Hvað er Guð að sýsla?

Hvað er Guð að sýsla?

Ég sá að prestur nokkur þakkar Guði fyrir að hafa náð að verða edrú; hætta að drekka áfengi.

Ég sá að prestur nokkur þakkar Guði fyrir að hafa náð að verða edrú; hætta að drekka áfengi. Í fallegum pistli greinir presturinn okkur frá því hvað það þýði fyrir hana að vera án áfengis, hvernig nýtt líf sé – hvaða áskoranir fylgi því að vera edrú. Hún kemst að því að þetta er allt harla gott. Já, og svo þakkar hún Guði.

Ég sá einnig að þessi pistill fer ekki vel ofan í alla. Virðist fara ofan í suma eins og brennivínið fór ofan í prestinn, illa. Fólk gerir því skóna að þarna afhjúpist eina ferðina enn sú djúpstæða vitleysa sem kristin trú sé, – eða því skyldi Guð hjálpa presti á Íslandi að hætta að drekka brennivín á meðan milljónir búa við hungur í heimi, á meðan milljónum er saklausum slátrað í hernaði? Því skyldi Guð gera svona skelfilega upp á milli manna?

Þegar svona röksemdafærslur eru lagðar fram kippast sumir við. En sem betur fer ekki allir. En það má velta því fyrir sér hvursu sterkir trúmenn það eru sem koma með svona athugasemdir. Já, ég segi það því sá sem sér Guð svo persónulegan að hann standi í reddingum fyrir einstaka menn, komi jafnvel heim til þeirra á Hyundai Tucson með einkanúmerinu JESÚ, hlýtur að hafa ofboðslega sterka Guðsmynd. Það er vel. Viðkomandi þarf bara að ná að nýta sér hana til góðs.

Það er nokkuð síðan ég uppgötvaði að Guð er ekki kall á skýi, með sjónauka til þess að fylgjast með stússi mannanna, og hörpur til útleigu handa englum að spila á í góðu veðri framan við gullna hliðið. Nei, hann er í okkur, með okkur og hjá okkur. Yfir og allt um kring. Líka englarnir og allir himneskir herskarar. Hann er líka hjá, með, í, yfir, prestinum sem hætti að drekka áfengi – því þakkar hún Guði því að hún veit að sá máttur sem náði að vinna á áfengissóttinni er góður, hann er góður og bjó innra með henni sjálfri. Eða kom til hennar á einhverjum tímapunkti. Guð er sístætt afl sem við kristnir keppumst eftir að kynnast betur; hann sendi son sinn Jesú Krist hingað til okkar með kunnum afleiðingum. Það eru þau kynni sem við höfum gleggst af Guði til þessa – og farnaðist okkur misjanflega á því stefnumóti.

Við getum styrkt samband okkar við Guð með margvíslegum hætti. Ein leiðin er sú að styrkja samband sitt við sjálfan sig. Ágæt leið til þess – sem sumum lánast – er að hætta að drekka brennivín. Önnur leið er sú að gefa af sér og miðla góðu. Ein önnur er sú að tala máli Guðs og fyrirverða sig ekki fyrir samfélag sitt við hann, vitna um son hans Jesú Krist, og reyna um leið að bæta sig, keppast eftir því að verða sæmilegur maður. En líklega er albesta leiðin til þess að stykja samband sitt við Guð að lesa daglega í Biblíunni, rannsaka orð hennar og boðskap.

Einu sinni var hugleitt hvort Guð byggi í garðslöngunni. Ég efast um að það sé rétt enda hafa garðslöngur tilhneigingu til þess að flækjast í eina bendu og á endanum fara þær að leka. Guð lekur ekki, svo mikið vitum við. Hann virkar nefnilega alveg ágætlega, það er frekar að hann greiði úr manni, það er hann sem setur undir lekann.

Jesús svaraði: „Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“ (Jóhannesarguðspjall 4.13-14)