Saga Von - #viðþegjumekkiyfirheimilisofbeldi

Saga Von - #viðþegjumekkiyfirheimilisofbeldi

Hvernig stendur á því að saga sem endar jafn hörmulega, og saga Sögu Vonar, fær að vera með í Biblíunni? Kannski er hún með þar sem hún á yfirborðinu fjallar um pólitík þar sem ættkvíslir Ísraels berjast fyrir tilvist sinni. Kannski er hún með vegna þess að sagan er ekkert einsdæmi og á sér stað á hverjum degi um allan heim. Á síðustu 12 árum hafa t.d. í það minnsta 11 konur dáið vegna heimilisofbeldis á hinu friðsama Íslandi.

Hér er hægt að horfa og hlusta á prédikunina

#égslappfráhonum Nú í dag þegar ný kynslóð er farin að hvetja okkur til að opna okkur um flesta hluti undir hinum og þessum myllumerkjum, og við tölum um geðsjúkdómana okkar, kynferðisofbeldið sem við höfum orðið fyrir og sýnum brjóstin okkar til þess að minna á að við ráðum yfir líkömum okkar og lífi okkar sjálf, er ein saga sem við segjum ekki. Enn hefur ekki komið myllumerkið #égslappfráhonum eða #viðþegjumekkiyfirheimilisofbeldi.

Ekki er ólíklegt að ein af ástæðunum fyrir því að ekki er farið að segja þessar sögur jafn opinskátt og hinar sé að það er svo margt í húfi þegar þær snúast um fólkið sem stendur okkur næst. Það eru svo margar manneskjur í okkar nánasta umhverfi sem verða fyrir áhrifum af þessum sögum.

Ég held að það verði alltaf erfiðast að segja frá ofbeldi sem við verðum fyrir ef gerandinn er manneskja sem okkur þykir vænt um, maðurinn þinn, kærastinn, sonur þinn eða bróðir. Það er erfitt að segja frá ofbeldinu heima, þessu sem pabbi þinn beitir mömmu þína eða þessu sem maðurinn þinn beitir þig. Það er erfitt að segja frá ofbeldi þegar þú elskar manneskjuna sem beitir því. Og það er ekki auðvelt að segja frá því að þú sért hrædd við manninn sem þú deilir með borði og sæng. Ég nefni hér karla fyrst og fremst sem gerendur vegna þess að þegar kemur að heimilisofbeldi eru karlar 86% gerenda og konur 81% þolenda.

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er ofbeldi gegn konum og stúlkum útbreiddasta mannréttindabrot í heimi.

Vissir þú að helsta dánarorsök kvenna á aldrinum 16-44 ára í Evrópu er heimilisofbeldi?

Yfir helmingur allra morða á konum í Ástralíu, Kanada, Ísrael, Suður Afríku og Bandaríkjunum er af hendi maka eða kærasta.

Á þriggja sekúndna fresti er stúlka undir 18 ára aldri þvinguð í hjónaband einhvers staðar í heiminum. Yfir 600 milljónir kvenna og stúlkna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert. Verður næsta myllumerki #égslappfráhonum eða #viðþegjum ekkiyfirheimilisobeldi? Í dag heyrum við söguna um hana sem slapp ekki. Við heyrum söguna um Sögu Von.

Saga Von Sagan segir frá konu sem aldrei er nefnd á nafn. Hún er kölluð hjákona eða þrælkona mannsins síns. Hún hefur því að öllum líkindum verið nokkuð aftarlega í eiginkonuröðinni og sjálfsagt ekki verið mikið rétthærri en þræll. Maðurinn er reyndar ekki heldur nefndur á nafn heldur aðeins kallaður Levítinn því hann var af einni Ísraelsættinni sem kallaðist Levítar. Mér fannst ómögulegt að þessi kona ætti ekkert nafn í hinni heilögu bók og í huga okkar. Nafnið er eitt af okkar sterkustu sérkennum. Þegar nafnið okkar er nefnt þá erum við einhver, og það skiptir máli. Og í skírninni biðjum við Guð, sem nefnir okkur öll með nafni, að rita nafn okkar í lífsins bók. Mig langaði því að gefa nafnlausu konunni nafn og þann 13 október valdi ég nafnið hennar ásamt hópum eldriborgara í Grafarvogi. Hún fékk reyndar tvö nöfn, Saga og Von. Saga, vegna þess að sagan hennar er mikilvæg og við þurfum að segja hana. Og Von, vegna þess að vonin er eitt sterkasta aflið í lífinu og við trúum því að kona með svo mikla sjálfsbjargarviðleitni og það, að þora að fara frá manninum sínum, hljóti að hafa haldið í vonina eins lengi og hún mögulega gat. Saga Von reiddist manninum sínum og fór frá honum, heim til fjölskyldu sinnar. Það er nokkuð öruggt að henni hefur verið stórlega misboðið eða að hún hafi orðið svo óttaslegin að hún hafi séð að henni yrði aldrei líft á heimili mannsins síns. Það þurfti nefnilega ríka ástæðu til þess að kona yfirgæfi mann sinn á þessum tíma og hvað þá kona í jafn veikri stöðu og Saga Von, hjákona eða þrælkona mannsins síns. Það má því leiða sterkum líkum að því að hún hafi orðið fyrir ofbeldi á heimili sínu.

Eftir að hafa dvalið í fjóra mánuði heima hjá fjölskyldu sinni kemur maðurinn á eftir henni. Faðir Sögu Vonar verður glaður að sjá tengdason sinn enda hefur dóttir hans varla verið í góðri stöðu, búin að hlaupast svona á brott frá manninum sínum. Kannski vonaði faðir hennar að tengdasonurinn hefði séð að sér og nú yrði allt gott. Þeir eta og drekka saman í fimm daga, faðir Sögu Vonar og maðurinn hennar en þá loks heldur hann heim á leið og hún fer með.

Þau þurfa að fá gistingu á leiðinni og koma við í þorpi sem heitir Gibea. Eftir nokkra bið er þeim boðin gisting hjá manni sem var útlendingur í þorpi þessu en af Ísraelsætt eins og þau. Það fer þó ekki nógu vel þó gestrisni gestgjafa sé næg því hópur misyndismanna kemur og ber húsið utan og vill fá að nauðga gestinum. Upphefst nokkur vandræðagangur þar sem gestgjafanum finnst þetta alveg óhæft og leggur til að þeir fái dóttur hans og konu gestsins, hana Sögu Von og tekur fram að þeir megi gera við þær hvað sem þeir vilji. Þetta tekur maðurinn hennar Sögu Vonar ekki í mál og vill ekki að gestgjafinn fórni dóttur sinni og tekur í staðin Sögu Von, konu sína og kastar henni út. Þeir nauðga henni og misþyrma alla nóttina og sleppa henni ekki fyrr en að morgni. Þegar maður hennar kemur út um morguninn finnur hann hana liggjandi við dyrnar með hendurnar á þröskuldinum. Hann segir henni að standa upp því þau séu að fara heim. Hún svarar ekki og er alveg líflaus. Hann tekur hana þá upp og setur hana á asnann og fer með hana heim. Þegar heim kom tekur hann líkama Sögu Vonar og bútar hana niður í 12 bita og sendi út um allan Ísrael. Þetta gerði hann til þess að sýna það óhæfuverk sem unnið hafði verið á honum og þá um leið Ísraelsmönnum. Uppfrá því hófst enn meira ofbeldi sem vart sá fyrri endann á.

#égslappfráhonum á ekki við í tilviki Sögu Vonar. Hún á ekkert myllumerki. Hún er ekki með í umræðunni því hún er dáin.

Heimilisofbeldi Hvernig stendur á því að saga sem endar jafn hörmulega, og saga Sögu Vonar, fær að vera með í Biblíunni? Kannski er hún með þar sem hún á yfirborðinu fjallar um pólitík þar sem ættkvíslir Ísraels berjast fyrir tilvist sinni. Kannski er hún með vegna þess að sagan er ekkert einsdæmi og á sér stað á hverjum degi um allan heim. Á síðustu 12 árum hafa t.d. í það minnsta 11 konur dáið vegna heimilisofbeldis á hinu friðsama Íslandi.

Heimilisofbeldi er flókið fyrirbæri sem hver sem er getur orðið fyrir. Reyndar er yfirgnæfandi meirihluti þeirra, er verður fyrir heimilisofbeldi, konur og síðan í janúar síðastliðnum, þegar lögreglan höfuðborgarsvæðinu setti heimilisofbeldi í forgang hafa 450 mál komið til kasta lögreglu þar sem konur hafa orðið fyrir ofbeldi. Heimilisofbeldi getur bæði verið líkamlegt og andlegt en líkamlegt ofbeldi fylgir yfirleitt í kjölfar andlegs ofbeldis.

Ég er reyndar nokkuð viss um að þær konur sem lenda í að búa við heimilisofbeldi séu yfirleitt mjög sterkir einstaklingar. Þær hafa nefnilega trú á því að þær geti breytt manninum, já og sjálfum sér. Ofbeldismaðurinn gefur konunni yfirleitt skýr skilaboð um að vandamálið sé hennar. Hann lemur vegna þess að hún æsti hann upp, hún gleymdi þessu eða hinu, að hún.... Og því þarf hún bara að breyta sér aðeins og þá verður allt gott.

Ég held að Saga Von hafi verið sterk kona. Það að fara frá manninum sínum, eins og hún gerði í upphafi sögunnar ber vott um gríðarlegan styrk.

Saga Von átti aldrei undakomu leið. Hún varð að fara aftur með manninum sínum heim og þannig er staða margra kvenna í heiminum enn í dag. Hér á Íslandi eru til leiðir til þess að komast í burtu en þetta ofbeldi er svo flókið að margar konur upplifa ekki að þær eigi undankomu þrátt fyrir allt.

Saga um von Sagan hennar Sögu vonar er ekki saga um von. Eða hvað?

Er einhver von fólgin í því að konu sé misþyrmt, fyrst af manni sínum og síðan nauðgað og misþyrmt af hópi manna eftir að maðurinn hennar gefur þeim leyfi til þess?

Getur verið að í þessari sögu sé einhver von?

Er vonin kannski fólgin í því að sagan fær rými í Biblíunni? Að við erum að segja söguna? Það er svo auðvelt að sópa ljótum sögum undir borðið. Sögum af heimilisofbeldi. Ofbeldissögum sem enda illa. Kannski er það reynt hér með því að gefa ekki konunni nafn en það breytist í dag. Nú á hún nafn. Hún heitir Saga Von.

Yfir 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert. Það var heldur ekki refsivert á tímum Sögu Vonar. Það er okkar verkefni að sjá til þess að þessi tegund ofbeldis verði refsiverð um allan heim.

Saga Von er hver einasta kona hér á höfuðborgarsvæðinu sem verður fyrir ofbeldi. Saga Von er allar konur, um allan heim sem búa við ofbeldi. Örlög Sögu Vonar eru áminning til okkar allra um að vakna upp og opna umræðuna um heimilisofbeldi. Einmitt nú, eru nefnilega konur um allan heim að verða fyrir jafn grófu og jafn hörmulegu ofbeldi og Saga Von, en við viljum koma í veg fyrir að þær endi eins og sagan hennar. Við viljum gefa þeim von um að þeirra myllumerki verði #égslappfráhonum.

Ef þú hefur minnsta grun um að einhver sem þú þekkir verði fyrir ofbeldi af hálfu maka eða kærasta, vertu óhrædd(ur) og gerðu eitthvað í því. Við eigum að skipta okkur af náunga okkar ef við höfum grun um að ofbeldi eigi sér stað. Ef þú býrð við ofbeldi vil ég segja við þig: Leitaðu þér hjálpar hjá presti, vinkonu eða einhverri manneskju sem þú treystir, því um leið og þú ert búin að segja frá, er líklegra að þú komir þér í burtu og fáir hjálp. Kvennaathvarfið er líka góður kostur sem er opin þolendum heimilisofbeldis og þar hefur fjöldi kvenna fengið hjálp.

Vonin í sögunni hennar Sögu Vonar er að hún verði til þess að við hættum að fela þessar sögur. Það er nefnilega engin skömm fólgin í því að lenda í ofbeldi. Það er aftur á móti skömm að beita ofbeldi.

Megi næstu myllumerki verða #égsklappfráhonum og #viðþegjumekkiyfirheimilisofbeldi. Amen.