Réttlæti, fegurð og von

Réttlæti, fegurð og von

Með augum trúarinnar er það gluggasýn yfir í veruleika sem er eilífur í birtu sinni og endalaust fagur og fullkominn af því að Jesús er þannig sjálfur og vill að allt mannkyn öðlist þessa opinberun, frelsi hans, réttlæti og frið í Guði.

Mér fór einsog prestinum, föðurbróður mínum, að hann gat ekki hugsað sér að lesa upp texta úr Biblíunni af því að minnst var á þann í neðra. Og núna eru bæði pistillinn úr Opinberunarbókinni og kaflinn úr Jóhannesarguðspjalli um andstæðing Guðs. Það læðist að mér sá grunur að frændi hefði bara valið aðra textaröð, eða, ef ekki hefði verið sá kostur að hann hefði bara valið annan messudag að fara eftir. Föðurbróðir minn var alinn upp í anda nýguðfræðinnar en eitt helsta einkenni hennar mótaði boðun fagnaðarerindisins fyrri hluta síðustu aldar og allt fram yfir heimsstríðin. Þetta var bakgrunnur hans og byggðist á kenningu sem ég las meðal annars um í Straumum, tímariti nýguðfræðinnar þar sem afi minn átti sína grein líka. Þeir vildu einfaldlega leggja alla áherslu á hið góða og jákvæða. Boðunin var í þeim anda og þeir vildu að í kirkjunni heyrðist bara það sem var gott og fagurt og uppbyggilegt. Hið illa var í raun og veru dáið samkvæmt þessari stefnu. Ekki er að efa að messan og prédikunin var alltaf uppbyggileg og fólkið fékk að þiggja fagurt og gott veganesti heim í hús. Prédikunin var oft ljóðræn og það má líklega halda því fram að þessi guðfræði fegurðarinnar hafi staðið svolítið á öxlum bókmenntalegrar rómantíkur 19. aldar. Sú stefna var hreint ekki vond fyrir Ísland af því að hún leiddi af sér aukið sjálfstæði þjóðarinnar og vitund um fegurð og ríkidæmi náttúrunnar sem við þekkjum enn þann dag í dag sem eitt af okkar mestu fjársjóðum, lýðveldið og náttúruundur landsins, þetta tvennt sem við viljum varðveita. Þessi guðfræði birti nýjar og margar myndir af voninni og það hefur ef til vill verið hennar helsti aðall í heimi þar sem frosthörkur og mannskæðar vetrarvertíðir tóku mörg líf fámennrar þjóðar en skortur var oft við sultarmörk ef nokkuð bar útaf. Það hefur eflaust þurft skáld í alla prédikunarstóla kirkjunnar á slíkum misserum þegar áföllin dundu yfir í héraði. Oft lá sortinn bókstaflega yfir byggðum landsins þegar sjórinn tók sinn vægðarlausa toll og fjallið hirti smalann. Seigla þjóðarinnar þurfti von og það var að mínu viti það besta sem nýguðfræðin gaf henni. Enn er kallað eftir því að áherslan færist yfir frá svartsýni til vonar svo ég hallast að því að þessi gamla stefna blundi enn í okkur.

Heilstæð guðfræði og siðbót

Í anda nýguðfræðinnar ætla ég ekkert að fara út í það núna af hverju þessi stefna vék fyrir klassískri guðfræði og ekki síst fyrir heittrúarstefnunni sem síðar kom og náði hámarki í frændum mínum úr Meðallandinu, Biskupi Sigurbirni Einarssyni, þar sem biskup er enn með stórum staf í vitund þjóðarinnar og svo í Karli sem er einlægur trúmaður rótfastur og lesinn í klassískri trúar- og bókmenntahefð þjóðarinnar. Þá nefni ég bara sem fulltrúa fyrir þá stefnu sem varð ofaná og byggðist á heilstæðri framsetningu trúfræðinnar og besta lærdómi og yfirsýn. Þetta járn er núna hamrað heitt í anda 500 ára áminningar um leiðréttingarnar 95 sem Lúther vildi ná í gegn innan kirkjunnar og leiddi til siðbótar sem við njótum enn. Við viljum siðbætta kirkju sem vill vera stöðugt að bæta sig, endurbæta, kannast við ranglæti og misgjörðir og leita fyrirgefningar, kirkju sem vill vera í stöðugri siðbót í anda Lúthers með það markmið fyrir augum að ná sáttargjörð og friði. Aflátssölunni var hafnað sem villu m.a. vegna þess að það dró úr mikilvægi þess að fólk bætti ráð sitt og stæði réttlætis megin í lifanda lífi. Þessar 95 áréttingar sínar sem áttu eflaust að verða áauki gömlu kirkjunnar en urðu ofaná með stofnun nýrra kirkjudeilda, negldi dr. Marteinn Lúther á dyrnar í Hallarkirkjunni í Wittenberg árið 1517 og við minnumst núna á ýmsan hátt. Síðast þegar ég var að minnast við þessi stef var ég leiðsögumaður fyrir hóp ritara og aðalritara samkirkjunefnda Norðurlanda og Eistrasaltsríkjanna sem héldu fund sinn á Íslandi. Það vantaði leiðsögumann í Skálholt og um nokkrar perlur Suðurlands á miðvikudaginn var. Það var bara gaman í góðum félagsskap en líka afar fróðlegt að sitja fundinn þeirra í Skálholti, hlýða á erindi og skapa tengsl við vel meinandi fólk sem vill að allar kirkjudeildir og trúfélög starfi saman að friði og skilningi í þessum heimi, starfi saman að ábyrgð gagnvart umhverfi sínu, gagnvart komandi kynslóðum og jöfnuði í heiminum og gagnvart ábyrgð mannsins á vistkerfum veraldarinnar, kerfum sem eru miklu eldri en mannkynið. Það eru sannarlega markmið sem bæði Lútherska heimssambandið og Alkirkjuráðið eru að stefna að til að heimurinn verði ekki bara betri heldur til að mannkyn öðlist æ meiri von um bjartari framtíð. Ekki er það ósvipuð áhersla og var þegar önnur vá steðjaði að heiminum en einmitt núna með yfirvofandi háska af hlýnun jarðar með ófyrirsjáanlegum veðurbreytingum og breyttum lífsskilyrðum. En í ljósi sögunnar er rétt að byrja að meta anda samtíðarinnar svo við vitum hverja við erum að tala við og hverja við hvetjum til dáða. Í þeim efnum þurfum við að skilja hismið frá kjarnanum og sjá í gegnum allt lýðsskrumið sem miðar að því að reisa múra á milli þjóða og loka fólk af í sínum heimi. Það hét áður ánauð og er einnig vá og háski sem gæti skyggt á þá von sem mannkyni hefur þegar verið rétt af himnum og við höfum í höndum okkar þrátt fyrir allt.

Fjölbreytileiki og lausnir

Þjóðin hefur öðlast miklu margbreytilegri ásýnd í tali og trú en nokkru sinni fyrr, nema ef vera kynni á landsnámsöldinni ef rýnt er í gegnum pólitíska framsetningu Landnámu. Ef það er réttlætanleg hugrenning hjá einum einföldum presti erum við í góðum málum. Það gæti svo sannarlega þýtt að við eigum raunhæfa von um nýtt upphaf. Fjölbreytileiki mannlífsins á okkar dögum eykur von um að fleiri hafi sitthvað fram að færa sem gæti orðið til nýrra lausna á gömlum vanda. En þar sem ég er í þokkalegu jafnvægi milli nýguðfræði góðmennskunnar og sígildrar guðfræði hinna lærðustu guðfræðinga vík ég mér ekki undan því að draga fram það sem haldið er á lofti núna um hvað einkennir nútíma okkar. Eftir seinni heimsstyrjöldina var talað um að fólk væri post-modernískt en það er talið að með þeirri stefnu hafi menn gert upp við vísindahyggjuna eða nútímahyggjuna sem einkenndi upphaf 20. aldar. (Þannig að nýguðfræðin var á vissan hátt í anda hennar.) Svo komu Bítlarnir og þeir eru oft taldir gott dæmi um þetta uppgjör og allir geta skilið það svo vel. Þessari stefnu fylgdi margbreytileiki og gælur við allar stefnur, öllu laust saman einsog í Frank Zappa, og líka í byggingarstíl þar sem mörgum stílbrigðum var bókstaflega steypt saman og samræminu var hafnað. Núna er aftur verið að koma fram með andsvar og haldið er á loft einhvers konar fullyrðingum um einsleitan uppruna eða einsleit kennileiti heilu þjóðanna, hversu galið sem það annars er. Til að ná þessu fram þarf að búa til „annars konar sannleika“ um fortíð og samtíð og það er einmitt það sem hefur verið að gerast í ólíklegustu löndum, meira að segja vestan hafs í Bandaríkjum Norður Ameríku. Svo er unnið að því að kæfa staðreyndir um hlýnun jarðar og æ oftar er tal um samfélagið sett fram í slagorðinu „við og þau“. Uppúr Biblíunni gæti þetta verið kallað faríseismi út frá orðum faríseans: „Góði Guð, takk fyrir að ég er ekki einsog þetta fólk.“ Þarna eru komnar fram vísbendingar um að við gætum farið inná nýja sviðsmynd sem seinna verður kölluð post-truth, stefnu sem hafnar því að við þurfum alltaf að segja satt eða byggja á staðreyndum. Vonir mínar standa til þess að ef þetta tímabil þarf að verða veruleiki okkar verði það stutt tímabil í mannkynssögunni af því við þurfum ekki á því að halda að Göbbels vakni upp í hverri grein. Vonin er að við byggjum á því sem er sannast á hverjum tíma svo að við breytum rétt og gerum gott eitt og heimurinn okkar eigi von um að verða sú fagra veröld sem Guð vill að hún verði og allir góðir menn vilja stefna að með góðri breytni sinni og traustri trú. Í þeim efnum eru trú, von og kærleikur óaðskiljanlegar myndir af þeim veruleika sem felst í fagnaðarerindinu og kirkjan hefur fyrir stafni í myndinni af Jesú Kristi.

Sannleikurinn og frelsi mannsins

Biblían lýsir því vel allt frá elstu ritum til hinna nýjustu bóka hvernig sannleikurinn er ofaná af því að það er hann sem gefur líf. Í anda nýguðfræðinnar myndi ég ekki segja að lygin, aftur á móti, leiði dauða og bölvun yfir allt fólk. Við skulum halda okkur við lífið og það sem gefur líf. Það segir líka sá sem dó og varð aftur lifandi. Það sem er einna merkilegast í framsetningunni á fagnaðarerindinu er að hér er alltaf talað við hvern og einn. Við tökum eftir því að þannig er það aftur og aftur í Heilagri Ritningu. Sagan af því hvernig Guð vill bjarga manneskjunni er nær alltaf sett fram sem hjálp við eina tiltekna manneskju. Persónan er mikilvægasti viðtakandinn og það er þess vegna sem Drottinn segir í boðorðunum tíu „Þú skalt ...“ með áherslunni á þig og mig. „Skyldan“ er í hliðarsætinu – þetta er leiðsögn – af því að hér skiptir öllu máli að hann er að tala við þig. Eða einsog einn ágætur heimspekingur sagði í merkilegri bók um sambandið við Guð og samræðurnar við hann: „Ég og þú.“ Hann kallaði bókina sína „Ég og þú“ sem í fyrstu gæti virst sem nokkur sjálfmiðlægni en er þegar betur er að gáð tal um Drottinn, erindi hans og samband þeirra tveggja. Það gerir Guð. Hann talar og minnir á vonina sem maðurinn á um frelsun: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. ...“ Það segir líka Jesús þegar hann lyftir allri von, „Vertu trúr/vertu trú allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“

Sigur lífsins – í Kristi

Á sama hátt og vonin er í höndum hverrar manneskju er vonin svo rík að það er nóg af henni fyrir alla og um alla framtíð. Ríkidæmi hans er áréttað aftur og aftur svo að ef við þiggjum leiðsögn Guðs mun okkur vel farnast og ef við leitumst við að heiðra Föður vorn og Drottinn og sigur hans á því sem ekki mátti nefna í eina tíð og ef við varðveitum orð hans og höldum okkur við það sem við ætlum sannast og ljósast í boðskap hans þá skulum við aldrei að eilífu deyja. Svo mikinn hlut hefur Drottinn gefið okkur í sigri sínum að okkur mun bæði farnast vel í lengd og bráð, undir vernd hans og eftir stefnu hans. Svo mikil er elska hans á manneskjunni og framtíð okkar að hann gaf þér og mér ekki bara innsýn í framtíðarhorfur mannsins heldur innsýn í miklu meira. Með augum trúarinnar er það gluggasýn yfir í veruleika sem er eilífur í birtu sinni og endalaust fagur og fullkominn af því að Jesús er þannig sjálfur og vill að allt mannkyn öðlist þessa opinberun, frelsi hans, réttlæti og frið í Guði.

Hugleiðingin er að grunni til prédikun mín í Gaulverjabæjarkirkju 3. sunnudag í föstu, 19. mars 2017 sem er útlegging á eftirfarandi textum dagsins. Þessi messudagur heitir Okuli sem þýðir eiginlega Auga en dagurinn leggur áherslu á eftirfylgd við Jesú eða að fara eftir því sem hann boðar. Vikan er upptaktur að miðföstu og kyrruviku.

Lexía: 2Mós 20.1-3, 7-8, 12-17 Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.

Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Pistill: Opb 2.8-11 Engli safnaðarins í Smyrnu skaltu rita: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi: Ég þekki þrengingu þína og fátækt – en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim sem segja sjálfa sig vera Gyðinga en eru það ekki heldur samkunda Satans. Kvíð þú ekki því sem þú átt að líða. Djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi til þess að reyna yður og þér munuð þola þrengingu í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins. Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.   Guðspjall: Jóh 8.42-51 Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“ Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“