Ungmennaskiptaverkefni vekja athygli

Ungmennaskiptaverkefni vekja athygli

Í lok verkefnisins höfðu þau ekki bara öðlast betri skilning á þemanu „Stand up for your rights“ heldur uppgötvað samtakamátt ungs fólks á nýjan hátt.

ÆSKA hefur ásamt æskulýðsstarfi evangelísku kirkjunnar í Reutlingen (Þýskalandi) staðið fyrir ungmennaskiptaverkefnum um þriggja ára skeið. Um síðustu helgi kynntu nemendur evangelíska háskólans í Ludwigsburg sér verkefnin og ræddu við þátttakendur. Kynningin fór fram í tengslum við námskeið um evrópskt æskulýðsstarf.

Fjórar stúlkur sem tekið höfðu þátt í verkefninu „girls4girls“ síðasta sumar ljómuðu þegar þær sögðu frá tíu daga dagskránni og ljóst að þeim þótti það einstakt tækifæri fyrir tíu þýskar stelpur að hitta jafnmargar 14 til 17 ára stelpur frá Íslandi. Og tilhlökkunin er stór: Næsta sumar er komið að þýsku stelpunum að heimsækja þær íslensku. Jennifer Hölz, æskulýðsfulltrúi sagði frá helstu áhersluatriðum verkefnisins sem var unnið í anda ungmennahluta Erasmus+ áætlunarinnar undir yfirskriftinni „(no) limits for girls“.

Rauði þráðurinn í frásögn stúlknanna var sá gagnkvæmi áhugi sem stúlkurnar höfðu á landi, menningu og hugsanagangi stúlknanna frá hinu landinu. Þannig greindu þær þýsku frá því að íslensku stelpurnar væru miklu sjálfsöruggari og að það væri verkefni að læra að verða jafn öruggar í fasi, framkomu og málflutningi eins og þær. Hins vegar hefðu stöllur þeirra frá Íslandi hrósað þeim fyrir það í hversu góðu formi þær væru. Á meðan á kynningunni stóð áttu stúlkurnar erfitt með að halda aftur af sér, slík var frásagnargleðin og þær komu víða við. Þannig nefndu þær að íslensku stelpurnar hefðu verið hissa, jafnvel hneykslaðar, hversu auðvelt væri að nálgast áfengi í Þýskalandi og aldurstakmörkin lág. Að sama skapi voru vinkonurnar af meginlandinu undrandi hversu sjálfsagt hjónaband samkynhneigðra var í augum þeirra íslensku.

Af máli stúlknanna var ljóst að dagskrá ungmennaskiptanna þar sem fjallað var um jafnrétti kynjanna hafði náð að efla áhuga þeirra á málefninu. Á meðan á dvöl þeirra í Tübingen og Unterhausen stóð skoðuðu þær marga fleti kynjamisréttis. Það er ljóst að þær eru nú mun meðvitaðri um þá mismunun sem mætir konum í samfélaginu í dag. En þær sjá slíka mismunun ekki sem hindrun, heldur sem áskorun sem hin unga evrópska kona þarf að takast á við.

Næsta kynning fjallaði um people4people. Fimm þátttakendur verkefnisins greindu frá kostum þriggja ára ungmennaskiptaverkefnis sem fram fór í Þýskalandi, Póllandi og á Íslandi. Ljóst var af máli þeirra að þau höfðu lært fjölmargt um aðferðafræði óformlegs náms og að þau voru vel inn í því hvernig ungmennaskiptaverkefni í anda Erasmus+ virka, hvaða vinna liggur þar að baki og hver helstu áhersluatriði þurfa að vera.

Eitt af því sem hafði haft mikil áhrif á þau var hversu virk þau þurftu að vera sjálf í verkefnunum. Sem dæmi tóku þau að þegar kom að þriðja árinu og þeim var sagt að nú væru þau orðin svo vön að þau gætu tekið stóran hluta dagskrárinnar í eigin hendur varð þeim um og ó. Þannig áttu þau erfitt með að átta sig á því hvernig í ósköpunum það gæti virkað að allir þátttakendur – tíu frá hverju landi – settust niður í upphafi hvers dags og sættust á dagskrá þar sem allir gætu unnið hluta verkefnisins eftir eigin áhuga og getu. Þetta þótti þeim stór áskorun, sérstaklega í ljósi þess að markmið verkefnisins var að æfa eitt baráttulag á degi hverjum og halda tónleika síðasta daginn. En einmitt sú upplifun að þetta var hægt, að þeim tókst að finna leið á hverjum degi til þess að æfa dansa, sviðsetningu og tónlist við hæfi hvers lags. Í lok verkefnisins höfðu þau ekki bara öðlast betri skilning á þemanu „Stand up for your rights“ heldur uppgötvað samtakamátt ungs fólks á nýjan hátt.

Verkefnin voru styrkt af ungmennahluta Erasmus+ styrktaráætlunar Evrópusambandsins. Á Íslandi heldur UMFÍ utan um fjárframlög sambandsins og rekur í því samhengi landsskrifstofuna Ungt Fólk í Evrópu. Fræðast má um styrktarmöguleika á http://www.euf.is/