Helvíti og himnaríki okkar allra

Helvíti og himnaríki okkar allra

Mér leið reyndar stundum illa þegar ég var barn. Fékk óvænt hræðsluköst út af engu. Jafnvel þegar ég var úti að leika með krökkunum og allt var í himna lagi. En pabbi og mamma voru góð. Þau hugguðu mig og töldu í mig kjark en þeim datt aldrei í hug að þetta væri eitthvað óvenjulegt. Að eitthvað væri að mér.

gluggi.jpg
Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta Hann situr í kórtröppunum með formbrauð í poka.

Mér finnst svo erfitt að trúa því að þetta sé líf mitt núna. Allt út af einu slysi. Ég hefði aldrei trúað, ef ég hefði ekki reynt það á eigin skinni, að ég ætti eftir að upplifa að eiga ekki fyrir jólamatnum. Ég hef alltaf staðið mig í vinnu en samt á ég ekki fyrir neinu.

Það er kannski ekki verst að eiga ekki fyrir almennilegum mat. Ég get alltaf borðað spagettí og brauð. Það er ódýrt og ég verð saddur. Það versta er skömmin. Skömmin yfir því að eiga ekki fyrir góðum jólagjöfum handa barnabörnunum. Skömmin yfir því að vera fátækur.

Mér finnst eins og fólk horfi öðruvísi á mig. Eins og þeim finnist að ég hafi ekki staðið mig. Að ég sé aumingi.

Skömmin er verst.

Ég hefði aldrei trúað því að ég þyrfti að þiggja mataraðstoð. MATARAÐSTOÐ! Það er ekki fólk eins og ég sem fær svoleiðis.

Ég er bara venjulegur, heiðarlegur íslenskur karlmaður sem lenti í því að verða öryrki. Mér skilst svo sem að ég sé ekki einn því rúmlega 40 þúsund Íslendinga eru víst undir lágtekjumörkum.

Ég er þó þakklátur fyrir að staðan var ekki svona þegar strákarnir mínir voru litlir. Þótt ég hafi aldrei átt mikið þá fengu þeir í það minnsta jólagjafir og jólamat.

Æ, hvað ég skammast mín.

Þyrst var ég og þér gáfuð mér að drekka Hún tendur við skírnarfontinn og á honum er kanna með vatni. Vatninu er hellt í skálina þegar sagt er frá brunninum og drukkið þegar talað er um þorstann.

Fyrir tveimur árum eignaðist ég nýtt líf. Þá kom brunnur í þorpið okkar. Það var Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi sem safnaði fyrir brunninum og sá til þess að hann var byggður.

Þú trúir því ekki hvað hann breytti miklu fyrir mig. Fyrir okkur öll. Áður en brunnurinn kom þurfti ég að ganga í eina og hálfa klukkustund að vatnsbólinu og sækja þangað vatn fyrir fjölskylduna mína. Ég á bara eldri bræður og móðir mín er dáin svo að ég þurfti að sinna þessu ein. Yfirleitt reyndi ég að komast af með eina ferð á dag. En það kom fyrir að ég þyrfti að fara tvær eða jafnvel þrjár.

Magaverkurinn er horfinn og fólkið í þorpinu segist ekki finna jafn mikið fyrir slappleika. Þau segja að það sé vegna vatnsins, að óhreina vatnið hafi gert okkur veik.

Þegar ég vakna þyrst á morgnanna er stutt að sækja vatnið og svala þorstanum. Þegar ég hugsa út í það, þá er ég eiginlega hætt að vakna svona þyrst eins og ég gerði alltaf áður, með þurrar kverkar.

Takk fyrir vatnið!

Nakin var ég og þér klædduð mig Hún stendur við krossinn stóra og við hann liggur svört, hlý slá. Hún tekur hana fljótlega og vefur henni utan um sig. Henni er kalt.

Það mætti halda að ég væri með smitandi, hættulegan sjúkdóm. Ég átti alltaf fullt af vinum en fyrir um tveimur árum breyttist allt. Það gerðist eiginlega á sama tíma og hlutirnir versnuðu heima. Mamma fór að verða verri um þetta leyti. Hún hætti alveg að reyna. Fór varla á fætur lengur nema þá til að redda sér flösku. Oftast kom samt einhver með áfengið til hennar. Einhverjir karlar.

Það var eins og krakkarnir skildu það um leið. Kannski sást það á mér að mamma var alkóhólisti. Alla vega versnaði allt á sama tíma. Strákarnir fóru að stríða mér. Og þá var eins og stelpurnar vildu ekki vera með mér lengur. Ég átti lengi vel eina vinkonu en hún þorir ekki að tala við mig lengur.

Stundum líður mér eins og ég sé ekki í neinum fötum. Að allt sjáist utan á mér. Hvernig mér líður. Hvað ég er ómerkileg. Að ég sé nakin.

Orðin eru verst. Stundum lemja þau mig, eyðileggja dótið mitt, fötin mín. En orðin eru verst.

Nú er ég flutt til afa og ömmu og fæ ekki lengur að hitta mömmu. Ég skil samt ekki af hverju. Afi og amma eru ekkert betri. Þau gefa mér reyndar að borða og fara á fætur á morgnanna en þau eru alltaf full um helgar og stundum í miðri viku. Ég fer stundum heim til mömmu þótt ég megi það ekki. Einhver þarf að hjálpa henni. Stundum verður hún glöð þegar ég kem en hún er líka oft reið. Hún vill ekki segja mér hvar pabbi er.

Skólasálfræðingurinn segir að ég eigi að hætta á facebook því að krakkarnir eru líka vond við mig þar. Samt hef ég ekki sagt henni frá þessu versta.

Stundum langar mig bara að hverfa. Það getur engin hjálpað mér. Á facebook get ég alla vega ímyndað mér hvernig er að vera venjuleg. Eiga vini og lifa eðlilegu lífi. Að allt sé eins og það var.

Sjúkur var ég og þér vitjuðuð mín Hann stendur við flygilinn og á honum stendur ómerkt pilluglas.

Ég er lánsamur að vera á lífi. Það eru orðin mörg ár síðan ég reyndi að taka líf mitt. Kannski átti það aldrei að takast en vanlíðanin var svo hræðileg. Angistin svo skelfileg. Allt var bara svart. Engin framtíð.

Ég var kominn yfir tvítugt þegar þetta fór að verða erfitt í alvörunni. Mér leið reyndar stundum illa þegar ég var barn. Fékk óvænt hræðsluköst út af engu. Jafnvel þegar ég var úti að leika með krökkunum og allt var í himna lagi. En pabbi og mamma voru góð. Þau hugguðu mig og töldu í mig kjark en þeim datt aldrei í hug að þetta væri eitthvað óvenjulegt. Að eitthvað væri að mér.

Upp úr tvítugu fór þunglyndið að versna til muna. Ég hætti að gleðjast yfir nokkru. Stundum gat ég ekki farið fram úr rúminu dögum saman. Ég gat ekki klárað neitt í skólanum og datt út. Ég fór nokkrum sinnum inn á geðdeild en ekkert hjálpaði. Mér fannst ég verða flatur af lyfjunum en svo leið mér líka oft hryllilega án þeirra. Ef mér leið betur af þeim þá hætti ég alltaf og vildi trúa því að mér væri batnað.

Það var ekki fyrr en ég fór inn á geðdeild eftir að hafa reynt að klára þetta, að ég fékk alvöru hjálp. Það var eins og bæði fjölskyldan og geðlæknirinn legðust á eitt við að hjálpa mér. Kannski var ég í fyrsta sinn, tilbúinn til að þiggja hjálp.

Það sem hefur bjargað mér í dag eru þessi lyf, sálfræðimeðferðin sem ég verð líklega alltaf að vera í og fjölskyldan mín. Mamma og pabbi. Ég er búin að lofa því að hætta aldrei á lyfjunum sjálfur. Og hef staðið við það hingað til.

Það sem hjálpar mér mest er kannski það að heima hjá mér eru geðsjúkdómar og þunglyndi rætt yfir kvöldmatnum eins og ekkert sé eðlilegra. Enda er ekkert eðlilegra.

Ég er alltaf að sjá það betur og betur að það er ekkert skammarlegra að vera með geðsjúkdóm en að vera með líkamlegan sjúkdóm. Það er líka hægt að lækna sál þó oft sé það flóknara.

Ég á lífsviljann sem ég hef í dag, góðu fólki að þakka.

--------------------------

Ég trúi því að til sé bæði himnaríki og helvíti. En ég trúi ekki að þetta séu staðir sem við förum á eftir þetta líf. Að hin góðu fari til himnaríkis eins og sauðirnir til hægri og hin vondu fari til helvítis eins og hafrarnir til vinstri.

Það er ekkert í Biblíunni sem styður frekar við þær hugmyndir en að himnaríki og helvíti sé ástand hér og nú, í þessu lífi. Skapað af mannfólkinu sjálfu.

Við höfum fengið að líta hér í gegnum nokkur skráargöt, inn í helvíti og himnaríki nokkurra einstaklinga. Dæmin gætu öll verið raunveruleg þó þau séu öll tilbúin. Þau eru að sjálfsögðu mun fleiri og fjölbreyttari en öll kynnumst við bæði helvíti og himnaríki einhvern tíma á ævinni. Ekkert okkar er undanskilið.

Guð skapar ekki helvíti og Guð sendir okkur ekki í helvíti. Það gerum við sjálf.

Markmið okkar hlýtur að vera líf í himnaríki. Himnaríki er þá líf í góðum tengslum við fólk. Líf þar sem við skiptum fólki ekki í flokka. Líf þar sem við getum gert ráð fyrir hjálp frá náunganum og þar sem við erum tilbúin að rétta öllum hjálparhönd, án fordóma. Líf þar sem allt fólk getur lifað með reisn.

Guð er einmitt krafturinn sem getur reist okkur við, dregið okkur upp og vill nýta okkur til að byggja himnaríki fyrir allt fólk. Réttum fram hendurnar og opnum hjörtu okkar og tökum á móti þessum krafti. Amen.