Vonin - jólasaga

Vonin - jólasaga

Þau horfðu með skelfingu á eina skjólið í þessum landshluta fuðra upp í storminum. Það var skelfileg sjón því þeim varð það ljóst að líf þeirra var í mikilli hættu. Þetta er það skelfilegasta sem gerst getur hjá fólki á norðurhjaranum fjarri mannabyggð: að missa skjól sitt.

Langt norðan við alla byggð í Grænlandi gengu jólin í garð á lítilli veðurrannsóknastöð. Dagurinn var ennþá styttri en hann er hér og frostið miklu meira en hér verður nokkru sinni. Það var bakki í vestri sem boðaði snjóstorm og slíkir stormar gátu varað dögum saman. Það var þó hlýtt og jólalegt í stöðinni og gleði í hjörtum íbúanna. Stöðvarhúsið var aðeins eitt og ekki ýkja stórt fyrir fjögura manna fjölskylduna sem mannaði stöðina.

Þau höfðu valið að vera þarna vetursakir. Voru vön lífi á þessum slóðum og kunnu vel til verka. Hann dani og veðurfræðingur, hún grænlensk, alin upp við veiðiskap. Ástæðan fyrir dvölinni voru tvíburarnir sextán ára gamlir, piltur og stúlka. Þau höfðu lent í slæmum félagsskap í Nuuk og óreglu. Þau höfðu sjálf verið til í þetta ævintýri, vildu losna úr ruglinu og kynnast ifnaðarháttum móðurfólksins sem hafði búið á þessum slóðum um aldir.

Aðfangadagskvöldið leið með friði og glaðværð. Góður jólamatur var snæddur og gjafir teknar upp og kveðjur lesnar frá ættingjum og vinum. Bæði tilhugsunin um þá og gamlar minningar vöktu þennan tregaljúfa frið sem einkennir jólin. Þau voru ekki síður þeim ofarlega í huga, hin fyrstu jól, þegar Frelsarinn fæddist í heiminn.

Þau gengu til náða hamingjusöm þarna í einsemdinni og þóttust hafa gætt alls sem gæta bar á stað sem þessum, en svo var ekki. Á salerninu var logandi kerti fyrir misskilning og dragsúgur sem kom með vaxandi vindinum fleykti gardínunni að loganum og meðan þau sváfu féll yfir þau sú hræðilega ógæfa að eldur varð laus. Þeim varð það eitt til lífs að vælið brunaviðvörunarkerfinu vakti þau áður en reykurinn hafði náð að fella á þau ómegn.

Þegar þau komust til ráðs og rænu var orðið hvasst. Vindurinn æsti eldinn að öllum mun og þau náðu ekki að bjarga miklu. Aðeins helstu fötum. Þau horfðu með skelfingu á eina skjólið í þessum landshluta fuðra upp í storminum. Það var skelfileg sjón því þeim varð það ljóst að líf þeirra var í mikilli hættu. Þetta er það skelfilegasta sem gerst getur hjá fólki á norðurhjaranum fjarri mannabyggð: að missa skjól sitt.

Inúítakonan, móðirin, brást fyrst við og fann sér í verkfæri brunarústunum og hófst handa við að gera þeim snjóhús. Þau hjálpuðu henni hin eftir bestu getu og svo drógu þau sig í skjól í snjóhúsinu. Ekkert var eldsneyti var eftir sem gat haldið á þeim hita og fötin sem þau stóðu í voru ónóg. Þó skjól væri í snjóhúsinu varð annaðhvort að vera til eldsneyti eða varmafatnaður. Það yrði því fljótlega úti um þau ef engin hjálp bærist.

Þau vissu það að ef ekkert heyrðist frá þeim á reglulegum tíma fyrir veðurtilkynningar frá þeim yrði farið að grennslast um þau en í þessu veðri væri ekkert hægt að gera. Það voru nær tvö hundruð kílómetrar að næsta byggðu bóli, amerískri ratsjárstöð. Þar var þyrla stödd en hún gæti ekki athafnað sig fyrr en veður lægði.

Næsta dag fundu þau í brunarústunum sitthvað sem kalla mátti ætilegt en ekkert annað. Erfitt var um leit í storminum sem ekkert slotaði, Engin föt fundu þau og kuldinn var svo mikill að bersýnilegt var að þau bærust ekki af lengi enn.

Nóttin og þarnæsti dagur runnu saman í eitt í hríðinni og þriðja nóttin var hræðilegur vitnisburður um það sem vænta mátti. Faðirinn var orðin máttfarinn, enda grannholda mjög. Hin voru einnig orðin bág. Helst var að dóttirin væri rólfær enda létu foreldrarnir hana og bróður hennar hafa bestu fötin. Þau gerðu sér grein fyrir að það hafði dagað en úti geysaði hríðin enn og ekki sá út úr augum. Skömmu eftir miðjan dag heyrðu þau í gegnum veðurdyninn vélarhljóð í þyrlu. Þau sperrtu eyrun og vonin vaknaði. Það var þó ekki viðlit að hún gæti lent en þetta þýddi þó að verið var að gá að þeim og að veðrið væri ekki vont sunnar. Faðirinn lifnaði talsvert við að átta sig á að veðrið gengi einnig niður hjá þeim með kvöldinu og að aftur yrði reynt að komast til þeirra næsta dag.

Það gekk eftir með veðrið. Um miðnætti var komin kyrrð veðurs en frostið óx um leið. Það var ljóst að þau kæmust ekki öll lifandi frá þessu nema með því að þau héldu á sér hita með hreyfingu og nudduðu andlit og fætur til að forða kali. Fætur föðurins voru þegar orðnir hvítir af kali og hann mundi óhjákvæmiega bíða skaða af því.

En það hafði vaknað í þeim von við þyrluhljóðið og vonin varð að afli í æðum þeirra. Þau héldu sér vakandi og á nær sífelldri hreyfingu alla nóttina þrátt fyrir þrengsli snjóhússins og biðu næsta dags með mikilli óþreyju.

Þau urðu því afar glöð þegar sperrt eyru þeirra námu aftur vélarhljóð þyrlunnar sem nálgaðist. Þau sem gátu hreyft sig þustu út og veifuðu á móti flugvélinni og dróu athygli flugmannanna að sér og þess var stutt að bíða að hún lenti. Björgunarlið þyrlunnar hafði snör og æfð handtök við að koma þeim fyrir um borð og öráum mínútum síðar var hún komin á loft með fjölskylduna. Ekki er hægt að lýsa hversu fegin þau urðu að þiggja þessa kærkomnu björgun og vera lyft upp úr vændræðum sínum í bókstaflegum skilningi. Það var heldur ekki að sökum að spyrja að þau fengu bestu viðtökur ratsjárstöðinni. Faðirinn fékk fyrstu hjálp en ljóst þó að hann yrði að komast áfram til sjúkrahúss fljótlega.

Það var þeim þó ekki áhyggjuefni eftir björgunina. Aðstæður þeirra höfðu svo sannarlega geta kostað meira en það sem faðirinn átti á hættu. Þau gerðu sér ljóst að það var vonin sem hafði bjargað lífi þeirra allra. Án hennar hefðu þau ekki tekið eftir veðrabrigðunum og þá látið lífið þarna í snjóhúsinu.

Þess í stað beið þeirra nú framtíðin og reynslunni ríkari voru þau þess albúin að takast á við það sem ókominn tími myndi færa þeim. * Þessi saga geymir líkingu af örlögum manna. Eins og fjölskyldan safnaðist saman á ný úr rugli barnanna safnaði Skaparinn saman frumefnunum í þá jörð og þann heim sem við lifum í. Óaðgæsla okkar hefur leitt yfir jörðina mikinn voða sem hvarvetna sér stað með ófriðarbáli sem brennir lönd og á heimili. Voða sem rænir marga menn lífinu og hamingjunni. Guð lét sér þó síður en svo standa á sama um það og gerði björgunarráðstafanir. Hann sendi Frelsarann í heiminn og hann vakti með mönnum vonina um hjálp í nauðum, kom góðu til leiðar og kenndi mönnum aðlifa við ógnirnar, búa sér hlé og þreyja vonda tíma. Jólin boða björgunaraðgerð Guðs. Tilhlökkunina eftir þeim höfum við mótað til þess að draga athygli okkar að því að eins og jólin koma með efni sérstakrar tilhlökkunar fyrir okkur hvert og eitt, kemur Frelsarinn með lausn á hverjum vanda.

Okkur finnst þetta ekki alltaf satt og að hjálpin komi oft of seint eða sé of takmörkuð en þá miðum við aðeins við það sem við sjáum af sjónarhóli mannlegrar ævi. Guð hefur ekki sama mælikvarða.

Mannsævin er sem andrá ein í augum hans en líf það er hann vekur með hverjum manni er ákvarðað til eilífðar. Hann hefur því nægan tíma til þess að snúa við hag okkar. Öll hamingja og lán er þannig sem árroði nýs dags sem mun færa okkur dýrð Guðs sem englar sungu yfir hvern mann. Hið fagra, góða og fullkomna sem er vilji Guðs um allt sem hann hefur skapað, mun ekki bregðast okkur, heldur verða á sínum tíma hlutskipti okkar.

Friður jólanna er hér og birtist í því sem við höfum að njóta og hann er einnig hér í voninni um það sem kemur handan allrar reynslu og þrautar. Vonin bregst okkur ekki. Jólin koma á jörðu sem og himni.

Menn og englar syngja saman Guði dýrð og mönnum frið. Þessi pistill birtist á annál sr. Jakobs Ágústs Hjálmarssonar og umræður um hann fara fram þar.