Að takast á við vondar aðstæður

Að takast á við vondar aðstæður

Tveir menn á krossi tókust á við vanda sinn á ólíkan hátt. Það má margt læra af þeim. Annar opnaði sig fyrir Kristi, hinn atyrti hann. Afleiðingarnar voru ólíkar. Hvaða áhrif hefur það hvernig við tökumst á við vanda okkar? Hvar leitum við hjálpar?
Bára Friðriksdóttir - andlitsmyndBára Friðriksdóttir
21. janúar 2010

Viðhorf okkar til hlutanna hefur mikið að segja til um hvernig við tökumst á við aðstæður. Það er fróðlegt að sjá hvernig ræningjarnir tveir á krossunum við hlið Jesú tókust á við sínar aðstæður.

„Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt.“ Lk.23.42

Sagði annar þeirra. Hann álasaði hinum ræningjanum með því að benda á að þeir væru réttilega að taka út makleg málagjöld en þessi hefði ekkert illt gjört. Á þennan sterka hátt játaði ræninginn trú sína á að Jesús væri sonur Guðs.

Hinn ræninginn hafði atyrt Jesú á sama hátt og hermennirnir. Hann gerði kaldhæðna kröfu á Jesú: “Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu þá sjálfum þér og okkur.”

Það má horfa á allt mannkynið í þessum tveim ólánsmönnum. Gjörðir þeirra voru að koma þeim í koll, en viðbrögð þeirra voru gjörólík. Viðbrögð þeirra við aðsteðjandi vanda höfðu líka ólíkar afleiðingar. Þannig er okkur einnig farið. Við stöndum reglulega frammi fyrir aðstæðum sem geta ógnað okkur. Það skiptir höfuðmáli hvernig við bregðumst við þeim. Strúturinn stingur höfðinu í sandinn við aðsteðjandi hættu. Hvað gerum við? Tökumst við á við aðstæðurnar eða flýjum við af hólmi? Það leiðir til ólíkrar niðurstöðu.

Kínverjar eiga hugtak sem lýsir kreppu. Það er samsett úr tveim öðrum hugtökum. Annað þýðir ótti, hitt þýðir tækifæri. Þeir sjá að í eðlilegum aðstæðum lífsins þar sem fólk glímir við kreppu, þá felst bæði ógn og tækifæri. Við þurfum að opna huga okkar fyrir öllum mögulegum leiðum og meta svo aðstæður, í stað þess að fyllast af óttanum sem stendur okkur nærri í glímunni. Í Jóhannesarbréfi segir að fullkomin elska reki út óttann. Þegar Jesús fær að höndla okkur með kærleika sínum, víkur óttinn fyrir elskunni.

Skoðum hvað við getum lært af samskiptum ræningjanna og Jesú.

Annar þeirra reyndi að halda sársauka sínum í fjarlægð með því að hreita ónotum í samferðamann sinn. Við þekkjum öll slík dæmi. Oftast eru viðbrögðin út af sársauka í eigin lífi þess sem atyrðir. Með því skapast fjarlægð á milli manna. Ræninginn neitaði sér um að koma til Jesú á meðan hinn ræninginn opnaði á sársauka sinn og hrópaði á hjálp himinsins. “Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt.” Jesús brást skjótt við þegar maðurinn leitaði til hans. Hann staðfesti jákvætt viðhorf sitt til mannsins og sagði: “Sannlega: segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í paradís.” Hann tók hann að sér, umfaðmaði hann í kærleika.

Drottinn bregst á sama hátt við okkur þegar við leitum til hans. Við þurfum einungis að snúa okkur til hans í bæn. Kristur býður okkur samstundis nærveru sína. Hann mætir þörf okkar þar sem hún er. Ræninginn sem leitaði ásjár Jesú fór réttlættur inn í dauða sinn, hann sá að sér, var sannur sjálfum sér og Guði. Hann fékk samvistir við Jesú í paradís eilífðarinnar þar sem ríkir stöðugt jafnvægi og réttlæti. Í dag stendur Kristur við hlið okkar sama hvaða ógn mætir. Hann gefur styrkinn til að takast á við líf okkar og er vinur í óvinveittum aðstæðum.