Guð til sjós

Guð til sjós

Svo hefur kristin tru verið samofin atvinnulífinu í blíðu og stríðu. Íslensk trúarvitund geymir ekki Guð í kirkjunni á milli helgra athafna, heldur skynjar nærveru hans í önnum daganna, skapandi mátt, vernd og leiðsögn.

Varðveittu mig og veg minn greið,

vernd þín yfir mér standi,

frá beiskri sorg og bráðum deyð

bæði á sjó og landi.

Jesús minn trúr

eymd allri úr

einn kanntu mig að leysa,

vertu mér næst,

þá hér sem hæst

hafsins bylgjurnar geysa.

Þannig kvað sr. Hallgrímur Pétursson og er tákrænt fyrir nána sambúð trúar og lífsins á sjónum um aldir. Þar hefur oft verið beðið heitt og innilega. Mér er minnisstætt frá mínum fyrsta togaratúr, að við höfðagafl kojunnar minnar var Biblía og blaðsíður hennar báru með sér að vera mikið lesin bók. Síðar stundaði ég sjóinn samhliða guðfræðináminu í Háskólanum og fór gjarnan með bækurnar mínar með á sjóinn og las á frívöktum eins og aðstæður leyfðu. Oft urðu líflegar umræður á meðal okkar skipsfélaganna um trúmálin og kafað djúpt, varpað fram einlægum spurningum frá hjartans rótum um nærveru Guðs, máttarverkin hans og umhyggju.  Þetta var mér dýrmætur skóli og minnisstæður, en til vitnis um hve Guð er nálægur í lífi sjómannsins.

Svo hefur kristin trú verið samofin atvinnulífinu í blíðu og stríðu. Íslensk trúarvitund geymir ekki Guð í kirkjunni á milli helgra athafna, heldur skynjar nærveru hans í önnum daganna, skapandi mátt, vernd og leiðsögn. Sömuleiðis leitum við þangað í smiðju trúarinnar um skilning okkar á siðrænum viðmiðunum um ábyrgðina, réttlætið og metnað til uppbyggingar og framfara.

Siðbót Lúthers, stærsta menningarbylting á Íslandi, svipti kirkjuna valdinu yfir Guði og færði frá himninum niður á jörðina inn í lífsbaráttu fólksins með því að opna augu almennings um hið beina sambandi á milli Guðs og manns.  Guð er hér mitt á meðal okkar með náð sinni og miskunn. Kirkjan varð að samverustað blómlegrar menningar, þar sem fólkið sótti í andlega næringu og hvatningu til framfara.

Siðbótin hafði mikil áhrif á þjóðlífið og lagði grunn að öflugri alþýðumenntun, virðingu fyrir heilögum lífsréttinum og sjálfsvitund einstaklingsins. Þessi menningarbylting festi djúpar rætur í Norður Evrópu og réð mestu um, að þjóðfélagsskipan og siðir þróuðust öðruvísi þar, en víða annars staðar í Evrópu.  Áherslan á frelsi og frumkvæði einstaklingsins til athafna og framfara varð í fyrirrúmi samhliða sterkri vitund um samfélagsábyrgð og réttlæti náungans. Þar er kjölfestan virðingin fyrir lífinu og vonin um framtíð sem nærist á kristnum grunni.

Þetta gildismat hefur einmitt mótað þróunina í íslenskum sjávarútvegi, þar sem uppbyggingin hefur hvílt á kjarkmiklum útgerðarmönnum og dugandi sjómönnum sem nýta gjöful fiskimiðin. Á sjónum gildir að starfa saman eins og einn maður þar sem virðingin er í öndvegi í samskiptum áhafnarinnar, við skipið, náttúruna og veiðarnar.

En sjávarútvegurinn er ekki einkamál útgerðarmanna og sjómanna. Þar á þjóðin öll stóran hlut að máli. Auðlindir hafsins, sköpunargjafir Guðs, eru faldar þjóðinni til forsjár og nýtingar til farsældar og ráða svo miklu um efnislega afkomu. Þetta er hornsteinn í efnahagslífinu, og við finnum á eigin skinni, sem búum í fámennu sjávarbyggðinni, þar sem sjósóknin með fiskvinnslu í landi skiptir svo miklu um búsetuöryggi og lífskjörin.  Um langa tíð hafa verið skiptar skoðanir um skipulag fiskveiðanna, enda miklir hagsmunir í húfi, ekki síst eftir að upplaukst að auðlindin er ekki takmarkalaus með þeirri afkastatgetu sem í boði er. En þá reynir á gildismat um frumkvæði og frelsi einstaklingsins til framkvæmda með skapandi samfélagsábyrgð, nákvæmlega eins og gildir um samfélag sjómanna við störfin sín á hafi úti, þar sem virðingin er í fyrirrúmi.

Mikilvægt er að rækta sambúðina með Guði og boðskap hans um hið kristna gildismat um frelsið og ábyrgðina. Það hefur aldrei gagnast neinni þjóð til farsældar að sérhver hrifsi til sín ómælt án virðingar við afdrif samferðafólks. Íslendingar eiga sára reynslu af því, þegar það var reynt.  Það eru líka takmörk á því hve miklu einstaklingurinn getur torgað af efnislegum gæðum og ekki fer góssið með í kistunni ofan í gröfina. Skynsamlegt er því að horfa sér nær og skoða tilgang sinn og markmið með lífi sínu, og á meðan leikur í lyndi, en að neyðast til, ef áföllin steðja að.

Það var einmitt þetta sem skipsfélögum mínum var m.a. ofarlega í huga í umræðunum um Guð og trú um borð í togaranum á háskólaárum mínum. Þeir fundu að Guðsorðið hafði merkingu og tilgang fyrir lífið. Og þannig hefur þjóðin átt samleið með Guði allt fram á þennan dag, og bænarorð sr. Hallgríms Péturssonar eins og ný á hverjum degi.  Það er vonin sem göfgað hefur lífið og breiðir faðminn sinn yfir sjómenn og fjölskyldur þeirra. Sjómannadagurinn minnir svo innilega á þetta, að Guð er með í för.

„Varðveittu mig og veg minn greið, vernd þín yfir mér standi“.