Einstefnugata númer 56

Einstefnugata númer 56

Vissir þú til að gera kraftaverk þarf maður ekki vera sterkur. Í æsku hélt ég að maður þyrfti að vera rosalega sterkur. Þetta kom upp í hugan þegar ég rýndi í orðið – krafta-verk- það verður að segjast að orðið sem slíkt löðrar af krafti og styrk – einhverju sem alls ekki öllum er gefið að hafa þ.e.a.s. krafta. Sumum er það meðfætt að vera líkamlega sterkir og öðrum ekki. Það er eitt að vera likamlega sterk/ur og hitt að vera sterk/ur á andlega sviðinu.

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.

Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.

Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.

Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?

En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.

Filippus svaraði honum: Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt.

Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:

Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?

Jesús sagði: Látið fólkið setjast niður. Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.

Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.

Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist.

Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.

Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.

Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.Jóhannes 6.1-15

Krafta-verk

Vissir þú til að gera kraftaverk þarf maður ekki vera sterkur. Í æsku hélt ég að maður þyrfti að vera rosalega sterkur. Þetta kom upp í hugan þegar ég rýndi í orðið – krafta-verk- það verður að segjast að orðið sem slíkt löðrar af krafti og styrk – einhverju sem alls ekki öllum er gefið að hafa þ.e.a.s. krafta. Sumum er það meðfætt að vera líkamlega sterkir og öðrum ekki. Það er eitt að vera likamlega sterk/ur og hitt að vera sterk/ur á andlega sviðinu. Hvernig sem við lítum á þetta er niðurstaðan ætíð sú – á hvern hátt lít ég á krafta og verk. Það er svolítið þannig að það er hægt að öðlast krafta og kenna til verka. Það ætti að taka það inn í grunnskólann frá fyrsta bekk eins og læra lestur, reikna og skrifa. Stundarskráin gæti hljóðað þannig - Á morgun fara tveim tímar í krafta-verk. Þegar við heyrum orðið kraftaverk búumst við við því að það detti af himnum ofan eða að við hnjótum um það á göngu okkar td. um dalinn okkar.

Þeir eru til sem loka öllum skilningavitum þegar orðið kraftaverk ber á góma og dæma það sem hverja aðra bábilju sem átti sitt heimilisfang sautjánhundruð og blómkál einstefnugötu númer 56 einhverstaðar í svörtum miðöldum öllum gleymdur staður. Alls ekki á upplýstum tíma þar sem rafljósið teygir sig fleiri kílómetra upp í himinhvolfið og þar fyrir ofan og við jaðar þess hýrist væntanlega myrkrið í fávisku sinni. Nei, við skulum ekki tala um kraftaverk í dag. Nútíminn fær glýjur í augun af birtu þeirri sem stafar frá upplýstum hugum og hugsunin endalaus unnir sér ekki hvíldar að nema ný lönd innra með sér í þeirri hjartans sannfæringu að verið sé að feta sig öruggum skrefum í átt til enn meiri upplýsingar.

Það er ekki rétt - reyndin er allt önnur. Þessi upplýsing hvaða merkingu sem við hengjum aftan við það orð er eitthvað sem kemur að utan - ekki að innan. Það er svolítið þannig í dag samfélagið okkar að við horfum mikið á það frá hinu ytra í stað þess að leyfa innsæinu fá meira rými til að verka. Þess vegna er talað að tími kraftaverkana sé liðin. Við erum kraftalaus í þeirri merkingu að við teljum okkur trú um að sá eða sú sem hefur krafta fram yfir aðra hafi allt í höndum sér og þvi verði ekki breytt.

Ævintýri?

Höfum við glatað þeim eiginleika að skapa innra með okkur ævintýri og eða látið öðrum það eftir að tala þau inn í huga okkar? Öðrum sem hafa engan áhuga á því hvort við lifum ævintýrið eða ekki. Jafnvel líka að hlusta ekki á þegar okkur er sagt ævintýri. Glatað þeim hæfileika að nema lönd og strandir þar sem fullhlaðnir hugar fermast og affermast á degi hverjum og það er unnið á vöktum svo mikill er atgangurinn-hugurinn mettaður leggst á kodda að kveldi og sprettur upp að morgni til nýrra verka ævintýra og kraftaverka. Já – ég segi það blákalt að krafta-verkin tilheyrðu ekki aðeins gömlu dögunum heldur eru þau að gerast í dag en við höfum glatað þeim eiginleika að nema þau og lifa. Finna fyrir þeim með öllum skynfærum. Kraftaverkin stór og smá eru við hvert fótmál okkar. Spurningin sem hvert og eitt okkar verður að svara fyrir sig-viljum við sjá þau viljum við viðurkenna að svo er eða burt-skírum við þau með einhverju skynsemdar tali sem útilokar allt annað en það sem við köllum raunveruleika. Sem aftur krefur okkur svars um hver er þessi raunveruleiki, sem alltaf er verið að tala um. Ef við ættum að svara því í einum grænum gæti ég trúað að mörgum vefðist tunga um höfuð.

Við eigum að efast um þennan raunveruleika sem teljum okkur upplifa. Ég segi líka efumst um allt með opnum huga og ótal möguleikum til að halda áfram göngu okkar. Við skulum byrja á því hér og nú að efast um að við séum hér. Í því felst næringin. Efinn er aflvaki nýrra tíma og verka. Við könnumst mörg hver við að gera eitthvað sem við höfum fyrir löngu lagt hugan að hvað gerir fyrir okkur. Við getum spurt okkur hvernig næringu við leitum í og leitum að. Hvað hún nærir og hvernig. Í hvernig næringu visa ég? Hvernig næring er ég náunganum - fjölskyldu minni og vinum? Hvað næri ég og með hvaða hugarfari geri ég það? Allt eru þetta spurningar sem við stöndum frammi fyrir á degi hverjum, en gerum sjaldnast eða helst ekkert með.

Skynsemi

Nútíminn í öllum sínum veraldlega krafti vill segja að svo sé því að skynsemin segir að þannig eigi það að vera. Það er einfaldlega ekki pláss eða tími fyrir eitthvað sem er óútskýranlegt í dag, en samt er þetta óútskýranlega alltaf að eiga sér stað fyrir augum okkar. Um nútímann má segja að hann er mettaður af raunhyggju þar sem ævintýrið og kraftaverkið hefur verið komið fyrir í næst neðstu hillu. Sú var tíðin að ævintýrið og kraftaverkið hafði lykil um hálsin og er reyndar enn þegar betur er skoðað. Lykillinn passar bara ekki lengur í skráargat hugsunar nútímans því það er búið að skipta um cylender. Allt skal vera raungert og helst af öllu járnbent þannig að raunsýnin hrynji ekki. Það passar ekki inni í “skynsemi” nútímans sem er reiknaður og formúleraður út í hið óendanlega til þess að ekkert geti komið á óvart, en gerir það samt. Næring nútímans er steingeld og skraufþurr - hrjúfur sandpappír sem slípir af allt það sem kallast misfellur því lífið og tilveran á og hún skal vera slétt og felld, en aðeins á yfirborðinu.

Manneskjan hefur að mestu misst hæfileikann til að lifa leyndardóma lífsins. Hverjum er um að kenna-engum nema okkur sjálfum. Annað hvort er það að nútíma manneskjan hefur ekki gefið sér tima tíl þess vegna hins veraldlega strits eða kærir sig ekki um það. Ég hallast að því fyrra-við viljum lifa leyndardóma þessa lífs en gefum okkur ekki tíma í það. Áreytið er margvíslegt á degi hverjum sem leiðir okkur frá því sem máli skiptir.

Ekki ætla ég mér að geta mér til um hvað slokknaði á hugum margra og hlustun kirkjugesta þegar guðspjall dagsins var lesið, en þar var fjallað um kraftaverk sem að Jesús gerði - “oh dji-enn ein kraftaverka þvælan” - hver sá sem er með tíu dropa af skynsemi veit auðvitað að þetta gerðist ekki - Jesús Jósepsson hefur ekki getað mettað allar þessar manneskjur með fimm byggbrauðum og tveimur fiskum! kann einhver hafa hugsað og reyndar margur sagt í gegnum tíðina.

Skynsemin segir að það er ekki hægt með svo litlu fylla svanga maga fimm þúsund manna eins og sagði frá í guðspjallinu. Skynsemin segir okkur vonandi líka að það sem við sjáum og það sem við heyrum er aðeins yfirborðið á einhverju öðru og meira. Þannig er það með kraftaverkafrásögurnar sem greint er frá í ritningunni. Kraftaverk Jesú benda til dýrðar hans og þarf að skilja þau í ljósi trúar. Þannig og aðeins þannig verður manneskjan fær um að lifa þann leyndardóm sem trúin felur í sér.

Val-frelsi

Það felst nefnilega frelsi í trúnni. Öndvert við það sem margur heldur. Þarna erum við aftur komin að þessu hvað leynist rétt undir yfirborðinu.

Við höfum val. Í raun á hverju einasta andartaki lífs okkar stöndum við frammi fyrir vali. Við getum kallað það val-frelsi-það orð er flott gæti þess vegna verið hannað á auglýsingastofu. Við höfum val-frelsi. Það höldum við allavega, en er það svo í raun og veru okkar á degi hverjum. Í raun höfum við það ekki - því að allt þarf að gerast svo hratt að við náum ekki sambandi við okkar eigið sjálf og látum aðra velja fyrir okkur. En hvað kemur þetta mettunarfrásögunni við. Jú-vegna þessa meinta val-frelsis verðum við aldrei mett. Við hlustum ekki á okkar innra sjálf sem segir-“nú er komið nóg.” Mettun er ekki aðeins líkamleg. Mettun er eins andleg. Það er þessi andlega mettun sem er undirliggjandi í guðspjallinu. Sem betur fer er það svo í dag á Íslandi að fáir leggjast til hvílu að kveldi með tóman maga. Það var þannig á fyrri hluta síðustu aldar og lengi frameftir henni svo ekki sé litið lengra til baka. Á móti kemur að hin andlega svengd er þess meiri í dag.

Það er hægt að tala um andlegt svelti. Ætla skyldi með veraldlegri velmegun nútímans fylgdi andleg velmegun., sem hin hliðin á veruleikanum. Þá komum við aftur að þessu með það sem stendur upp úr og er sýnilegt. Hin veraldlega velmegun er sýnileg og þarf sem slík á umönnun að halda til að viðhalda henni ekki aðeins fyrir okkur heldur og fyrir umhverfinu sem horfir forvitin á. Það er mannlegt að bregðast þannig við. Það er að sama skapi mannlegt að ætla að krafta-verk geti ekki átt sér stað. Þvi það er ekki eitthvað sem kemur að himnum ofan. Það er hugarfarið sem skapar kraftaverkið. Þess vegna eru kraftaverkin stór og smá alltaf að gerast í þínu lífi og þú býrð ekki einusinni við rökkvaða “Einstefnugötu númer 56” heldur vel upplýsta götu sem leiðir í allar áttir-þitt er að velja á hverjum degi lífs þíns.