Stuttur, feitur djákni

Stuttur, feitur djákni

Á sunnudögum vaknaði afi fyrir allar aldir. Hann var meðhjálpari, vildi hafa kirkjuna fína og fór snemma. Við amma fórum í spariföt þó nokkru seinna og héldum til kirkju. Þegar við komum í kirkjuna var hún hrein og strokin. Hver sunnudagur var hátíð. Upplifun mín var að við værum öll svo fín.

Á sunnudögum vaknaði afi fyrir allar aldir. Hann var meðhjálpari, vildi hafa kirkjuna fína og fór snemma. Við amma fórum í spariföt þó nokkru seinna og héldum til kirkju. Þegar við komum í kirkjuna var hún hrein og strokin. Hver sunnudagur var hátíð. Upplifun mín var að við værum öll svo fín.

Í dag starfa ég sem djákni í þjóðkirkjunni. Ég kem fram við ýmsar aðstæður, stend fyrir framan fólk, litla sem stóra hópa og tjái mig. Þá verður mér stundum hugsað til afa og annarra fyrirmynda sem ég hef átt í gegnum tíðina og ég fer ósjálfrátt að bera okkur saman.

breytturdjakni
Þá á ég það til að detta í hörku sjálfgagnrýnisgír. Harkan er slík að þetta á ekkert lengur skylt við rýni til gagns. Ég dreg upp mynd af sjálfum mér þar sem ég vel að túlka allt mér í óhag og myndin á lítið skylt við raunveruleikann. Sem dæmi má nefna að ég er með viðkvæm augu og á það til að verða rauður um augun. En á svona degi dreg ég upp mynd þar sem ég er með eldrauð augu sem allt af því spúa eldi. Þá er ég þó nokkrum kílóum yfir kjörþyngd, en á svona degi sannfæri ég sjálfan mig um að ég sé mun breiðari. Og þó að ég viti vel að ég er tæpir 180 cm á hæð, þá stytti ég sjálfan mig um 10% eða jafnvel 20% prósent í huganum. Og þannig held ég áfram þar til að ég er búinn að sannfæra mig um að ég sé stuttur, feitur djákni sem enginn vill tala við. Og ég skammast við GUÐ fyrir að hafa búið mig til.
lengdurdjakni
Þeir dagar eru líka til þegar ég er uppfullur af ofurbjartsýni. Ég er einfaldlega bestur. Enginn er jafn fagur og ég, útlit mitt fullkomið og sjálfsmyndin slík að færustu listmálarar heims gætu ekki náð að töfra þá fegurð fram í verkum sínum. Gáfur mínar hafa líka stökkbreyst á einni nóttu og þó ég hafi ekkert doktorspróf, þá er það bara formsatriði. Á einhvern magnaðan hátt hafa aukakílóin fokið út í vindinn og ég stend beinn í baki eins og sá sem hefur stundað fimleika alla ævi. Æðstu embætti á landinu eru mér of auðveld og ég tel mig fullfæran um að taka við af Obama. Og ÉG þakka guði fyrir að hafa búið MIG til.

Í fínu kirkjunni hans afa, þar sem við sátum í okkar bestu fötum og allt var svo hátíðlegt var sagt frá því að Jesús hrissti upp í þeim sem drógu eigin sjálfsmynd niður í svaðið. Hann heimsótti bersynduga og átti samneyti við þau sem þóttu vera af lægstu stéttum samfélagsins. Þannig fengu niðurbrotnir Emmausfarar að upplifa að kærleikur Krists var mitt á meðal þeirra og þeir uppgötvuðu á nýjan leik vonina í brjósti sér. Sakkeus sem hafði málað sjálfan sig út í horn samfélagsins með framkomu sinni og hátterni uppgötvaði nýjan tilgang í lífinu þegar Jesús tók hann tali og sótti hann heim.

Í fínu kirkjunni hans afa, á hátíðarstundu komst ég líka að því að sumur þóttust of fínir til að mæta með hverjum sem væri á samkomu trúaðra. Og ég fékk að heyra sögur af því hvernig Jesús fékk þau til að hugsa tilgang lífsins upp á nýtt. Þannig benti Jesús á Faríseann sem upphafði sjálfan sig í stað þess að koma auðmjúkur fram fyrir Drottinn. Og Jesús benti ríka unglingnum á að hann yrði að átta sig á með hverju hann fyllti hjarta sitt.

Mörgum árum eftir að afi hafði látið af störfum sem meðhjálpari vorum við að hjálpast að við að mála sumarbústaðinn hans. Afa var tíðrætt um að þetta væri nú sennilegast í síðasta sinn sem hann málaði bústaðinn, ellin væri farin að stríða honum of mikið. En, bætti hann við án þess að hætta að mála, ég er sáttur, hef aldrei ætlast til of mikils af sjálfum mér né öðrum.

Drottinn gefi okkur öllum visku og auðmýkt til að átta okkur á því hver við erum og hjálpa okkur til að lofa hann fyrir hvert það verk sem við náum að framkvæma. Og þakka fyrir samferðafólkið og hæfileika þess í stað þess að tapa okkur í tilgangslausum samanburði.