Traust ... sjálfstraust

Traust ... sjálfstraust

Í dag erum við minnt á að það að segja takk, nær lengra heldur en bara að eyrum manneskjunnar sem stendur við hliðina á okkur. Okkar hlutverk er að lofa Guð og þakka honum fyrir sköpunarverkið allt.

Fyrri ritningarlestur: 5 Mós 8.7, 10-11, 17-18

Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans, ákvæðum og lögum sem ég set þér í dag. Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag.

Síðari ritningarlestur: 1 Kor 3.10-15

Sem vitur byggingameistari hef ég lagt grundvöll eftir þeirri náð sem Guð hefur veitt mér en annar hefur byggt ofan á. En sérhver athugi hvernig hann byggir. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, þá mun koma í ljós hvernig verk hvers og eins er. Dagurinn mun leiða það í ljós af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er. Ef það fær staðist sem einhver byggir ofan á mun hann fá laun. En brenni það upp mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann komast af en þó eins og úr eldi.

Guðspjall: Matt 25.14-30

Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns. Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt. Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Biðjum: Vertu Guð faðir … Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í gær komum við til baka frá samveru í Hrafnagilsskóla. Þar dvöldum við í sólarhring, rúmlega 100 krakkar á aldrinum 9 til 12 ára úr starfi kirkjunnar og KFUM og KFUK hér í prófastsdæminu og leiðtogar þeirra. Yfirskrift samverunnar var ,,Daginn í dag gerði Drottinn Guð.” Þar vorum við minnt á að þakka Drottni fyrir hvern dag, hverja stund. Í fyrri ritningarlestri dagsins erum við minnt á þetta sama: ,,Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér.”

Þakkir og traust Mörg okkar ólust upp við það að þakka fyrir sig. Okkur þykir það flestum vera almenn kurteisi að segja takk. En í dag erum við minnt á að það að segja takk, nær lengra heldur en bara að eyrum manneskjunnar sem stendur við hliðina á okkur. Okkar hlutverk er að lofa Guð og þakka honum fyrir sköpunarverkið allt.

Þegar horft er til framtíðar þá dreymir okkur um svo marga hluti, við sjáum sem í draumi það sem við vildum vera, það sem við vildum eiga, þau sem við vildum hafa í kringum okkur. Það að horfa til framtíðar, hefst með trausti. Fyrirheit Drottins er skírt orðað: Hann mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum. Hér verður mér oft hugsað til Abrahams. Við kynnumst honum og fjölskyldu hans í allra fyrstu köflum Biblíunnar. Og í því samhengi sem hér er talað er mikilvægt að horfa á það þegar Drottinn talar við Abraham og segir honum frá því að Drottinn vilji leiða hann inn í nýtt land. Um leið fær Abraham það hlutverk að yfirgefa stórfjölskylduna. Brottför hans táknar nýtt upphaf, nýtt hlutverk. Hver þekkir það ekki sem hefur flutt að heiman að það getur verið átak.

Það er á þessum stundum sem við eigum kannski oft erfitt með að þakka fyrir það sem við höfum. Spennan yfir nýju tækifæri getur leitt til þess að við gleymum að þakka Drottni fyrir það tækifæri sem hann gefur okkur. Eða þá að við erum svo stressuð að við vitum ekkert í okkar haus, komum hvorki frá okkur stakri hugsun né þakkarorðum í garð þess sem gaf okkur lífið.

Sú stund sem flestir þekkja sem augnablikið þar sem hluti af fjölskyldunni er á vissan hátt kvaddur og horft er til nýs upphafs er hjónavígslan. Við yfirgefum foreldra okkar og stofnum nýja fjölskyldu. Það eru ekki lengur pabbi og mamma sem ráða yfir okkur, þó vissulega geti áfram verið gott að hafa þau sem ráðgjafa. Hér þarf að muna að þakka og hér þarf að æfa traust.

En hvernig? Þegar lagt er upp í nýja för, þegar ný fjölskylda er stofnuð, þegar tekist er á við nýtt verkefni, þá skiptir máli hver grundvöllurinn er. Við þekkjum það mörg af biturri reynslu að hafa ekki hugsað málið og anað út í nýtt verkefni, ferðalag, tekið að okkur verkefni, eða jafnvel látið heillast af persónu án þess að hugsa málið. Þegar dagur rennur þá er sem að skýjahulu sé svipt frá augum okkar og við áttum okkur á því að ekkert traust hafði verið til staðar frá upphafi og þakklætið var ekki gagnkvæmt. Undirstaðan var einfaldlega ótraust.

Það er einmitt hér sem síðari ritningarlesturinn kemur sterkur inn. Þar erum við minnt á að annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. Það er sama hvert litið er, sama hvernig við viljum hugsa dæmið. Boðskapur Nýja testamentisins er skýr, það skiptir máli að við áttum okkur á því að það er Jesús Kristur sem er drifkrafturinn í lífi okkar, á honum getum við byggt framtíð okkar, við getum valið að fá styrk og stuðning frá honum.

Ferð Abrahams inn í framtíðina hefði verið feigðarflan ef hann hefði ekki áttað sig á mikilvægi þess að hvíla í Drottni, treysta honum og leyfa honum að vísa sér veginn. Allra mikilvægasta tækið sem við eigum til þess að vera í sambandi við Drottinn er bænin. Í henni getum við talað til Drottins, lagt í hans hendur það sem hvílir þungt á herðum okkar en einnig þakkað honum og lofað hann fyrir allt sem hann gefur okkur.

Þetta er spurning um viðhorf Guðspjall dagsins er ekki kennslustund í græðgi. Þrír menn fá nákvæmlega sama verkefnið. Þeim er ætlað að ávaxta talentur. Sagan greinir frá því að þeir eru metnir eins og umsækjendur um hvert annað starf. Einn þeirra fær forstjórahlutverk, honum er treyst fyrir miklu. Annar fær deildarstjórahlutverk. Honum er treyst fyrir þó nokkru. Þeim þriðja er gefið tækifæri.

Forstjórinn sýnir að hann er traustsins verður. Afköst hans standa undir væntingum og honum er hrósað. Deildarstjórinn sýnir að hann veldur því hlutverki sem honum er falið. Einnig hann fær hrós. Sá þriðji virðist ekki vaxinn verkefninu. Orð hans og hegðun sýnir að það er ekkert traust til staðar frá upphafi. Ætla má að hvorki treysti hann sér til starfsins né treysti hann þeim sem fól honum starfið. Það skortir traust. Það skortir þakklæti.

Í mínum huga kallast þessi saga á við aðra dæmisögu Jesú þar sem sagt er frá því að maður nokkur réði fólk í vinnu. Í þeirri sögu voru allir venjulegir verkamenn, engum einum var falið veigameira hlutverk en öðrum. Eini munurinn var að sumir unnu allan daginn, sumir aðeins hálfan daginn, sumir fjórðungspart úr degi, eða jafnvel minna. En sá sem réði þá til starfans greiddi öllum sömu laun. Sú saga snýst ekki um kjarabaráttu og upphæð á launagreiðslum. Hún snýst rétt eins og guðspjall dagsins um tvennt. Um þakklæti og um traust.

Í einfaldri mynd sinni er þakklætið auðveldur hlutur. Ég fæ eitthvað, upplifi eitthvað, einhver segir falleg orð í minn garð. Og viðbrögð mín eru einföld. Ég segi takk, ég þakka fyrir mig með brosi, handtaki, jafnvel kossi og kem orðum að því sem mér liggur á hjarta: Ég er þakklátur.

Að sama skapi er traust í sinni einföldustu mynd auðveldur hlutur. Barnið treystir móður sinni, liggur öruggt í örmum hennar. Eða hver þekkir ekki að barn stökkvi úr nokkurri hæð ofan af girðingu eða álíka í arma föður síns, sannfært um að pabbi grípi.En eitthvað er það í fari okkar sem spillir þessu trausti og þessu þakklæti. Við verðum vanþakklát og hættum að treysta. Við hættum að treysta öðrum og við ölum okkur upp við vantraust í eigin garð, eða við erum jafnvel alin upp við að okkur sé ekki treystandi.

Hver er ég? Ætla mætti að guðspjall dagsins hvetti okkur til að spyrja okkur sjálf hvort okkur sé treyst fyrir forstjórahlutverki, deildarstjórahlutverki eða hvort að við fáum að sanna okkur. Ég kýs hins vegar miklu fremur að líta svo á að mikilvægasta spurning dagsins sé sú hvernig við bregðumst við því þegar við erum sett í hlutverk, þegar okkur er treyst eða ekki treyst, þegar okkur er sýnt þakklæti eða vanþakklæti. Og á öllum þessum stundum verðum við að spyrja okkur hver staðan á sambandi okkar við Guð sé. Held ég að ég sé sjálfur svo flottur að ég geti allt í eigin mætti, eða hvort að við þorum að segja: Ég þarf á hjálp Drottins að halda.

Jesús Kristur gengur svo langt í guðspjalli dagsins að líkja þessum aðstæðum við himnaríki sjálft. Og það veldur heilabrotum. Það þarf ekki að grafa djúpt eftir þykkum guðfræðibókum, það er nóg að googla þessa frásögn og við áttum okkur á því að túlkanir um söguna liggja á nokkuð breiðu svæði, eru engan veginn samhljóma.

Fyrir mér er það á hreinu að samskiptin við Drottinn gerast ekki af sjálfu sér. Ég þarf að leggja vinnu í samskiptin við hann. Ég hef ekki efni á, né get ég leyft mér að hunsa samskiptin við hann. Ekki vegna þess að hann krefjist þess af mér. Heldur vegna þess að ég vel að trúa, ég vel að vilja vera í hans liði.

Konudagurinn Í dag er konudagurinn. Til hamingju með það öll. Það er dýrmætt þakkarefni að fá að hafa sérstakan dag tileinkaðan konum. Um leið er það kjörið tækifæri fyrir okkur karlana til þess að spyrja okkur hvernig við umgöngumst konur. Og til þess getur sú mynd sem er dregin upp í guðspjalli dagsins nýst okkur. Stundum tek ég eftir því hjá sjálfum mér að ég er í forstjórahlutverki í garð kvennanna í mínu lífi, hvort heldur það er móðir mín, eiginkonan mín, dóttir mín eða samstarfskonur mínar, vinkonur mínar, félagar mínir. Mér er treyst fyrir mikilvægum hlutum og ég er þakklátur þegar mér tekst að standa mig. En á stundum held ég að forstjórahlutverkið, ábyrgðin sem mér er falin gefi mér leyfi til þess að ráðskast með konur, til þess að láta eins og þær séu á einhvern hátt mér óæðri. Það er miður.

Þessa dagana er ég mjög upptekinn af bók sem heitir Ást fyrir lífið og í gegnum hana hef ég fengið tækifæri til þess að hugsa stöðu mína og okkar hjónanna upp á nýtt, ég hef tekið mér tíma til þess að nota þetta tæki til þess að kafa ofan í viðhorf mín og tilfinningar. Og viti menn, ég fékk að uppgötva að ég var ekki fullkominn.

Í biblíunni segir: Betri eru tveir en einn því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt. Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur. Þessu má líkja við tvær hendur. Þær eru ekki bara til sitt í hvoru lagi. Hlutirnir gerast þegar þær taka höndum saman. Til þess að vel gangi í slíku samstarfi þá þarf hvor um sig að viðurkenna að hún er upp á hina komin.

Vissulega getur það hve ólík við erum valdið rifrildi og misskilningi. En við erum mismunandi sköpunarverk Guðs. Ef við leyfum þessum mismun að njóta sín verður hann okkur til blessunar. Til dæmis getur verið að annað okkar sé færara við eldamennskuna og hitt fljótara við uppvaskið. Annað okkar er kannski rólega týpan sem vill halda frið við alla meðan hitt tekur á hlutunum af meiri aga, gengur hreint til verks og nær fljótar árangri. Kannski er annað okkar meiri peningamanneskja á meðan hitt okkar sé hvar nauðsynlegt er að sýna örlæti.

Það er hægt að læra að sættast við þennan mismun. Við getum sleppt allri gagnrýni hvað þetta varðar og tekið strax það skref sem leiðir til þess að við lærum að meta þennan mismun. Lærum að vera þakklát. Því miður virðast sumir einstaklingar ekki komast yfir þá hindrun sem þeim finnst það sem er öðruvísi hjá maka sínum vera. Þau jafnvel líða fyrir það. Mörg tækifæri glatast þess vegna. Þau sjá ekki kostina sem fylgja því hversu einstakur maki þeirra er. Hér gildir að byggja upp traust. Gefa hvort öðru tækifæri. Taka þeim hlutverkum, stórum og smáum sem okkur eru falin og sinna þeim af trúmennsku, sannfærð um að okkur séu ekki falin þau vegna þess að hinn aðilinn treysti okkur ekki. Reynum að vera þakklát fyrir þau tækifæri sem við fáum til þess að byggja upp betra samfélag.

Veljum að elska. Veljum að vera þakklát. Veljum traustið.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.