Asasótt

Asasótt

Ég þjáist af asasótt. Stundum er hún slæm, en ég á líka daga þegar ég er laus við þessa sótt sem rænir frá mér tækifærinu að gefa öðrum kærleiksstund. Hvers virði eru orð á jólakorti eða afmæliskveðja í tölvupósti ef ég hef ekki tök á því að taka mér tíma til þess að vera til staðar fyrir viðkomandi? En sem betur fer er hægt að lækna flest okkar (ef ekki öll) af þessari asasótt.

,,Blessaður. Gaman að sjá þig. Vonandi allt gott að frétta? Þú fyrirgefur, ég er að flýta mér, en alltaf gott að sjá þig! Blessaður." Nokkurn veginn svona kom ég fram við ágætan vin hér um daginn. Um kvöldið áttaði ég mig svo á því að ég hafði ekki einu sinni gefið honum tækifæri til að bjóða góðan daginn. Slíkur var asinn á mér, já ég var með asasótt þann daginn. Skemmtilegt orð annars ,,asasótt", held að það sé komið úr smiðju Sigurbjarnar biskups.

Ég þjáist af asasótt. Stundum er hún slæm, en ég á líka daga þegar ég er laus við þessa sótt sem rænir frá mér tækifærinu að gefa öðrum kærleiksstund. Hvers virði eru orð á jólakorti eða afmæliskveðja í tölvupósti ef ég hef ekki tök á því að taka mér tíma til þess að vera til staðar fyrir viðkomandi? En sem betur fer er hægt að lækna flest okkar (ef ekki öll) af þessari asasótt.

Ágætur kunningi minn sem hefur mikið að gera sat á skrifstofunni sinni þegar ég kom inn. Við höfðum ætlað okkur að ræða saman um sameiginlegt verkefni áður en ég tæki nokkra hluti með úr hlöðunni hjá honum. En nú var ég seinna á ferðinni en áætlað var og með fólk í bílnum sem beið. Hjá honum var mjög mikið að gera, stöðugur straumur fólks út og inn af skrifstofunni hans. Hann sat sallarólegur og afgreiddi málin og ræddi við mig eins og hann hefði allan heimsins tíma. ,,Pétur, ertu eitthvað stressaður?" sagði hann og brosti til mín þegar ég gusaði því út úr mér í einni setningu að ég hefði engan tíma, við yrðum að ræða málin í næstu viku og ég færi beint út í hlöðu að ná í dótið." Með það var ég þotinn en heyrði þegar ég hljóp út um dyrnar: ,,Farðu varlega Pétur minn, þér liggur nú varla svona mikið á!"

Þessar tvær setningar hans hafa fylgt mér síðustu daga: ,,Ertu stressaður" og ,,Farðu varlega, þér liggur nú varla svona mikið á". Mér er ljós sá kærleikur sem þessar tvær setningar hafa að geyma. Hann gaf sér tíma, spurði mig um líðan mína: ,,Ertu stressaður" og gaf mér í skyn að hann fylgdi mér áfram í huganum: ,,Farðu varlega, varla liggur þér svona mikið á!"

Sjálfur ætla ég að reyna að taka þennan kunningja minn til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Kannski að það lækni mig meira að segja af asasóttinni: Bara ef ég gef mér tíma, gef öðrum kærleiksstund þar sem þeir verða á vegi mínum. Því kærleiksstundin mælist ekki í mínútum heldur í því hvort þú hefur tíma til að hlusta og segja frá hvað hjarta þitt slær.

Jesús tók sér tíma. Hann staðnæmdist undir trénu þar sem stressaði vegatollarinn hafði fundið sér stað til að ,,kíkja aðeins" á Jesú. Jesús nam staðar. Og þeir áttu kærleiksstund. Guð gefi okkur öllum fleiri kærleiksstundir.