Ómöguleg saga

Ómöguleg saga

Kannski er spurningin sem við stöndum frammi fyrir nú, hvort við ætlum að leysa úr vandamálunum sem sköpuðust vegna efnahagshrunsins, ástæðum þess og afleiðingum eins og maðurinn í sögunni? Þ.e. beita kænsku og svindla bara aðeins meira? Eða ætlum við að bregðast við með því að vera trú í smáu jafnt sem stóru, með því að vera heiðarleg og traustsins verð? Báðar leiðirnar eru mögulegar. Báðar leiðirnar eru þekktar.

images.jpg

Það er merkilegt hversu mikið er talað um peninga í Biblíunni. Svona við fyrstu hugsun hefði maður/kona kannski haldið að í Biblíunni ættu frekar að vera textar sem fjalla um hið andlega, ást, kærleika, vináttu, líf dauða og auðvitað trú. Já, svona heimspekileg mál sem ekki er svo auðvelt að festa hendi á og snúast frekar um tilgang lífsins.

Ekki eru peningar tilgangur lífsins!

Eða hvað?

Þeir eru kannski ekki tilgangur í sjálfu sér en auðvitað skipta þeir miklu máli. Peningar auðvelda okkur lífið, gefa okkur þægindi og skapa okkur lífsgæði. Sérstaklega á þetta við um auðfengna peninga því deila má um lífsgæðin ef við þurfum að vinna svo mikið fyrir þeim að við höfum ekki tíma til að njóta þeirra.

Við sjáum í tekjublöðunum sem nýlega komu út að gæðunum er sannarlega misskipt. Karlmenn skipta flest efstu sætin í öllum stéttum. Þau sem vinna við að stjórna fjármálum landsins og fólksins er hér býr hafa mun meiri tekjur en þau sem sjá um að mennta börnin okkar og annast þau á meðan foreldrarnir eru að vinna.

Forgangsröðin er augljós.

Samt hélt ég einhvern veginn að börnin væru það dýrmætasta af öllu.

En hvers vegna er ég að tala svona mikið um peninga? Jú, það er vegna þess að guðspjall dagsins fjallar um auð, fé, ráðsmennsku og aðra veraldlega hluti.

Sem betur fer er talað um skynsemi í lexíu dagsins og kærleika í pistlinum og þannig gefa þeir textar guðspjallinu meiri dýpt. Guðspjallið er nefnilega ein undarlegasta sagan í Biblíunni og þó er af þó nokkru að taka.

Sagan segir frá manni nokkrum sem hefur misnotað aðstöðu sína og á einhvern hátt sóað eigum yfirmannsins eða ríka mannsins, eins og hann er kallaður í sögunni. Það kemur ekki fram hvort hann gerði þetta með vilja eða óvart en hann er rekinn. Ekki að undra. En áður en uppsögnin tekur gildi þá nær hann að hafa samband við skuldunauta ríka mannsins og afskrifar hluta skulda þeirra. Það kemur ekki fram hvort það er með því skilyrði að þeir greiði upp eftirstöðvarnar. Það gæti þó verið.

Sem sagt, maður sem hefur verið rekinn fyrir svindl eða í það minnsta gáleysi svindlar aðeins meira (eða tekur í það minnsta mikla áhættu með fjármuni sem ekki eru hanns) áður en hann hættir, fær fyrir það hrós. Ríki maðurinn hrósar honum fyrir kænsku og ætli hann láti ekki bara uppsögnina ganga til baka, þó ekki komi það fram.

Þetta er sem sagt alveg ómöguleg saga og það er eiginlega ekki hægt að prédika út frá henni.

Við getum svo sem reynt að lesa ýmislegt inn í hana. Að hún fjalli kannski um fyrirgefningu eða kærleika. Að það að maðurinn hafi alla vega viðurkennt það sem hann hafi gert og þess vegna hafi verið auðveldara að fyrirgefa honum en ef hann hefði neitað sök. En það er heldur langsótt . Því lítið kemur fram um það í sögunni. Þá erum við farin að lesa inn í hana eitthvað sem við viljum að sé þarna svo að boðskapurinn verði betri.

Við getum líka haldið því fram að seinni hluti sögunnar sé seinni tíma viðbót sem eigi alls ekki heima þarna, að lokaorðin vanti og til eru guðfræðingar sem halda því fram.

En sagan, eins og hún stendur, gefur okkur ekkert fallegt að byggja góða prédikun á.

Kannski er þá bara best að glíma bara við hana eins og hún stendur.

Saga án boðskapar? Er þessi saga kannski bara nokkuð raunsönn lýsing á því hvernig þetta getur orðið í fjármálaheiminum? Þar sem kænska skiptir stundum meira máli en gott siðferði?

Getur verið að þessi saga sé bara lýsing á manneskjunni eins og hún getur verið? Á „skúrkinum“ sem býr í okkur flestum en fær bara að blómstra þar sem umhverfið hvetur til þess?

Vandinn er bara sá að siðaboðskapinn vantar í söguna.

Jesús gefur okkur reyndar meira að byggja á ef við skoðum það sem hann talar um í framhaldi af sögunni eða eftir að hann hefur sagt hana. Hann fer þá að tala um að þau sem eru trú í hinu smæsta séu einnig trú í hinu stærsta en að þau sem eru ótrú í hinu smæsta séu það einnig í hinum stóru málum.

Getur verið að með því sé hann að segja okkur að við eigum að vera trú og sönn hvort sem er í starfi eða einkalífi? Hvort sem ábyrgð okkar er lítil eða stór? Að jafnvel þótt við störfum í umhverfi sem hvetur okkur til þess að breyta siðferðilega rangt og hámarka þannig gróðann, hvort sem er í vasa okkar sjálfra eða þeirra er við störfum fyrir, þá eigum við ekki að láta glepjast? Að við eigum að vera trú okkur sjálfum, þeim er við störfum fyrir og trú hinu, góða, fagra og sanna? Trú Guði?

Ekki svo vitlaus saga Kannski er þessi saga alls ekki svo vitlaus þegar upp er staðið. Hún lýsir því vel hvernig mannfólkið hegðar sér oft á tíðum og minnir okkur á að það er ekkert nýtt.

Við höfum svo sem orðið áþreifanlega vör við einmitt þessa hegðun hér á landi í tengslum við hrunið. Í kjölfarið kom í ljós að margt hafði verið aðhafst sem var löglegt en kannski ekki siðlegt. Rannsóknarskýrsla Alþingis er full af dæmum um það. Reyndar fór líka ýmislegt fram sem hvorki var löglegt né siðlegt.

Í því samhengi er kannski einmitt ágætt að lesa þessa sögu í Lúkasarguðspjalli sem minnir okkur á að þetta er ekkert séríslenskt fyrirbæri eða eitthvað sem aðeins getur gerst í nútímanum.

Manneskjan er ekkert öðruvísi nú en þá.

Manneskjan hefur ekkert breyst.

Það er aftur á móti mikilvægt að við minnum hvert annað reglulega á þetta með að vera trú í smáu. Að við minnum hvert annað á að náungakærleikur og gott siðferði er ekki síður mikilvægt í fjármálaheiminum en á heimilum okkar, í fjölskyldum og gagnvart vinum.

Kannski er spurningin sem við stöndum frammi fyrir nú, hvort við ætlum að leysa úr vandamálunum sem sköpuðust vegna efnahagshrunsins, ástæðum þess og afleiðingum eins og maðurinn í sögunni? Þ.e. beita kænsku og svindla bara aðeins meira? Eða ætlum við að bregðast við með því að vera trú í smáu jafnt sem stóru, með því að vera heiðarleg og traustsins verð?

Báðar leiðirnar eru mögulegar.

Báðar leiðirnar eru þekktar.

Við erum misjafnlega áhrifamikil í þessum málum og mörg okkar upplifa sjálfsagt að við höfum ekkert um það að segja hvernig þetta fer allt saman. Horfum kannski upp á samfélagið vera á leið aftur í sömu átt og áður, tölum um það, hneykslumst á því og erum sorgmædd yfir því. Eitt er þó sem er á okkar valdi. Við getum alltaf litið okkur nær. Við getum aðeins skapað gott og fallegt samfélag þar sem traust ríkir á meðal fólks ef við hvert og eitt erum trú í stóru sem smáu og sýnum af okkur gott siðferði í því sem okkur er treyst fyrir. Hvort sem það er í vinnu, námi eða á heimilinu. Hvort sem það er í stórum málum eða smáum. Og gerum sömu kröfu á náungann okkar, á samfélagið allt. Amen.