Jólaprédikun

Jólaprédikun

Skær birta jólanna aðfangadagskvölds lækkað eilítið á lofti þannig að skuggi þess nær að falla á þennan dag. Víða er það svo að þessi dagur er ekkert hafður í hávegum en við berum gæfu til þess hér á landi að svo sé og það sem meira er að við fylgjum jóladögunum fram á þrettándann á nýju ári.
Þór Hauksson - andlitsmyndÞór Hauksson
26. desember 2009

Jólaprédikun annan dag jóla 2009

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Við erum stödd á öðrum degi jóla. Skær birta jólanna aðfangadagskvölds lækkað eilítið á lofti þannig að skuggi þess nær að falla á þennan dag. Víða er það svo að þessi dagur er ekkert hafður í hávegum en við berum gæfu til þess hér á landi að svo sé og það sem meira er að við fylgjum jóladögunum fram á þrettándann á nýju ári. Dagarnir skreyttir heimboðum fjölskyldna sem annars gefa sér ekki tíma eða leyfa sér ekki að koma saman nema á jólum. Við fögnum í tvennum skilningi þessa orðs á þessum morgni. Við fögnum jólum og við fögnum barninu sem borið var á kærleiksríkum örmum foreldra sinna hér til skírnar. Það minnir okkur á framtíðina – barnið - sem það tekur við. Það minnir okkur á ábyrgðina ekki aðeins foreldra þess heldur og okkar allra. Ábyrgð hins daglega lífs til orðs og æðis og til að hlúa að því veika og máttfarna í okkur sjálfum. Ábyrgðina sem hvílir á okkur gagnvart umhverfinu, náttúrunni og náunga okkar. Á hvern hátt við skilum af okkur til kynslóðar þeirrar sem fæðist inn í þennan heim í dag og næstu árin. Kannski er okkur allveg sama segjum sem svo að við þurfum ekki hafa áhyggjur af, því áhrif gjörða okkar koma ekki fram fyrr en við erum farin héðan. Svo eru þeir til sem segja að manneskjan kóróna sköpunarverksins hafi engin áhrif heldur erum við aðeins leiksoppar áhrifalaus með öllu dag hvern háð „geðsveiflum“ náttúrunnar. Eflaust er hvorutveggja eitthvað sem vit er í dag hvern. Við nálgumst þá daga og finnum í raun fyrir þeim svo nálægir eru þeir að við horfum um öxl og horfum til framtíðardaga þegar nýtt ár nýr tími tekur hús á okkur. Við verðum eins og barnið ómálga um hvað tekur við. Við horfum til framtíðar í trausti þess að vel verði fyrir séð, en um leið að kannast við okkar eigin ábyrgð gagnvart framtíðnni. Það mun barnið gera, drengurinn litli sem hvílir saddur og vær í örmum foreldra sinna það gerum við á svipaðan hátt því armur drottins er stór og gleymir engum. Á jólum kappkostum við að gleyma engum. Allir fái að vera með og allir gera sitt til þess að svo megi verða. Óeitanlega varð manni hugsað til þeirra tugþúsunda íbúa meginlands Evrópu sem dagana fyrir jólin á leið til sinna heimkynna að fagna hátíð frelsarans í faðmi fjölskyldna sinna og sátu föst í lestum, bílum og flugvélum og ekki þá útséð um hvort næðu heim í tæka tíð fyrir hátíðina, en sem betur fer gerðu það flestir sem ekki er huggun gagnvart þeim sem ekki náðu alla leið. Óneitanlega minnir þetta á gömlu söguna sem alltaf er sögð um jólin - hjónin sem þurftu að fara langa leið til að láta skrásetja sig og þeim var úthýst. Reyndar var ekki fimbulkuldi eða snjóalög sem sátu fyrir þeim hjónum heldur eitthvað sem getur verið verra ef ég leyfi mér að bregða mælistiku á hörmungar fólks. Þetta segir okkur líka að sagan sem um getur gerðist fyrir rúmum tvöþúsund árum síðan að hún er að gerast enn þann dag í dag hér heima á íslandi og úti í hinum stóra heimi og fáir hafa fyrir að hugsa um eða þá að skipta sér af og reyna af veikum mætti að færa til betri vegar þótt á móti blási. María og Jósep voru flóttafólk – fyrstu dagar barnsins sem fæddist í hinni þjáðu borg Betlehem hófst undir járnhæl rómverskra hermanna og flótti í skjóli myrkurs í von og enn í dag fæðist barn í Betlehem umkringdri borg hervalds. Sagan er sögð og hún er enn í dag sú sama og þá það hefur fátt breyst. Við sem búum í landi lengst á hjara norðurs þekkjum kenjótt veðurfar en til allrar lukku ekki eins vel kenjar valdstjórnar sem hugsa út frá sínum eigin þörfum en ekki þegna sinna. Þess vegna þurftu þau hjónin að ferðast þrjár dagleiðir frá borginni Nasaret til borgarinnar Betlehem og það var ekki hægt að fá afslátt á þeirri ferð hvað þá að eiga vísa gistingu og eins og áður segir síðan flótti í skjóli myrkurs. Reyndar mun sagan segja okkur hvort heldur var og er í dag að stjórnvöld á hverjum tíma hugsi fremur um þegna sína eða eigin hag, tíminn mun leiða það í ljós. Það er tími til alls. Tíminn í dag kallar á að við eigum að horfa á sjálfa okkur og náungan sömu augum. Með öðrum orðum að hlutskipti okkar minnsta bróður og systur eru okkar hlutskipti. Sá eða sú sem beiðist gistingar skuli vera svarað á þann hátt-ekki eins og gisthúsaeigandinn heldur með opnum örmum vináttu og þess sammannlega þátts að allar manneskjur þurfa á því að halda að geta sagt hér á ég heima. Heima er eitthvað sem umvefur mann hlýjum armi vissunar um að eiga skjól fyrir sig og sína. Það er vart til fallegra orð en „Heima“. Það er aldrei sem á jólum að við ljáum eyru við þessum sannindum. „Ég ætla að fara heim og halda jól.“ Stundum heyrist sagt að jólahátíðin sé óraunveruleg sé ekki þessa heims. Vegna þess að við vitum hvernig heimurinn getur verið og er og við vitum hvernig hann getur verið ef aðeins að við ljáum eyru og hugsun og leggjum fram vinnu okkar til þess að þoka honum í átt til umburðalyndis, hógværðar og lítillætis í verkum okkar og hugsun. Á jólum erum við aldrei fúsari til að gefa og við erum fús til að taka á móti. Tökum ekki aðeins á móti barninu sem skírt var hér áðan og þannig á táknrænan hátt tekið inn í kirkju Krists á jörðu heldur gefum því lika þá gjöf að framtíð þess sé reist á manngildishugsjón ekki aðeins fárra heldur okkur allra. Þá gjöf er ekki erfitt að láta af hendi. Þá gjöf getum við strax í dag byrjað á að gefa okkur sjálfum og þá um leið náunga okkar heima og heiman. Jólin boða ekki aðeins fögnuð þann að barn fæddist í heiminn. Það eru börn að fæðast á þessari stundu sem ég stend hér og því ber að fagna. Á móti hverju einu barni sem fæðist í öryggi, ástúð og kærleika foreldra og réttlátra yfirvalda þessa heims fæðast níu börn í aðstæður þar sem öryggið er ekkert og aðstæður allar hinar verstu sem hugsast getur og verri en það að við getum ímyndað okkur. Jólin hafa þá eigind að kalla fram í okkur það besta. Fögnuður jólanna er sá að boðskapur hátíðarinnar nær eyrum allra. Það er engin svo stór eða svo lítill að geta ekki meðtekið boðskapinn og hleypt honum inn í hjarta. Hver er boðskapur jólanna? „Yður er í dag frelsari fæddur“ sagði engillinn á Betlehemsvöllum. Frelsun frá hverju? Frá einhverju utanaðkomandi afli sem hefur það eitt að markmiði að gera okkur til miska? Nei, frá okkur sjálfum. Manneskjan hafði týnt sjálfri sér í yfirlæti og drambskap. Jólin fæðingarhátíð frelsarans bendir á hið gagnstæða. Þau benda á hógværð andans. Þau benda á þann sem kom í heiminn gerðist maður meðal manna. Þann sem ekki fékk gistingu vegna þess að ekki var pláss fyrir hann meðal manna. Þann sem í hógværð og yfirlætisleysi býður okkur til samfylgdar með sér. Rödd jólanna hljómar enn í hjarta þrátt fyrir að skuggi aðfangdagskvöld og jólanóttar nái að teygja sig til þessa dags. Leyfum þeirri rödd eiga samtal við okkur þessi jólin. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen Takið postullegri blessun: Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen