Elskaðu!

Elskaðu!

Leiðum hugann að því og meira að segja þeir einstaklingar, sem kenna sig við trúleysi, eru svo innilega velkomnir til kirkjunnar, og ekki síst þeir, því þar höfum við virkilega leitandi manneskjur, sem eru að reyna að fóta sig og finna grunninn að tilverunni, fólk sem pælir jafnvel meira í trúmálum en hinn almenni borgari, það getur maður einnig séð á blogginu góða.

Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.Jóh. 15.12-17

Það er skýlaus krafa frelsarans að við elskum. Óskaplega er það notaleg krafa, svo jákvæð og björt, en við þurfum samt að hafa heilmikið fyrir henni. “Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.” Þetta er úr kveðjuræðu Krists og hún hljómar þarna jafnvel eilítið eins og útskriftarræða þ.e.a.s. “ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.

Gráðan er það að mega kallast vinur, þeir hafa unnið sig upp úr þjónshlutverkinu, því nú eiga þeir að vita hvað Kristur stendur fyrir, nú eiga þeir að þekkja kærleikann stóra, sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.

Lærisveinarnir fengu þarna engar gjafir í umbúðum, enga peningasamninga eða önnur fríðindi, þeir höfðu hina stærstu og mestu gjöf fyrir framan sig, Krist sjálfan, sem nú var á förum upp í hæstu hæðir og sem hafði gefið þeim það sem við eigum alltaf og verður aldrei frá okkur tekið, það eru þau huglægu gæði, sem eru frá Guði komin, himneskur fjársjóður.

Já, og síst voru einhverjir feitir starfslokasamningar, því starf lærisveinanna var rétt að byrja, hið stærsta og mest krefjandi starf í heiminum, sem er það að bera Guði vitni, ekkert starf kemst í hálfkvisti við það. Og frelsarinn var áfram með þeim þrátt fyrir kveðjustundina, því hann fyllti þá krafti í nafni heilags anda. Komandi Hvítasunna tjáir okkur það.

Í ágætum dægurlagatexta segir að það sé frelsi að elska. Í því hvílir mikill vísdómur, sá vísdómur er einmitt kjarninn í því sem Jesús er að segja hér í dag. Það er segin saga að, hatur, reiði og biturð eru hindranir, með þá þrenningu komumst við lítið sem ekkert áfram, við verðum á eftir, dögum uppi og finnum aldrei þann frið, sem við þráum.

Þess vegna skaltu elska og það strax og jafnvel þótt þú haldir að þú hafir ekkert til að elska og komir jafnvel ávallt til með að hata, m.a. vegna þess að það hefur verið komið illa fram við þig, þú skilinn eftir með sár og þér finnst þú vera ein/einn í þessum heimi, þá skaltu samt sem áður elska. Eitt er víst, og það er ekki lygi, að hver einasta manneskja á þessari jörð hefur eitthvað til að elska. Og þú spyrð, nú eins og hvað?

Þú hefur Guð, sem segir: Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þunga eruð hlaðnir, og ég mun veita yður hvíld.” Þannig að ef þú veist ekki um nokkurn skapaðan hlut til að elska, þá hefur þú Guð, skaparann sjálfan, og það er einmitt í honum, þeim kærleika, sem þú finnur lausnina og verður frjáls, því frá Guði streymir einkum og sér í lagi óeigingjarn kærleikur, sem best er að tileinka sér.

En hvers konar kærleikur er óeigingjarn kærleikur og hvað er þá eigingjarn kærleikur, getur hann verið til? Eigingjarnan kærleika sjáum við í heiminum, í samskiptum manna, við erum kannski sjaldnast að pæla mikið í slíkum kærleika né litrófi kærleikans yfir höfuð, afgreiðum hann kannski bara sem eitthvað gott.

Eigingjarn kærleikur birtist í því þegar við elskum með ákveðnum skilyrðum, þegar við sýnum blíðu og hlýtt viðmót og gerum innst inni ráð fyrir að fá slíkt ávallt til baka og ef það gerist ekki þá er stutt í að við rjúkum upp og blásum úr nös og erum aftur farin að spóla í reiði og hatri, veltum okkur svo upp úr því öllu lon og don.

Óeigingjarn kærleikur Guðs er andstæðan, elska án skilyrða og okkur er gert það ljóst t.a.m. í sögunni um týnda soninn, sem kemur heim aftur til föður síns eftir að hafa klúðrað öllu og komið illa fram. Faðirinn tók vel á móti honum, hélt honum veislu og datt ekki í hug að velta sér upp úr fortíðinni, heldur leit á stöðuna eins og hún var þá stundina, hann var týndur, en fannst aftur, gleðjumst yfir því.

Vertu eigingjarn að því leytinu til að horfa í það að óeigingjarn kærleikur er og verður þér sjálfum ávallt fyrir bestu. Elskaðu! Þetta er skipun Drottins, þrátt fyrir að skipanir gangi aldrei sérlega vel í fólk, að þá er þetta skipun, sem er okkur til góðs, og Jesús veit að það sem ýtir undir farsæld og hamingju manneskjunnar þarf að setja fram á skýran og afdráttarlausan hátt.

Það er svo gott fyrir okkur að fá svona hreint og ómengað boð, því oft erum við ráðvillt og tölum í loðnum setningum og heyrum ef til vill margar slíkar einmitt í aðdraganda kosninga, takið eftir því.

Það er líka mjög gaman að fylgjast með því hvað fólk þarf á skýrum svörum að halda, val fjölmiðla á viðmælendum ber þess t.a.m. vel merki, því um leið og það er ákveðið skemmtiefni, að heyra hreinskilnar og afdráttarlausar skoðanir, þá líður fólki iðulega betur við það að fá skýr svör. Og hugsið ykkur, hér í kirkjunni er daglega hægt að fá slík svör um líf og tilveru alla, nokkuð sem eykur vellíðan, bætir, hressir, kætir!

Ég er ekki að tala um það að við prestarnir séum alltaf með skýr svör á reiðum höndum, við getum verið loðnir og jafnvel átt í töluverðum erfiðleikum með að ná sáttum, meira að segja um mjög svo mikilvæg og viðkvæm mál, er snerta dýpstu tilfinningar fólks, nei hér er það orð Guðs, fagnaðarerindið og það samfélag, sem að því laðast, vinir og vinkonur Jesú, sem skipta höfuðmáli og það vegur og metur, ekki bara við prestarnir, sem búum við sama breyskleika og aðrir.

Hins vegar er það vitað mál að prestastéttinni er falin ákveðin leiðtogaábyrgð, það verður ekki frá henni tekið, við erum hirðar og leiðum störf safnaðanna, en ábyrgð samfélagsins í heild er ekki síður mikil, hún verður að fylgja með, það á að láta sig störf kirkjunnar varða, það á að gefa sig að innri og ytri málum hennar, tjá sig um þau, sérhver rödd skiptir máli og hver sú rödd er rödd kærleikans, því Guð hlýtur að skipta hana máli, þegar Guð skiptir okkur máli, tölum við máli kærleikans.

Það er engin tilviljun að leikmannastefna þjóðkirkjunnar fylgir iðulega á eftir prestastefnu. Öll kirkjan þarf að taka höndum saman og ákveða og þess vegna þýðir lítið að flýja hana. “Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér.”

Það lítur ætíð sérkennilega út þegar fólk hefur hátt um kirkjuna, en hefur aldrei gefið sig neitt að henni og sýnir engan vilja til þess að kynnast því holla samfélagi né þekkja. Það eru sömuleiðis fordómar.

Og ég legg áherslu á samfélag kirkjunnar, því það virðist vera útbreiddur misskilningur að kirkjan sé bara byggingarnar einar og eitthvert risastórt ríkisbákn, sem er að gleypa allt og vinnur helst veg óréttlætis og eiginhagsmuna. Í bloggheimum kemur það t.d. víða fram, en við skulum halda sannleikanum til haga og undirstrika það að kirkjan er ég og þú, sem viljum eiga Krist að leiðtoga, eins og svo mörg ungmennin hafa verið að játa að undanförnu og gera áfram, þau eru framtíð kirkjunnar, við skulum vera þeim til fyrirmyndar.

Leiðum hugann að því og meira að segja þeir einstaklingar, sem kenna sig við trúleysi, eru svo innilega velkomnir til kirkjunnar, og ekki síst þeir, því þar höfum við virkilega leitandi manneskjur, sem eru að reyna að fóta sig og finna grunninn að tilverunni, fólk sem pælir jafnvel meira í trúmálum en hinn almenni borgari, það getur maður einnig séð á blogginu góða.

Í ljósi alls þessa er verst og visst ábyrgðarleysi að segja sig úr umræddu samfélagi, þar sem margar skoðanir rúmast. Ef við erum ósammála því, sem þar kemur fram, og okkur finnst vinna gegn því, sem er satt og rétt og Guði þóknanlegt, að þá eigum við einmitt að sækja fram, verða virkari þjónar, vinir og vinkonur Jesú, láta til okkar taka í nafni kærleikans, vera myndugir félagar og láta í okkur heyra á nákvæmlega á þeim vettvangi, þar sem okkur finnst óréttlæti beitt.

Jesús var iðulega mættur á þann vettvang, þar sem honum fannst óréttlætið ríkja, hann faldi sig ekki á bak við skrif né nokkuð annað slíkt, hann mætti á svæðið og lét í sér heyra og lét sér málið varða og hann varð stundum hvass, sjálfur kærleikurinn.

Þá er gott að hafa það hugfast, að kærleikur er ekki það sama og umburðarlyndi, eðli kærleikans er ekki alltaf eitthvert blíðalogn, því kærleikur getur m.a. verið hreinskilinn og djarfur, og þó svo að við eigum oft erfitt með að meta hreinskilni í fyrstu, að þá kunnum við oft að meta hana, þegar fram líða stundir og með auknum þroska, það getur kirkjan líka gert, hún getur oft staðið vanmáttug eins og hvert annað barn, hún er jú úr holdi og blóði.

Elskaðu Guð, elskaðu náungann eins og hann sért þú, elskaðu lífið, elskaðu kirkjuna, elskaðu náttúruna, sem nú lifnar við, elskaðu ólík skoðanaskipti, elskaðu hatrið burt, elskaðu óréttlætið þannig að það umbreytist í réttlæti, já elskaðu!