njóta. Hesturinn undi glaður við sitt, nærðist og hvíldist, naut samfélags með öðrum hestum, fjölgaði sér og naut hamingjunnar. En maðurinn varð viðþolslaus af eirðarleysi. Hann hugsaði um það eitt að sigrast á þeirri raun að komast yfir múrinn sem lokaði hann af. Vita hvað væri hinum megin.

Þessi saga minnir á íslensku landnámsmennina sem sem ýttu seglbátum sínum úr vör í Noregi og tóku stefnuna á opið haf án þess einu sinni að vita hvort nokkurt land væri fyrir stafni. Þeir vissu ekki einu sinni, að jörðin væri hnöttótt, heldur héldu að væri flöt og á kreiki voru ýmsar kenningar um að við ystu hafsins mörk væru beljandi fossar sem allt gleyptu.. En þeir héldu samt ótrauðir af stað með vonina að leiðarljósi. Og námu land á Íslandi. Það var útrás í orðsins fyllstu merkingu þar sem mikið reyndi á þrek og þor, djörfung og metnað.

Og það var ekki síður mikil hættuför sem franskir sjómenn fóru forðum á úfnum opnu hafi við þanin segl á fiskibátum frá Frakklandi til veiða við íslenskar strendur. Og þeir voru margir sem ekki komust aftur í heimahöfn.

En þrátt fyrir alla sigra og ósigra mannsins yfir sjálfum sér, alla mannsins reynslu, þekkingu og mátt, þá getur hann ekki einu sinni nærst né haldið á sér hita nema njóta gróanda sköpunarinnar og dýranna sem honum eru falin til forsjár. Sagan af brauðunum sjö og fáeinum fiskum er táknræn fyrir það. Sístæð sköpunin umvefur mannsins líf. Það er kraftaverkið sem við njótum frá morgni til kvölds, alla daga þar sem almáttugur Guð umvefur lífið í velgjörðum sínum. Og það er nóg til fyrir alla sem jörðina gista, en mannsins valdi hefur tekist illa við að skipta svo allir fái að njóta af réttlæti. Jésus lét lærisveina deila brauðinu út til allra og allir fengu meira en nóg og urðu mettir. Það eru skýr skilaboð og vitna um hina félagslegu umhyggju sem Guð þráir að megi umvefja mannlífið á jörðinni.

Það finnum við vel hér á frönskum dögum á Fáskrúðsfirði. Heimafólk býður til vinamóts þar sem gestrisni er í öndvegi, brottfluttir Fáskrúðsfirðingar leita heimahaga og góða gesti ber að garði og njóta fagnaðarfunda og á meðal þeirra eru franskt vinabæjarfólk sem kemur langa leið til að rækta sambandið við fólkið á Fáskrúðsfirði. Hér er nóg brauð og margir fiskar á borðum. En umframallt er það vináttan sem umvefur samfélag og vekur gleði í huga og hjarta. Það eru lífsgæðin sem reynast drýgst þegar upp er staðið. Þau verða ekki metin á vogarskálum magns eða stærðar, heldur af einlægri tilfinningu og upplifun. Og hér sannast spakmælið forna sem segir: “Römm er sú taug, er rekka dregur, föðurtúna til. Og við sömu taug kvað skáldið:

Móðurjörð, hvar maður fæðist mun hún eigi flestum kær? Þar sem ljósið lífi glæðist og lítil sköpun þroska nær.

Ekki verður þessi taug vináttunnar með átthögum og ættfólki vegin og metin á mælikvörðum. Hún er innra með þér eins og samofin inn í sálina

Það gildir nefninlega líka um lifandi trú. Hún verður ekki vegin og metin á efnislegum vogarskálum. Trúin týnir sjálfri sér ekki í að rannsaka hvernig Jesús gat fjölgað brauðunum, ekki frekar en þú týnir þér í að rannsaka afhverju sólin skín og grasið vex. Þú vilt um fram allt njóta og endurnærast af dýrðinni.

Sagan um brauðin og fiskana er ekki frásögn af furðum náttúrunnar. Trúin treystir Guði þar sem við lofum og þökkum allar velgjörðir hans við lífið með lofsöng og þakkargjörð.

Einbúinn fastur og týndur árum saman á óbyggðri, en fjrósamri eyju, sagðist hafa fundið tilgang lífsins í, að sólin kom upp á hverjum morgni og enginn vissi hvað aðfallið að ströndinni bæri í skauti sínu. Hver dagur er nýr og dýrmætur og öll eigum við hann saman í blíðu og stríðu. Máttarverkin eru stórbrotin allt um kring sem við njótum ríkulega án þess að nokkur mannsins hönd komi þar að verki. Þar í miðju er almáttugur og kærleiksríkur Guð sem skapar og blessar mannlífi til farsældar. Hann kallar til fylgdar við sig í orði sínu og verkum, laðar og leiðir án þess að svipta manninn mennsku sinni sem í felst að velja og hafna. Og máttarverkin hans eru stór og ný á hverjum degi.

Í dag minnir Guð áþreifanlega á nærveru sína í sístæðri sköpun sinni. Kraftaverkin blasa við í gróanda og sköpun náttúrnnar og í dag verða mörg brauð að fleiri brauðum þar sem vinafólk deilir kjörum saman af gestrisni og gleði, ræktar einlæga og trausta vináttu og opnar faðminn á móti lífinu þar sem trú, von og kærleikur ráða ríkjum. Guði séu þakkir því friður Guðs sem æðri er öllum skilningi varðveiti hjörtu vor og hugsanir vorar í Kristi Jesú, Drottni vorum. Amen.

Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“

Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“

Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“

Þeir sögðu: „Sjö.“

Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. 9En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara. Mark 8.1-9