Hún vaskaði upp

Hún vaskaði upp

Anton og Gunnhildur þáðu huggun en þau gáfu hana líka til okkar hinna.

Um miðjan mars komu viðtöl í Fréttatímanum við fjölskyldumeðlimi sem misstu fólkið sitt fyrir rúmum fjórtán árum í eldsvoða á Þingeyri þar sem ung hjón létust ásamt eins og hálfs árs gömlum syni sínum. Þau Hreiðar Snær Línason og Ingibjörg Edda Guðmundsdóttir voru aðeins 22 og 20 ára þegar þau létust í brunanum ásamt syni sínum, Leon Erni. Eldri sonur þeirra hjóna, Anton Líni, sem þá var 3 og hálfs árs, bjargaðist og hann segir svo sjálfur frá: „Ég man ég vaknaði um nóttina og sá eld. Ég hljóp og vakti pabba. Síðan man ég eftir að það var sagt: hvar er bróðir þinn? En ég man lítið eftir það,“ segir Anton. Faðir hans hafði þá hlaupið með hann út en missti hann á leiðinni. Amma hans, sem bjó á efri hæðinni, fór inn og bjargaði drengnum út. En frá þessum hörmulega atburði sem engin getur skilið nema sá einn sem hefur reynt hefur Anton búið hjá ömmum sínum og öfum.

Það sem gleður mann mest er að sjá að þessu fólki hefur tekist að halda áfram með líf sitt og þá sér maður líka ungan og glæsilegan mann með skapandi anda og mikla hæfileika. En Anton notar tónlistina til að vinna með líðan sína. Hann er ófeimin að segja frá erfiðri reynslu og hvaða bjargráð hann hefur fundið sem ég veit að gefur fólki sem hefur misst og er nú í sárri sorg von og trú að það komi aftur góðir dagar.

Í blaðinu er einnig viðtal við föðurömmuna Gunnhildi Elíasdóttur. Þar talar hún um alla þá einstaklinga sem reyndust fjölskyldunni vel eftir slysið og það fyllir mann einnig von og þakklæti: „Maður fékk hjálp alls staðar að. Anton Líni fékk senda pakka og bréf. Þetta var ótrúlegt. Hann fékk send föt og dót frá ókunnugu fólki. Hann var að fá bréf þar sem mömmurnar voru að skrifa fyrir börnin sín sem höfðu tekið úr sparibauknum sínum og keypt eitthvað handa honum. Þetta var ótrúlega magnað og allur þessi fallegi stuðningur hjálpaði manni að standa í fæturna,“ segir hún Gunnhildur segir það ekki hafa komið til greina að flytja frá Þingeyri. Þau fengu mikinn stuðning frá bæjarbúum en litla samfélagið var lamað af sorg. „Nokkrum dögum eftir slysið kom áfallateymi frá Landspítalanum. Sóknarpresturinn sem var hérna, Guðrún Edda Gunnarsdóttir og eiginmaður hennar, Einar Sigurbjörnsson, voru okkar stoð og stytta. Guðrún Edda skírði báða strákana og gifti þau hjónin. Hún er enn að veita mér áfallahjálp fjórtán árum síðar. Þetta var ómetanlegt. Hún kom stundum, vaskaði upp, tók til og sagði manni að borða,“ segir Gunnhildur þakklát.

Ég veit að þessi viðtöl við Anton og Gunnhildi snertu marga og boðskapur þeirra til okkar hinna var upprisuboðskapur og þau deildu líka með manni hvað það þýðir að koma í Krists stað með svo mörgum og sterkum dæmum. Þau gáfu okkur eftirdæmi.

Á Skírdagskvöld minnumst við þess þegar Jesús braut brauðið og gaf vinum sínum og hvernig hann þjónustaði þá með því að þvo þeim um fæturna. Þeir voru að fara inn í þjáningu og sorg með honum þó að andi þeirra hefði ekki meðtekið það að fullu en hann var að undirbúa þá með því að snerta þá og umvefja með þessari hversdagslegu athöfn að brjóta brauðið og þvo óhreina fætur, ekki ósvipað og að þvo upp eða taka til. Pétur vissi ekki enn hvaða atburðarás færi af stað og þess vegna segir við hann Jesú: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ 9Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur.“ Pétri fannst að meistari hans ætti ekki að vera í svona skítverkum, það væri þeirra að þjóna honum en ekki öfugt. En Jesús var að kenna þeim hvað það er að koma í Krists stað. Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.“

Sálgæsla er það að koma í Krists stað, vera tilbúin að hlusta og þjóna með margvíslegum hætti. Það sjáum við líka í þessu viðtali þar sem Gunnhildur lýsir vináttu sinn og samskiptum við sóknarprestinn á Þingeyri Guðrúnu Eddu. ,,Hún er enn að veita mér áfallahjálp fjórtán árum síðar. Þetta var ómetanlegt. Hún kom stundum, vaskaði upp, tók til og sagði manni að borða.“

Sálgæsla felst ekki aðeins í því að tala heldur að leggja sig framm um að setja sig í spor annarra, hlusta, finna til og þjóna. Þetta skynjuðu barnsálirnar eins og svo oft í lífinu, er þau fengu mæður sínar til að skrifa Antoni bréf og tæmdu sparibaukana til að gleðja sorgmæddan lítinn dreng á Þingeyri.

Eitt af því mikilvægasta sem við íslendingar eigum er samkenndin. Við þurfum að rækta það með þjóðarsálinni og við eigum að styrkja börnin okkar í því að finna til með öðrum. Þess vegna verðum við að hlusta eftir því sem kemur frá barnssálinni og styðja þau til góðra verka eins og mæðurnar gerðu fyrir rúmum fjórtán árum eftir þetta hræðilega slys á Þingeyri.

Jesús þvoði fætur lærisveinanna, hann sem var að fara inn í óendanlega erfiða þjáningargöngu sem var líkamlegur sársauki, niðurlæging og dauði. Hann var byrjaður að hugga þá. Það er merkilegt í sorginni hvernig sá sem missir er sá sem leiðbeinir og gefur fólki vegvísa í því að styðja við og gefa. Það er nefnilega þannig að oft verður syrgjandinn mesta huggunin með svo margvíslegum hætti. Bæði með því að lifa af, með því að leiðbeina og gefa huggunarorð í gegnum reynslu sína. Anton og Gunnhildur þáðu huggun en þau gáfu hana líka til okkar hinna.