Útrásargosar og öfundarmenn

Útrásargosar og öfundarmenn

Þjóðin beið eftir því að Geir H. Haarde segði eitthvað á fimmtudagskvöldið, eða bara Davíð Oddsson eða einhver annar sem getur og veit og kann að leiðrétta misskilning. Þjóðin er að spyrjast á: Hvar er einhver sterkur, vitur einstaklingur sem getur leiðrétt afstöðuna milli okkar og hinna efnislegu gæða svo að þau haldi áfram að flæða til okkar? Rétt svar er þetta: Hann er hvergi. Lausnin verður ekki tjáð, bara heyrð.
Jóna Hrönn Bolladóttir - andlitsmyndJóna Hrönn Bolladóttir
05. október 2008

á tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.

Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.

Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“ Matt 22.1-14

I

Munið þið hér í hitteðfyrra þegar við vorum öll á leiðinni að deyja úr fuglaflensu? Vel gefið og upplýst fólk var farið að safna sér þurrmat og sumir þorðu ekki að fara að gefa öndunum brauð á Tjörninni af ótta við fugla? Ég man raunverulegar samræður yfir eldhúsborðið heima þar sem áhættan við að fara út fyrir landssteinana var rædd. Maður gat smitast eða lokast frá landinu. Síðar kom í ljós að það sem var mest smitandi var óttinn, ekki flensan. Ég átti erindi í blómabúð á föstudaginn. Afgreiðslukonan tók mig tali og fór að ræða yfirvofandi vöruskort í landinu og þær áhyggjur fólks að það yrði ekki einu sinni hægt að fá bensín. Það var þá sem fuglafelansan rifjaðist upp í huga mér og við fórum að ræða þetta saman og velta fyrir okkur hvort ekki væri bara ráð að draga fram allan þurrmatinn og niðursuðudósirnar sem þjóðin safnaði í fuglaflesnufárinu. Svo kvöddumst við eftir að hafa hlegið hressilega. Ótti smitast léttilega og við þurfum að vera glögg á eðli hans og megum til að gera upp við okkur hvort við ætlum að láta hann stjórna. Það er með óttann eins og tröllin, hann er það sem við ákveðum. Óttinn hefur þau tök sem við færum honum. Því var það hárrétt hjá Landlæknisembættinu, Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitinu er þessir aðilar gáfu út sameiginlega yfirlýsingu fyrir helgi og vöruðu við bölmóði þar sem menn keppast um að taka djúpt í árinni og láta grimmilega spádóma dynja á fólki. Ágætur sálfræðingur Páll Einarsson að nafni kom líka fram og lýsti því hvernig vandinn styrkir fjöslkyldurnar. Hann hélt því fram, öfugt við það sem margur hefur sagt að ástandið í þjóðfélaginu hafi ekki orðið til þess að auka á hjónabandsörðugleika fólks. Sagðist hann telja þá örðugleika sem margar fjölskyldur standi nú frammi fyrir ekki þurfa að sundra fjölskyldum heldur þvert á móti geti það þjappað fólki saman. Við hjónin tökum undir það. Í allri okkar sálgæsluvinnu á þessu hausti hafa engin hjón leitað til okkar sem eru í hjónabandserfðileikum vegna fjárhagskreppunnar, það eru allt aðrar kreppur sem eru að leggjast á hjónaböndin. Fólk er ekki að skilja við maka sinn vegna fjármála. Íslenskur almenningur er bara stærri í sniðum en svo að það kreppi að undirstöðum þjóðfélagsins þótt harðni á dalnum. Íslensk þjóð mun halda ró sinni í gegnum þessa raun og við eigum ekki að þurfa þola það að gert sé lítið úr fólki með yfirlýsingum um glundroða sem ekki er fyrir hendi. II

En nú skulum við tala saman um efnisleg gæði. Hvað vitum við um efnisleg gæði? Hvað veit hagfræðin eða heimspekin? Grísku frumspekingarnir sem uppi voru meira en fimm hundruð árum fyrir Krist og voru forverar Sókratesar, Plató og Aristotelesar komust að þeirri niðurstöðu um veruleikann sem ekki hefur verið haggað að kyrrstaða sé blekking. “Panta hrei” sögðu þeir. Allt hreyfist, ekkert stendur kyrrt. Þú stígur aldrei tvisvar í sömu ána, því að í andránni er hún önnur en hún áður var. Allt er verðandi. Hinn áhrifamikli breski hagfræðingur John Maynard Keynes sem starfaði á fyrri hluta síðustu aldar lét eina setningu vera niðurlag sinna fræða: “In the long run we will all be dead.” Á endanum erum við öll. Heimspekin og hagfræðin vita það eitt um efnisleg gæði að þau eru á leiðinni framhjá okkur. Það er það eina sem hægt er að fullyrða með vissu. Allt er verðandi og á endanum erum við öll. Íslensk þjóð er áhyggjufull vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar. Orðin sem lesin voru úr bók Jesaja spámanns hér áðan voru mælt fram til þjóðar sem lifði meiri vanda en við nokkru sinni. Kjarni samfélagsins hafði verið herleiddur á brott til fjarlægs lands, helgidómar þjóðarinnar höfðu verið rændir og vanhelgaðir svo að ekki stóð steinn yfir steini í efnahagslegu eða félagslegu tilliti. “Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins og þér sem ekkert fé eigið, komið,” mælir Guð fyrir mun spámannsins., “komið, kaupið korn og etið, komið, þiggið korn án silfurs og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk. [...] Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu og endurnærist af feitmeti. Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa. (Jesaja 55.1-5) Trúin veit það sem heimspekin og hagfræðin segir um efnisleg gæði. Hún veit að það er fátt hægt að vita um efnið vegna þess að það er alltaf á leiðinni framhjá. Allt er verðandi. Það er merkilegt til þess að hugsa að orð spámannsins voru mælt um 50 árum áður en heimspekingurinn Heraclitus fæddist. “Panta hrei” hefur verið eignað honum. “Hlýðið á mig,” segir gjafari lífsins “þá fáið þér hina bestu fæðu og endurnærist af feitmeti. Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa.” Heyrir þú hjartsláttinn á bak við þessa rödd? Skynjar þú þann hug sem að baki býr? “Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa!” Það er eitthvað varðandi lífið sem er endurgjaldslaust. Það er eitthvað sem ekki liggur í augum uppi en er þarna og hefur verið allan tímann á öllum öldum, eitthvað sem ekki kostar en allir vildu glaðir gefa aleiguna fyrir. Það er einhver misskilningur sem liggur ósagður í loftinu og lausn hans verður ekki tjáð, bara heyrð. Þjóðin beið eftir því að Geir H. Haarde segði eitthvað á fimmtudagskvöldið, eða bara Davíð Oddsson eða einhver annar sem getur og veit og kann að leiðrétta misskilning. Þjóðin er að spyrjast á: Hvar er einhver sterkur, vitur einstaklingur sem getur leiðrétt afstöðuna milli okkar og hinna efnislegu gæða svo að þau haldi áfram að flæða til okkar? Rétt svar er þetta: Hann er hvergi. Lausnin verður ekki tjáð, bara heyrð. III

Í guðspjalli dagsins er allt sem við óttumst, þar er allt þetta sem Landlæknir er að biðja okkur um að vera ekki að veifa framan í börnin okkar í hugaræsingi, þar er tortíming og brenndar borgir. „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki.” - Það er þensla í Guðspjallinu, athafnasemi og dugnaður með tilheyrandi skarkala og skorti á hlustun sem aftur hefur sínar afleiðingar. Gjafari lífsins kallar: “Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.” En boðsgestirnir skeyta því ekki. “Einn fór á akur sinn,” segir orðrétt “annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.”

Þegar hér er komið sögu gæti maður ætlað að Jesús sé að skamma duglega fólkið vegna þess að því hætti til að vera hrokafullt. Er ekki merking sögunnar eitthvað sem bankakarlar og útrásargosar mega taka til sín? Já, “bankakarlar og útrásargosar” segjum við núna um persónur sem við dáðum og öfunduðum fyrir örfáum dögum. Við smjöttum á orðaleppunum sem við veljum þeim og nýyrðaíþróttin hefur blómstrað. Og enginn virðist betur til þess fallinn að gefa kaupréttarsamninga-drengjunum á baukinn heldur en Jesús frá Nasaret. En sögunni er ekki lokið. Við erum sest inn í veislusalinn í huganum með öllum almenningi. Við erum almenningur. Í dag viljum við öll vera alþýðufólk en ekki þotulið. Gott og vel.

“Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“ Þú sleppur ekki! Jesús Kristur sleppir hvorki þér né mér undan kröfu sinni. Í þeim anda skrifar Páll postuli í pistli dagsins: “Hafið [því] nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins.” (Ef. 5.15-21) Hvað var það sem fór úrskeiðis í sögunni? Afdrif hinna skeytingarlausu boðsgesta og mannsins sem ekki var í brúðkaupsklæðum urðu þau sömu. Skortur þeirra var af sama toga. Það er eitthvað eitt sem Jesús er að segja, það er eitthvað sem brúðkaupsklæðin standa fyrir, eitthvað sem er svo brýnt og mikilvægt að án þess erum við í frjálsu falli í veruleikanum, svo notuð séu kunnugleg og kvíðaþrungin orðasambönd. Og þetta eina er svo sammannlegt að það gildir beggja vegna hælsins í harki daganna, það gildir jafnt um þá sem græða og tapa, stóra sem smáa. Samt er það svo að enginn getur sagt það öðrum, en sá sem heyrir það hættir að óttast. Frá þeirri stundu sem sál mannsins heyrir sér hann að það er engu hægt að tapa í þessum heimi. Eina raunhæfa tjónið sem þú getur beðið er að þú týnir sjálfum þér. Frá þeirri stundu sem þú heyrir verður meðhöndlun efnislegra gæða að íþrótt sem fólgin er í því að þiggja með þökkum, meðhöndla af leikni og veita svo áfram með gleði. Sá sem heyrir vill ekki framar eiga, langar öllu heldur að þiggja til að veita. Hann er stiginn út úr óttanum við hverfulleikann, hefur “skyggnst inn í hið fullkomna lögmál frelsisins” (Jak. 1.25) og getur því með þakklæti, rausn og fögnuði nýtt sér lögmál markaðarins og öll önnur náttúruleg lögmál án þess að lúta þeim.

Hlustaðu!: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var frá upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.