Skógarmessa Tinnuskógi á Landnyðringsskjólsbökkum í Breiðdal

Skógarmessa Tinnuskógi á Landnyðringsskjólsbökkum í Breiðdal

Við erum umvafin trjám og gróanda sumarsins. Mikið undur er það, þessi lifandi sköpun sem skrýðir jörðina. Í daglegu lífi finnst okkur þetta gjarnan sjálfsagt og venjulegt. Sumarið kemur og allt sem því fylgir.

Við erum umvafin trjám og gróanda sumarsins. Mikið undur er það, þessi lifandi sköpun sem skrýðir jörðina. Í daglegu lífi finnst okkur þetta gjarnan sjálfsagt og venjulegt. Sumarið kemur og allt sem því fylgir.

Og einhverjir á meðal uppvaxandi kynslóðar taka tæpast eftir sumrinu, finnst þetta allt eins, vænta einskis nema að tölvan sé á sínum stað,- og eiga þá tæpast forrit í sálinni til að nema þau gæði sem í nátturinni blómgast. Lífsháttabyltingar á aðeins örfáum áratugum hafa breytt svo miklu, ekki einvörðungu um þægindi lífsins, heldur um viðhorf og gildismat.

En samt er það sumarið með öllum gæðum sínum sem gerir landið okkar byggilegt. Og er samofið í lifandi trú. Í guðspjallinu sem ég las vitnar Jesús til sáðmannsins sem fer út að sá frjókornum í frjósama jörð. Mörgum sinnum í Lúkasarguðspjalli sækir Jesús líkingar í grósku jarðar og umgengni fólks við náttúru hennar til að skýra út boðskap sinn og oft eru trén honum hugleikin. Jesús líkir t.d. komu guðsríkisins við tré sem ber blómlega ávexti og heilögu orði sínu við frjókornin sem sáðmaðurinn sáir í akur sinn. Þar líkir hann hjartanu við jörðina.

Og þegar nær er skoðað, þá geta þau ekki án hvors annars ekki verið í bókstaflegum og veraldlegum skilningi. Af því að jörðin gefur fólkinu fæðu til að nærast af. Þar verða maður og jörð saman eitt.

Til tákns um þetta er altarið í kirkjunni. Þar blasa við skírnarfontur með vatni, ljós á stiku, kassi með mold og predikunarstóll til tákns um orð sem eru eins og frjókorn sem borin eru í jörð til vaxtar. Þannig sækir trúin fyrirmyndir sínar í náttúruna. Vatn, ljós, mold og sáðkorn. Allt sem þarf til að líf kviknar til vaxtar í jörð. Mikið undur er þetta og við þökkum Guði. Um það vitnar lífið í kirkjunni, og við gerum hér, lifandi kirkja umvafin gróandanum þar sem Guð og maður eru að verki saman.

Breiðdælingar komu hér saman um miðja síðustu öld til sá og rækta, að planta plöntum svo upp yxi skógur. Þeir höfðu vitund um að fyrr á öldum hafi Breiðdalur líklega verið skógi vaxin á milli fjalls og fjöru.

Í Breiðdælu er m.a. sú skoðun reifuð af Hannesi Þórðarsyni frá Jórvík, að Heydalakirkja hafi sloppið undan Tyrkjunum, þegar þeir fóru hér um ruplandi og rænandi í júlí árið 1627, af því að þeir hafi ekki þorað annað en að fara um á opnu graslendi umlyktum hávöxnum skógi af hættu við fyrirsát og því hafi þeir ekki séð kirkjuna fyrir skóginum. Þessi kenning kollvarpar þá sögunni um að þokan og bænarhiti sr. Einars Sigurðssonar hafi bjargað kirkjunni og fólkinu frá rænandi Tyrkjum.

Í sömu bók, er þeirri kenningu einnig haldið fram af sama manni, að Heydalir dragi nafn sitt af þessu opna graslendi sem nefndir voru dalir af því að skógurinn var svo hávaxinn allt um kring.

En það voru sögur um forna skógsæld í Breiðdal sem  fundu stað í frjósömu hjarta og urðu m.a. aflvaki til verka, kölluðu fram frumglæða til að taka höndum saman og vinna náttúru landsins gagn. Að endrheimta skóg í Breiðdal. Hér sáu Breiðdælingar m.a. fyrir sér, að skólabörnin kæmu reglulega og plöntuðu trjám og á meðal okkar er fólk sem á minningu um það úr bernsku sinni hér á þessum stað. Síðar tóku kvenfélagskonur í Hlíf yfir umsjón með ræktinni og lögðu mikið að mörkum. Nú er hér þéttvaxinn skógur.

Ég hef oft haft á orði við gestkomandi vinafólk mitt, að óvíða sé fegurð og tign fjalla meiri á Íslandi en í Breiðdal og Stöðvarfirði. Margir taka undir með mér um það. En hvað þykir fallegt á Íslandi samkvæmt almannrómi? Verða t.d. fjöllin fyrst álitin falleg á Íslandi, þegar listin með málverkinu eða ljóðinu hefur farið um það höndum og talið til meistaraverka höfunda?

Gömlu skólaljóðin eru full af náttúrlýsingum sem hafa stimplað staði rækilega inn í þjóðarsálina fyrir fegurð og tign. Það gerðu þjóðkunnir listmálarar líka með þekktum verkum sínum. En svo eru fagrir staðir sem hafa ekki fundið slíka náð, en skarta yndisleik sínum eigi að síður.

Náttúrufar á Austfjörðum er margbrotið og fagurt, jafnvel gróðurþakktir háir fjallstindar sem gnæfa yfir af sinni reisn og blasa hér við sjónum, og minna okkur á hve náttúra landsins er mannlífinu dýrmæt. Ekki aðeins til að skoða og dást að, heldur til að njóta og ganga um af virðingu.

Fyrr á öldum var skógurinn griðarskjól fyrir búfénaðinn sem af honum nærðist á köldum vetrum. Sama gilti um fólkið sem hjó í skóginn til að afla sér eldiviðar og hélt lífinu í þjóðinni. Það gengu yfir köld og snjóþung tímabil, stundum landsins forni fjandi með köldum hafísárum. Og gekk nærri fólkinu og náttúru landsins.

Í Kristnihaldi undir Jökli eftir Halldór Kiljan spyr umboðsmaður Biskups prestinn, sr. Jón Prímus, afhverju aðeins helmingur af predikunarstólnum stæði uppi, en hinn helmingurinn burttekinn. Og Prestur svaraði: „Það kom þýða“. Með öðrum orðum fólkið gat hætt að taka eldivið úr predikunarstólnum af því að hlýindin í veðrinu leyfðu mótöku á ný.

Svona sögur vitna um harða lífsbaráttu fólksins um aldir í þessu landi, að lifa veturinn af. Í þeirri báráttu var maður og náttúra saman eitt. Fólkið lifði af því sem náttúran gaf. Það er ekki nema rúmlega mannsaldur síðan þjóðin bjó við búskaparhætti sem lítið höfðu breyst frá landnámi. Núna býr maðurinn yfir tækjum og tólum sem geta nánast étið jörðina upp til agna.

Þess vegna er boðað: Gætum hófs, verndum jörðina, frelsum lífð frá dauðanum, sýnum náttúru landsins virðingu, leyfum jörðinni að blómgast. Þegar ég var að alast upp, þá þótti í góðu lagi að henda öllu rusli hvar sem var. Umbúðum var hugsunarlaust kastað út um bílgluggann í vegkanntinn og sorpi sturtað í fjöruna með orðum um að lengi tæki sjórinn við.

Í lok sjöunda áratugar síðustu aldar upphófst átak til viðhorfsbyltingar: Hreint land, fagurt land, og skilaði miklum árangri, líklega stærsta bylting í umhverfisvernd á Íslandi. Og hefur fylgt okkur síðan.

Og nú er kallað. Jörðin ferst og heimsenda er spáð.  Jarðarbúar verða að taka sig taki og sýna umhverfinu virðingu og nærgætni. Þá er umræðunni oftast beint að ábyrgð almennings og einyrkjum í atvinnurekstri.  Auðvitað verða allir að taka höndum saman.

En það sem úrslitum ræður er atferli stórfyrirtækja og alþjóðlegra auðhringa sem engu eira og moka upp auði sínum úr stynjandi jörðinni og gefa frekar í með græðgi sinni. Efnahagskerfi heimsins miða allt við það í kröfunni um aukinn hagvöxt. Hvenær munu stjórnmálamenn safna nægu þreki til að hrópa og segja við fjármagnsveldin? Þetta gengur ekki svona lengur. Hingað og ekki lengra.

Þetta fjallar ekki aðeins um umhverfisvernd í þrengsta skilningi, heldur gildismat um jöfnuð, hófsemi og samábyrgð allra.

Það finnum við hér samankomin og umvafin grósku jarðar. Náttúran metur fólk ekki eftir mannvirðingum, mánaðarlaunum eða efnislegu ríkidæmi. Hún elskar alla jafnt og býður að njóta innilega. Það gerum við hér, þökkum og virðum, og finnum hve við erum ríkt fólk af innri gæðum að eiga hvert annað í samfélagi með gróandi jörð. Það boðar Guð og gefur ómælt af gnægtum sínum, að við megum nýta og njóta jarðar gæða af virðingu.

Á ferð um  landið á fögrum sumardegi í júlí s.l. og eftir að hafa verið í messu í fallegri sveitarkirkju, þá sagði hún Sjöfn min, að ekkert væri nú íslenskara í náttúru sumarsins en sauðkindin og hempuklæddur prestur. Kannski eru þetta orð að sönnu. Sauðkindin og presturinn hafa verið eins og lifandi táknmyndir um lífsbaráttu og búsetu þjóðarinnar í landinu um aldir, þolað bæði lof og last, samofin í lífskjörin í blíðu og stríðu.

Og enn er suðkindin inngróin í náttúru landsins og nærir fólkið, og presturinn á sínum stað. Að því tilefni vil ég óska Breiðdælingum og Stöðfirðingum til hamingju með kjör og skipan nýs prests í Heydölum sem heitir Dagur Fannar Magnússon. Það var ekki sjálfgefið að hempuklæddur prestur myndi áfram skrýða Heydalastað sem er nú einasti sveitapresturinn á Austurlandi. Ég bið því Breiðdælinga og Stöðfirðinga að taka vel á móti nýjum presti og fjölskyldu hans eins og ég hef notið innilega í tæp 33 ár.

Við þökkum fyrir uppskeru sumarsins og alls sem það hefur borið okkur og horfum til framtíðar með vongleði í huga og hjarta. Okkur er svo margt og mikið falið til forsjár. Guð gefi okkur náð til að njóta þess í trú, von og kærleika. Í Jesú nafni Amen.