Íslenska trúboðið á Ítalíu

Íslenska trúboðið á Ítalíu

Verður farið næst með hina nýstárlegu trúboðslist til Saudí Arabíu og búið þar til kristið bænahús í mosku?

Fyrir nokkrum árum ákváðu íslenskir athafnamenn að kenna Dönum sæmilega verslunarsiði og lögðu undir sig helstu stórverslanir á Strikinu í Kaupmannahöfn með íslenskri útrás. Þeir létu sér í léttu rúmi liggja, þó einhverjir Danir hefðu orð á, að þessar verslanir kynnu að hafa tilfinningalega þýðingu fyrir danska menningu, enda mikilvægara að sýna Dönum eftirminnilega hve íslensk útrás getur miklu áorkað. Íslenskir fjölmiðlar uppveðruðust og áttu vart orð af hrifningu yfir hinu tímabæra framtaki. En eitthvað fór úrskeiðis, því útrásinni lauk fjótlega með algjöru þroti. Það var list útaf fyrir sig.

En nú hafa Íslendingar aftur lagst í útrás og ekki af smærri endanum. Í trúboð á Ítalíu með því að kenna Ítölum að trúa á Guð múslima. Eitt er að kenna Dönum hvernig eigi að reka verslanir, en vandasamara getur verið að snúa Ítölum til múslimskrar trúar. Þessa vegna var ákveðið að gera þetta undir listrænu yfirskyni og nota til þess listahátíð sem nefnist Tvíæringur. Að trúboðinu standa félag múslima á Íslandi og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Listin var fólgin í að búa til mosku inni afhelgaðri katólskri kirkju og bjóða þangað fólki til múslimskra bæna.

Íslenskir fjölmiðlar hafa sýnt trúboðinu á Ítalíu alveg sérstakan áhuga og af einstakri hrifningu, segja nákvæmar fréttir með ítarlegum viðtölum af því hve allt gangi vel og hve helgihaldið í moskunni sé himneskt. Nú má eðlilega búast við því að farið verði að segja fallegar fréttir í fjölmiðlum af helgihaldi trúarlífsins á Íslandi, þar sem listafólkið leggur líka mikið að mörkum, en um hefur ríkt eins konar fréttabann í mörg ár.

Víst vekur athygli hve íslenskir fjölmiðlar styðja þetta trúboð á Ítalíu myndarlega, ekki síður en þegar íslenskir athafnamenn lögðu sig fram um sanna íslenska viðskiptasnild í Danmörku. Sama gildir um íslenska múslimatrúboðið á Ítalíu. Ítalir hafa talist rammkatólskir, svo íslensku gestsauga hefur þótt ástæða til að auka á víðsýni þeirra með trúboði á mátt múslima í heiminum, þó mig rámi í að einhverja reynslu eigi Ítalir af listinni og samskiptum við múslima um aldirnar.

Vonandi fer ekki eins fyrir íslenska trúboðinu á Ítalíu eins og fór fyrir íslenskri útrás í Danmörku.

En eiga þó eitt sameiginlegt: Þetta er íslensk list.

Verður farið næst með hina nýstárlegu trúboðslist til Saudí Arabíu og búið þar til kristið bænahús inní mosku?

Gunnlaugur Stefánsson, Heydölum