Íþróttir og uppeldi

Íþróttir og uppeldi

Er íþróttaiðkun að byggja upp manneskjur eða vinna til verðlauna? Hvers konar gildi og viðmiðanir gefa íþróttir börnum og ungu fólki? Eru íþróttir frekar skemmtun en ástundun heilbrigðrar hreyfingar? Hverjar eru dygðir íþróttaiðkunar og hverjir eru lestir?
Halldór Reynisson - andlitsmyndHalldór Reynisson
14. nóvember 2005

Er íþróttaiðkun að byggja upp manneskjur eða vinna til verðlauna? Hvers konar gildi og viðmiðanir gefa íþróttir börnum og ungu fólki? Eru íþróttir frekar skemmtun en ástundun heilbrigðrar hreyfingar? Hverjar eru dygðir íþróttaiðkunar og hverjir eru lestir?

Oft hefur mér þótt skorta á að spurt sé um slíkar grundvallarspurningar í íþróttastarfi.

Ég ætla að ræða hér um viðhorf mín sem foreldris til íþróttaiðkunar og hvert ég tel vera grunnhlutverk íþróttaiðkunar í lífi barna – að koma þeim til manns. Ég tala einnig sem áhugamaður um íþróttir, en auk þess út frá þeirri tvö þúsund ára uppeldisstefnu kristninnar að iðka sjálfsskoðun og gera síðan þá góðu persónuleikaeiginleika sem við köllum dygðir að vana með reglulegri iðkun. Ég ræði hér líka um uppeldisgildi íþrótta út frá sjónarmiði Þjóðkirkjunnar, elstu uppeldisstofunar Íslendinga.

Áherslan er þó fyrst og fremst á íþróttaiðkun fyrir börn og ungt fólk. Til hvers ættu börnin mín – eða hvaða börn sem er að ástunda íþróttir? Og hvert gert gildi íþrótta fyrir þau? Að koma börnunum til manns

Kjarnahlutverk í öllu uppeldi er því að barnið nái að verða heilsteypt manneskja sem lærir að þekkja sjálfa sig og vera sjálfstæð, lifa í samfélagi við aðra og bjargast í hörðum heimi. Ná tökum á lífinu en til þess þarf maður víst að byrja á því að ná tökum á sjálfum sér. Fræg amerísk bók um uppeldisfræði heitir “Raising your Child to be a Mensch” Það er nákvæmlega það sem alla heilbrigða foreldra dreymir um að koma börnum sínum til manns eins og þetta er svo vel orðað á íslensku. Allt uppeldisstarf, hvort sem það er inni á heimilum, í íþróttum, í skáta- eða kirkjustarfi þarf að hafa þetta markmið í huga.

Hvað leggur íþróttaiðkun til þessa markmiðs?

Í því íþróttafélagi sem hef hef starfað nokkuð fyrir sem foreldri hefur verið lögð fram uppeldisstefna. Það framtak finnst mér vera til fyrirmyndar og ættu öll íþróttafélög að setja sér slíka stefnu.

Samt verð ég að gera athugasemd við fyrstu grein í uppeldisstefnu míns félags. Hún er einhvern veginn svona: að gera börnin að bestu knattspyrnumönnum landsins. Fyrsta grein hverrar uppeldisstefnu, æðsta boðorð hvers uppaldanda er að koma barninu til manns, gera það að heilbrigðri manneskju. Íþróttaiðkunin er leið að því marki en varla markmið í sjálfu sér. Á sama hátt getur það ekki verið markmið uppeldisstarfs kirkjunnar að barnið kunni Biblíuna utan að, takmarkið er að gera það að heilli manneskju í sátt við Guð og menn. Trúariðkunin hlýtur að vera leið að því marki.

Uppeldisgildi íþróttanna

Íþróttaiðkunin styður það markmið að koma börnum til manns með margvíslegum hætti. Nefna má fjögur atriði:

1. Leikurinn

Af hverju stundum við íþróttir? Af því að það er svo gaman. Það gleymist stundum að íþróttir eru ekki síst skemmtilegur leikur. Mér er minniststætt viðtal sem íslenskur íþróttafréttamaður átti við Michel Platini þegar hann var þjálfari franska landsliðsins í knattspyrnu. Fréttamaðurinn spurði hvort þetta væri ekki spurning um líf eða dauða fyrir franska landsliðið. Platini hélt nú ekki: “After all, zis is just a Game” sagði hann á sinni frönskuskotnu ensku.

Íþróttir eru leikur og við höldum þeim að börnunum okkar af því að það er bara svo gaman að taka þátt í skemmtilegum leik, eins og íþróttir eru oftast í hugum barna á öllum aldri. Höfum það jafnframt hugfast að ekki eru öll börn sem kjósa sér endilega íþróttir að leik, auk þess sem þær eiga misvel við ólíka einstaklinga.

Þörfin fyrir að leika sér er þó ekki bara vegna þess að það er svo gaman. Leikurinn á veigamikinn þátt í mótun ungviðisins, ekki bara meðal manna heldur einnig meðal annarra dýrategunda. Leikurinn er líffræðileg og félagsleg þjálfun til að takast á við hlutverk fullorðinsáranna.

Áhersluna á leikinn er einnig að finna í kristinni hefð. Þannig segir sænski guðfræðingurinn Gustav Wingren að eilífa lífið sé eins og glaður leikur lítilla barna.

2. Líkamleg styrking og þjálfun

Annað hlutverk íþróttanna í uppeldi barna er að efla líkamann, þjálfa hreyfigetu, efla styrk og þol.

Uppruni skipulagðra íþrótta á líka að einhverju leyti uppruna sinni í þessari líkamlegu þjálfun fyrir veiðar og stríð. Nú orðið þarfnast börnin okkar ekki þessarar þjálfunar fyrir hlutverk stríðs eða veiða sem betur fer. Á hinn bóginn er efling líkamlegs atgervis stór þáttur í þeirri mynd sem við gerum okkur af heilbrigðri manneskju. Líkamlegu atgervi og þjálfun fylgir vellíðan og sjálfstraust sem hjálpar börnum, ekki síst á unglingsárunum. Þessi þáttur tengist að mínu mati forvarnargildi íþróttastarfs en er þó ekki nógur einn og sér.

3. Vettvangur til að kenna dygðir

Í þriðja lagi er íþróttastarf fyrir börn kjörinn vettvangur til að kenna þeim ýmsar siðferðilegar dygðir. Þar má nefna sem dæmi:

• Hugrekki – að takast á við andstæðing. • Samstarfsvilji – að starfa með öðrum, líkt og gerist í hópíþróttum. • Drenglyndi – skylt réttlæti, það að sína öðrum sanngirni. Að koma drengilega fram bæði við mótherja og samherja. Það er hluti af því að læra að bera virðingu fyrir öðrum. • Hófsemi – sá sem ætlar að ná langt gætir hófs í líferni sínu.

Sjálfur hef ég góða reynslu af því sem prestur að eiga samstarf við íþróttafélög og nota íþróttir sem vettvang til að ræða við börn um siðgæði. Það er afskaplega gott að nota dæmi úr heimi íþróttanna þegar rætt skal um áðurnefndar dygðir eða rétt og rangt yfir höfuð.

4. Lífið og tilveran

Í fjórða lagi geta íþróttir kennt ýmislegt mikilvægt um sjálft lífið. Sem manneskjur þá vinnum við sigra eða bíðum ósigur með margvíslegu móti. Velgengni í kappleik getur kennt það að takast á við velgengi í lífnu. Stundum gerist það að við ofmetnumst af velgengninni. Meðal Forn-Grikkja þar sem íþróttaiðkun á ekki síst rætur var drambið, - hybris - stærsta syndin. Það leiddi líka oft til falls.

Á sama hátt kennir ósigur okkur margt um okkur sjálf. Það þarf ákveðinn andlegan styrk að taka ósigri án þess að bugast. Ég held að það sé ekki síður mikilvægt fyrir börn að læra að taka ósigri. Þar þjálfast þau í því að takast á við vonbrigði og ósigra í lífinu. Þegar tíundi hver Íslendingur er sagður á geðlyfjum er ekki vanþörf á slíku.

Árangur eða persónuleikamótun

Þær hliðar á íþróttaiðkuninni sem nefndar eru hér að ofan sýna að íþróttir snerta andann ekkert síður en líkamann, ef það er þá skynsamlegt að deila manneskjunni upp með þvílíkum hætti.

Þennan andlega þátt vil ég kalla persónuleikamótun. Í því uppeldisstarfi sem fer fram innan íþróttahreyfingarinnar er afskaplega mikilvægt að þjálfarar og aðrir sem koma þar að geri sér grein fyrir þessari persónuleikamótun. Aðall skapgerðarmótunar er að vinna sigur á sjálfum sér - að læra að stjórna geði sínu og gerðum. Og margir þjálfarar gera sér grein fyrir mikilvægi skapgerðarmótunar ekki síst fyrir börn innan við fermingu. Þeir eru samt of margir sem einblína fyrst og fremst á árangurinn, stundum vegna eigin metnaðar, stundum vegna þrýstings frá forystu íþróttafélagsins eða jafnvel frá foreldrum. Sumir sjá íþróttir bara sem aðferð til að vinna sigur á öðrum.

Íþróttir geta lagt drjúgan skerf til þess markmiðs að koma börnunum okkar til manns. Til þess að svo megi verða þurfum við að sjá mikilvægi persónuleikamótunarinnar sem íþróttaiðkun hefur í för með sér – mikilvægi þess að vinna sigur á sjálfum sér – ekkert síður en á öðrum.

Erindi þetta var upprunalega flutt á málþingi Biskupsstofu og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands 8. janúar 2003 um íþróttir og gildismat.