Er barnið heilagt?

Er barnið heilagt?

Heims um ból, helg eru jól. Signuð mær son Guðs ól. Þessar ljóðlínur Sveinbjarnar Egilssonar verða að sjálfsögðu sungnar í lokin á þessari athöfn, eins og í svo ótal mörgum öðrum kirkjum. Og einmitt um þessi jól á upprunalegi sálmurinn 200 ára afmæli.

Aftansöngur jóla í Egilsstaðakirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Heims um ból, helg eru jól. Signuð mær son Guðs ól.

Þessar ljóðlínur Sveinbjarnar Egilssonar verða að sjálfsögðu sungnar í lokin á þessari athöfn, eins og í svo ótal mörgum öðrum kirkjum. Og einmitt um þessi jól á upprunalegi sálmurinn 200 ára afmæli. Á þýsku heitir hann Stille nacht, heilige nacht. Josep Mohr, sem var prestur í austurrísku fjallaþorpi, mun hafa ort sálminn á jólunum árið 1818, innblásinn eftir að hafa verið kallaður til að blessa nýfætt barn á aðfangadag. Sagan segir að organistinn í þorpinu, Franz Gruber, hafi komið til hans í öngum sínum vegna þess að kirkjuorgelið var bilað og jólin að ganga í garð. Úr varð þessi sálmur Mohrs um jólaguðspjallið, svo samdi Gruber lagið og það var sungið í fyrsta skipti við gítarundirleik. Þessi sálmur átti eftir að fara sigurför um heiminn.

Íslenskur texti Sveinbjarnar varð til um 30 árum seinna og er reyndar ekki bein þýðing á þýska textanum. Hljóða nótt, heilaga nótt, er nákvæmari þýðing en Heims um ból, helg eru jól. Hugsunin í textanum er þó alltaf sú sama og það er þessi helgi eða heilagleiki sem er svo áberandi í ólíkum útgáfum sálmsins. Hvað er eiginlega átt við með því, að það sé eitthvað heilagt við jólin?

Jólaboðskapurinn er í sjálfu sér heilagur, vegna þess að Guð helgar hann. Guð er heilagur, í þeirri merkingu að hann er hátt yfir okkur hafinn og verður ekki snertur með afli manneskjunnar.

Önnur leið til að átta sig á merkingu hugtaksins heilagur er að nota orðið frátekinn í staðinn. Jólin eru heilög vegna þess að þau eru frátekin sem fæðingarhátíð frelsarans, en líka í okkar samfélagi tími sem er tekinn sérstaklega frá sem hátíð fjölskyldunnar og hátíð barnanna. – Svo við tökum annað dæmi getum við með svipaðri merkingu talað um „heilagt hjónaband“ sem merkir þá að hjónin eru frátekin fyrir hvort annað. Enginn eða ekkert hefur leyfi til að raska helgi hjónabandsins, nú eða helgi jólanna.

Hvað fleira er okkur heilagt í lífinu?

Hvað með lífið sjálft? Er það heilagt?

Svar kristinnar trúar við þeirri spurningu er afdráttarlaust já. Hinn kristni skilningur hefur alltaf verið sá að hver manneskja sé einstök og dýrmæt sköpun Guðs, og að líf hennar sé heilagt. Lífið er gjöf Guðs. Þessi hugsun hefur markað sín spor í okkar lagaumhverfi. Enginn má skaða eða vega að lífi og velferð annarrar manneskju.

Hagur barna skipar sérstakan sess í löggjöfinni, og eflaust í hugum okkar allra. Flestir telja til dæmis að fátt í þessum heimi sé andstyggilegra en ofbeldi gegn barni. Líf og heill barna er eitthvað sem er okkur heilagt.

Jesús Kristur beinir athyglinni að barninu í sínum boðskap. Orðin hans: Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki, þau eru rifjuð upp í hvert einasta skipti sem barn er skírt. Og Jesús gengur svo langt að hvetja okkur fylgjendur sína til að taka okkur börnin til fyrirmyndar þegar hann segir: Nema þið verðið eins og börn, komist þið aldrei í Guðs ríki. Jólin geta kannski hjálpað okkur fullorðna fólkinu við að temja okkur einlægni og tilgerðarleysi barnanna.

En ef barnið, velferð þess og líf er heilagt, mætti þá ekki líka spyrja: Hvenær verður barnið að barni?

Í Davíðssálmum segir: „Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni“ (Sl 139.16).

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um aukinn rétt verðandi mæðra til að láta eyða fóstri, svo að framvegis skuli miðað við allt að 22 vikum meðgöngunnar. Þar er gert ráð fyrir bæði fræðslu og stuðningsviðtölum fyrir móðurina, en hún er samkvæmt frumvarpinu frjáls að sinni ákvörðun, óháð sínum ástæðum. Við vitum auðvitað að það er þungbært fyrir hverja einustu konu eða par að standa frammi fyrir mögulegri fóstureyðingu, og því mikilvægt að hugað sé að rétti og öruggri heilbrigðisþjónustu konunnar.

Út frá hinu kristna sjónarmiði um að lífið sé heilög gjöf Guðs, má þó spyrja sig hvort samfélagið okkar gæti ekki gefið meiri gaum að rétti hins ófædda barns. Mér skilst að 22 vikna gamalt fóstur sé um 16 sm langt, það hreyfi sig, bregðist við hljóðum, finni fyrir því sem snertir hendur þess og oftast sést hvort það er strákur eða stelpa.

Kristin manneskja má að sjálfsögðu aldrei fella dóma yfir þeim sem ákveða að láta eyða fóstrum. En kristið fólk hlýtur að vilja vinna að samfélagi, sem leitar leiða til að bjóða sem flest börn velkomin í heiminn.

Velferð barna hlýtur að vera mál sem varðar samfélagið allt, og er hluti af kjarna kristins boðskapar.

Josep Mohr skynjaði fyrir réttum 200 árum síðan helgi lífsins í nýfæddu barni og samdi í framhaldinu þýska textann við Heims um ból.

Fyrir um 2000 árum kom Guð til okkar í barninu Jesú. Jóla-áskorunin til okkar er sú að láta guðspjallið hafa áhrif á líf okkar. Í því felst m.a. að setja líf og velferð barna í forgang.

Guð gefi þér gleðilega hátíð. Í Jesú nafni. Amen.