"Trúir þú því?"

"Trúir þú því?"

“Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá."

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það eru til saga af söngvaranum Elvis Presley þar sem hann sá manneskju úti á götu horfa löngunaraugum inn um glugga á nýja bifreið af gerðinni Cadillac í einhverri borg í Bandaríkjunum. Elvis gekk til viðkomandi, sem hann hafði ekki áður hitt og spurði: “Langar þig í þennan bíl?” “Já” var svarið. Elvis fór þá inn í búðina og keypti bifreiðina og gaf viðkomandi Cadillacinn. Sagan segir að Elvis hafi gert það oftar ekki að kaupa alls konar hluti fyrir fólk upp úr þurru vegna þess að honum fannst svo gaman að sjá svipinn á fólki þegar hann færði þeim eitthvað óvænt. Trúir þú þessu?

Er það ótrúlegt að þýska landssliðið í handbolta hafi unnið íslenska landssliðið í handbolta í heimsmeistaramótinu í Svíþjóð í gær? En íslenska liðið hafði unnið örugglega tvo leiki í röð við þýska liðið fyrir tveimur vikum síðan.

Er það trúlegt að starfsfólk á hjúkrunarheimilum aldraða sé hrætt við að láta vita af því sem út af ber í starfinu vegna þess að það óttist um atvinnuöryggi sitt eins og kom fram í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi? ______________ “Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.” segir í Hebreabréfinu sem var lesið hér á áðan.

Þegar áföllin verða, þegar dauðinn kveður dyra þá erum við minnt á hve lánið bæði og lífið er valt.

Á snöggu augabragði er lífinu svipt burt.

Sérhver stund er svo dýrmæt, hver einn dagur og öll mannleg samskipti.

Hvað heldur uppi birtu vonar, trúar og kærleika?

Hið kristna sjónarmið er að trú deyi ef hún sé ekki iðkuð, lifuð og leyft að birtast í breytni manns viðmóti, orðum og verkum.

En ástin, hún er hjartans mál eins og trúin og þær leita hugar og handa til að tjá sig og iðka, lifa og njóta.

Trú er tryggð, að halda tryggð við.

Hún er líka traust, að reiða sig á og reikna með.

Trú er einnig trúnaður, að gefa Guði trúnað sinn.

Trú er að treysta, þrátt fyrir allt. ________________

Eins og í öllu störfum getur starf prests tekið á.

Á 15 árum sem prestur hef ég meðal annars fylgt eftir dauðvona ættingjum, vinum og kunningjum og staðið við dánarbeð þeirra.

Í síðustu viku, jarðsöng ég manneskju sem ég hef þekkt frá því að ég var barn.

Þessi manneskja bjó í blokkinni á móti mér og fjölskyldunni.

Yngsta dóttir hans sagði við mig eftir jarðarförina eitthvað á þessa leið:

“Ég skil ekki hvernig þið prestarnir farið að þessu, að vera ætíð svona nálægt sorginni.”

Ég svaraði: “Þetta er aldrei létt verk en mér finnst ég geta þetta af því að ég á trúi á Guð.”

Fyrst þegar ég var spurður þessar spurningar svaraði ég oft í löngu máli en nú er svarið komið í eina meitlaða setningu.

“Ég á trúi á Guð.”

Trúin á Guð er mér leiðarljós lífsins öðruvísi gæti ég ekki þjónað samferðarfólki mínu. _______________________

Trúin mín á Guð þroskaðist og dýpkaði meðal annars vegna þess að:

Amma kenndi mér bænir, hún var ein af hversdagshetjum þessa lífs, átta barna móðir, rak prjónastofu til að framfleyta fjölskyldunni, eiginmaður hennar langveikur og þess vegna oft frá vinnu.

Það brann ofan af fjölskyldunni, þau misstu flestar veraldlegar eigur og amma horfði á eftir þremur börnum sínum í gröfina en áfram hélt hún og bænin aldrei langt undan.

Þegar ég sagði henni að ég hefði skráð mig í guðfræðideild Háskóla Íslands þá horfið hún djúpt í augu mér og fór með “Víst ertu Jesú kóngur klár” og vék svo að öðru.

Ég fór sem barn oft á KFUM fundi niður á Amtmannsstíg í Reykjavík og eins í sunnudagaskólann og í þeirri kirkju þjónaði um tíma prestur sem var góður vinur foreldra minna.

Þessi prestur var einlægur, hrifnæmur, glaður og kærleiksríkur og mætti manni á jafningjagrunni og þegar ég sagði honum stuttu fyrir andlát hans að hann hefði verið stór áhrifavaldur í því að ég eignaðist trú á Guð þá fann ég hvað það snerti hann djúpt.

Þriðji áhrifavaldurinn er kennarinn minn í barnaskóla sem kenndi okkur meðal annars biblíusögurnar sem urðu ljóslifandi þegar hann kenndi þær og enn hefur þessi kennari enn augun með mér í dag og fylgist með mér.

Þetta fólk og margir fleiri hafa kennt manni til dæmis: um kærleikann, trúna og vonina. ___________________________

Á þeim tímum þegar margar hugsjónir hafa hrunið, margvísleg vonbrigði orðið með þróun mála og mannlegan styrk, hegðun og getu, þegar fólk hefur brugðist þá skiptir líferni okkar miklu meira máli.

Andleg leiðsögn er mikil nauðsyn í samtímanum og bjartsýni trúarinnar gefur svo sannarlega ljós í dimmar víddir. ________________________

Túir þú því að: “eitt bros geti dimmu í dagsljós breytt”?

Trúir þú á sigur góðvildar, skynsemi, frelsi, hlýju, náðar og friðar, jafnvel þótt að sá sigur verði aldrei fullkominn í þessum heimi?

Valið stendur til dæmis á milli trúar á Guð almáttugan og trúleysis og milli lífsins og dauðans.

Trúir þú því?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 17.5-10 Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“ En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður. Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“