Trú í dag

Trú í dag

Er ástæða til að ræða um trú í samfélagi okkar í dag? Er það ekki bara kirkjan sem hefur áhuga á trú og þau sem hafa atvinnu af að stunda trú? Fljótt á litið gæti þetta virst rétt en þegar dýpra er skoðað þá er ljóst að málið “trú” er miklu fjölþættara.
Ragnheiður Sverrisdóttir - andlitsmyndRagnheiður Sverrisdóttir
17. september 2002

Er ástæða til að ræða um trú í samfélagi okkar í dag? Er það ekki bara kirkjan sem hefur áhuga á trú og þau sem hafa atvinnu af að stunda trú? Fljótt á litið gæti þetta virst rétt en þegar dýpra er skoðað þá er ljóst að málið “trú” er miklu fjölþættara.

Menningarheimar mætast

Bæklingurinn “Menningarheimar mætast” kom út í fyrra hjá Landlæknisembættinu. Þar er trú tengd öllum trúarbrögðum heims og reynt að leiðbeina starfsfólki í heilbrigðisstéttum hvernig bregðast skuli við gagnvart fólki af annarri trú en þeirri kristni sem við þekkjum best til. Undirtitill bæklingsins er “Áhrif trúar, menningar og arfleiðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar.” Trú eða hverrar trúar einstaklingur er sem kemur á sjúkrahús getur skipt máli varðandi umönnun og aðgerðir. Starfsfólki verður ljóst að það er ekki sjálfsagt lengur að allir séu kristnir og þekking á trú þarf að bætast við aðra þekkingu til að samskipti manna á milli geti orðið sem best. Fjölbreytnin sem við höfum þekkt af afspurn er komin til okkar. Samfélag okkar er ekki lengur einsleitt í trúarefnum. Einnig hér er komið markaðstorg.

Spurningin um trú og mannréttindi skjóta upp kollinum og sumum dettur ef til vill í hug Falun Gong hreyfingin sem vakti athygli hér síðastliðið vor. vor. Eru það hugsanleg mannréttindi að fá að iðka þá trú sem maður kýs jafnvel þó allir aðrir í kringum mann séu annarrar trúar? Hvað segir kirkjan? Vill hún ekki vera stærsta trúfélagið í landinu og hindra önnur trúarbrögð að hafa áhrif?

Að tilheyra meirihlutanum

Það er ekki alltaf einfalt að vera meirihluti, allt verður svo sjálfsagt og jafnvel þannig að maður gerir sér ekki grein fyrir gildi þess sem maður hefur. Að sjá eigin trú í ljósi annarrar trúar getur skýrt trúarlega sjálfsmynd manns. “Ég veit hver ég er af því að ég kynnist öðrum” gæti átt við um trúarlega mótun jafnt og mótun einstaklingsins.

Almennt er fólk ekki spurt um trú þegar það leitar til kirkjunnar og um nokkurra ára bil hefur prestur innflytjenda starfað meðal útlendinga hér. Fólk af flestum trúarbrögðum hefur leitað til hans og fær aðstoð óháð trú sinni. Þessi þjónusta tengist að sjálfsögðu náungakærleikanum sem kristin trú boðar. Þannig eru margar hliðar á kristinni trú, þetta er hlið þjónustunnar. Fleiri þekkja hina hefðbundu hlið sunnudagskirkjunnar þar sem orðið er boðað, prédíkað, sálmar sungnir, stundum fermt og skírt og stundum gengið til altaris. Íslenska þjóðkirkjan er meirihluta trúfélag en umhverfi hennar er stöðugt að breytast og það hefur áhrif. Nú beinist athyglin að trúarlegu umhverfi kirkjunnar.

Ef draumur okkar er að búa í friði og sátt verðum við að sýna hvert öðru gagnkvæma virðingu. Það er ekki alltaf auðvelt en einmitt þess vegna er mikils virði að setjast niður og hugleiða stöðu sína við nýjar aðstæður.

Fjölmenningarlegt samfélag og trúarbrögð þess

Það verður gert laugardaginn 21. september en þá verður haldið málþing sem ber heitið “Á sama báti? Fjölmenningarlegt samfélag og trúarbrögð þess”. Það hefur komið í ljóst að við verðum að ræða saman um þá breytingu sem hefur orðið í samfélagi okkar með tilkomu nýrra landsmanna með nýja siði og með breytingu hefðbundinna Íslendinga á aðild að trúfélagi.

Leikskólakennarar hafa löngum staðið frammi fyrir ólíkum óskum foreldra hvað varðar fræðslu um hátíðir tengdar trú. Ekki hafa allir verið sáttir við að sleppa fræðslu sem tengist kristnu innihaldi jóla á meðan öðrum hefur þótt það ágætt. Enn aðrir hafa játað aðra trú og því ekki vljað að börn þeirra fengju fræðslu um kristnar hátíðir.

Kennarar hafa spurt sig hvort þeir eigi að kenna trúarbragðafræði í stað kristinfræði og nú heyrist hugtakið menningarmenntun einnig. Margir spyrja hver sé munurinn á trúarlegri innrætingu og trúarlegri fræðslu. Er einhver munur á þessu tvennu og hvað leyfist skólanum? Hvað um menningarleg tengsl kristindómsins í margar aldir? Er hægt að þekkja íslenska sögu án þess að þekkja kristna trú?

Hvers konar samfélag?

Hvernig viljum við að samfélag okkar verði í framtíðinni? Við notum margs konar orð til að lýsa þeirri fjölbreytni sem er orðin staðreynd hér, fjölþjóða-, fjölmenningar-, fjöltrúar- samfélag. Við getum ekki breytt því að samfélag okkar hefur tekið mikilum breytingum. Við erum ekki eyland heldur mitt á meðal annarra þjóða. Öll þráum við frið og farsæld þar sem við búum í sátt hvert við annað.

Ein leið til að sýna viðleitni til að öllum getið liðið vel hér er að ræða saman. Orð eru til alls fyrst er stundum sagt. Við getum hjálpað hvert öðru að skoða samfélag okkar og sjá hvernig aðfluttu fólki líður meðal okkar. Við getum skoðað okkur sjálf og viðhorf okkar. Kannski erum við ekki sátt við það sem við sjáum en allir geta breyst og tekið eitt skref í áttina að því að verða sáttari við umhvefirð eins og það er.

Velkomin að taka þátt í málþinginu: “Á sama báti? Fjölmenningarlegt samfélag og trúarbrögð þess.” Laugardaginn 21. sept kl 8.30-13 í Hafnarfjarðarkirkju.