Að kveðja heim sem kristnum ber

Að kveðja heim sem kristnum ber

"Mikið þurfti til, svo ég gæti skilið hvað er dýrmætast í lífinu".

Að kveðja heim sem kristnum ber um kvöld og morgun lífsins er jafnerfitt æ að læra og engum lærðist íþrótt sú ef ei, vor Jesús, værir þú hjá oss með orð þitt kæra. (Sb 423)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Við höfum verið að ræða um helgi lífsins í fermingarfræðslunni að undanförnu. Hvað er heilagt? Hvað merkir, að maðurinn sé heilagur? Lífsrétturinn, friðhelgi einkalífsins, mannvirðing og náungakærleikur. Er allt þetta sjálfgefið? Skiptir átrúnaður þjóðar máli í því sambandi?

Sæluboð Jesú, sem eru guðspjall á Allra heilagra messu, vekja til umhugsunar um helgi lífsins, gildismat og sið. “Ef ei, vor Jesús, værir þú hjá oss með orð þitt kæra”. Er það svo í íslensku þjóðlífi nútímans, að nærvera Jesú Krists sé lifandi veruleiki í raun og sannleika og sæluboðin móti líf og glildi?

Að hinu ytra hefur þjóðfélagið gjörbreyst. Við aldamót tuttugustu aldar bjó á Íslandi þjóð fátækra bænda og fiskimanna sem erjaði jörðina og sótti sjóinn með svipuðum aðferðum og tækjum og tíðkast höfðu síðan á landnámsöld. Íslendingar voru þá tæplega 76 þúsund talsins og helmingur þjóðar bjó til sveita. Höfuðborgin í Reykjavík var hálfdanskt verslunarþorp með 6.500 íbúum. Íslendingar áttu ekkert vélknúið skip, engin verksmiðja í landinu, varla nokkur vegur eða brú, engar byggðar hafnir, enginn sími og varla einu sinni hús úr steini.

Á rúmum hundrað árum hefur orðið búhátta-og tæknibylting í landinu. Ég spyr fermingarbörnin mín alltaf við skoðun á boðorðunum tíu, þar sem um nokkur þúsund ára gömul boðorð er að ræða, hvort einhver þeirra séu úrelt og tímaskekkja og hvort bæta verði einhverju nýju boðorði við í ljósi þróunar lífsins og breytinga á lífsháttum um árþúsundir. Svarið er alltaf þögn, ekkert úrelt og engu við að bæta.

Gildir hið sama um sæluboðin og annan boðskap Jesú Krists þrátt fyrir byltingu í lífsháttum?

Í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá var spurt um Þjóðkirkjuna. Góður meirihluti kjósenda í atkvæðagreiðslunni vill hafa ákvæði um Þjóðkirkju í stjórnarskrá. Var fólkið að taka undir með sálmaskáldinu: “Ef ei, vor Jesús værir þú hjá oss með orð þitt kæra”?

Um miðja síðustu öld, voru Íslendingar svo hugfangnir af efnahagsframförum og tæknibyltingum, að sumir héldu því fram, að innan skamms myndi trúin verða óþörf, aðeins tímaspursmál hvenær rekunum yrði kastað yfir kirkjuna, af því að maðurinn væri að verða fullkominn af sjálfum sér og myndi innan skamms geta allt og vita allt. Þessi skoðun er heldur ekki ókunn nú á tímum, og hávær stundum, þó sóknin í andlega og innri íhugun sé mikil og krefjandi.

Fólkið þráir frið og andlega næringu í sálina andspænis hraða og áreiti nútímans, lýðskrumi margs konar og freistandi gylliboðum. Fjármálahrun, stríðsátök, hungur og örbirgð á stórum svæðum jarðar og varnarleysi amennings gagnvart kúgun öfgahópa með hryðjuverkum vitnar um ófullkomna veröld, þar sem einstaklingurinn má sín lítils, en á sér einlæga von með samferðafólki um fagurt mannlíf.

Þegar við skyggnumst undir hið ytra borð, þá deilum við sömu tilfinningum og hugsunum með kynslóðum aldanna um þrá eftir innri sæld og öryggi, friði og ást. Það sem í raun hefur sameinað kynslóðir aldanna er: “Ef ei, vor Jesús, værir þú hjá oss með orð þitt kæra”. Við finnum því heilaga orði stað á svo mörgum sviðum. Kirkjan með starfi sínu, í krossi þjóðfánans, dagatalinu með Jesú Krist að kjölfestu, þjóðsöngnum sem boðar Ó, Guð vors lands, börnin borin til skírnar og fermast, brúðhjónin bindast með bæn og blessun og látinn ástvinur er kvaddur hinstu kveðju í trú, von og kærleika.

Þegar ég var við framhaldsnám í Bandaríkjunum, þá var mér bent á, að gott væri að kynnast háttum og menningu þjóðar í fljótu bragði með því að spyrja um útfararsiðinn. Góður vinur minn, búsettur í Reykjavík, hafði samband við mig eftir að hafa farið í ferð um landið. Á laugardagsmorgni sagðist hann hafa komið í afskekkt sjávarþorp og vakið athygli hans, að íslenskur fáni blakti í hálfa stöng nánast við hvert hús í þorpinu og fór því að spyrjast fyrir um hvað væri í gangi. Jú, honum var sagt, að eftir hádegi færi fram útför konu, sem látist hafði eftir skammvin veikindi. Hann spurði hvort hún hefði verið fædd og uppalin á staðnum. Nei, hún var af erlendu bergi brotin og ekki búið þar lengi. “Og samt flaggið þið? Er það alltaf gert á útfarardegi”? “Já, það er gróinn siður hér og svo mætum við öll í kirkjuna”.

Vini mínum kom þetta á óvart og spurði er þetta enn svona úti á landi? Í mörgum nágrannalanda okkar hafa útfararsiðir verið að breytast, færri mæta við útfarir sem hafa færst í ríkari mæli fram á kvöld svo ekki raski daglegum störfum fólks og minna lagt í orð og söng. Hér á landi stendur samúðin með ástvinum, sem syrgja, djúpum rótum og útfararathöfnin ekki breyst öldum saman, fremur vaxið að umfangi. Í hinstu kveðjustund opinberast mannvirðing og heilagt líf, náungakærleikur og einlæg von, sem er samofið í: “Ef ei, vor Jesús, værir þú hjá oss með orð þitt kæra”.

Jesús sagði í sæluboðunum: “Sælir eru sorgbitnir, því þeir munu huggaðir verða”. Enginn ytri búnaður sefar í sorg við missi, hvorki fjármunir eða eignir. Í miðju sárrar sorgar fær allt verðmætamat nýja merkingu. Þá verður svo ljóst hvað er heilagt og eftirsóknarvert. Fjölskyldan, einlæg vinátta samferðafólks, fórnfús ástin og lifandi trú. Þetta eru haldreipin í sárum sorgarinnar, og er ekki lítið. En það getur einnig reynst ögrandi að opna hjarta sitt með því að elska, fyrirgefa, þakka, biðja, erfitt að höndla af því að missi bar svo brátt að, óviðbúið og þvert á allt sem áður hafði verið lagt traust á. Einu sinni sagði við mig foreldri eftir hinstu kveðjustund barnsins síns: “Mikið þurfti til, svo ég gæti skilið hvað er dýrmætast í lífinu”.

Oft verða áföll til þess að vekja fólk til umhugsunar, endurmats, breyta fyrri háttum og venjum, rækta þakkklæti og glæða nýja von. Svo er þekkt að leggjast í afneitun eða reiði biturðar og gremju. Sorgin kallar fram svo margvísleg viðbrögð.

Á Íslandi hefur útfararsiður og umgengni við missi og sorg byggst á virðingu og samúð. Þökk sé gefandi umræðu um sorgina og hjálp sem í boði er við slíkar aðstæður. Stofnun samtakanna Sorgar og sorgarvirðbragða árið1987 olli þáttaskilum með viðhorfsbreytingu, sem líkja má við viðhorfsbreytingu sem varð til áfengissýki í kjölfar stofnunnar SÁÁ. Það má tala um dauðann og sorgina og ræða um hjartfólgnar minningar. Líka eftir að útför er afstaðin. Þar liggur til grundvallar bænin:

“Guð gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þa á milli”.

Þetta er hin kristna von í kærleika, sem virðir heilagt líf og getur sagt í lifandi trú: “Sælir eru sorgbitnir því þeir munu huggaðir verða”. Ljósin sem við tendrum hér við altarið vitna um heilaga minningu, minningu um látna ástvini okkar og við treystum því að þeir hvíli í náðarfaðmi Guðs. “Ef ei, vor Jesús, værir þú hjá oss með orð þitt kæra”. Amen.