Viltu verða hamingjusamari? Viltu verða mjórri?

Viltu verða hamingjusamari? Viltu verða mjórri?

Í ríki Guðs skipta einkunnir, hitaeiningar eða launaumslög engu máli. Lífið er ekki eitthvað sem við þurfum að „redda“ heldur gjöf sem við eigum að taka við.

Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“

Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“

Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.

En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“

Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“

Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“

En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.

Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“

Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann. Jóh 5.1-15

Bara svolítið sætari

Viltu verða hamingjusamari? Viltu verða mjórri? Viltu verða sterkari? Viltu fá fallegri húð? Viltu að ástarmálin gangi betur? Viltu öðlast frama í vinnunni? Fá betri einkunnir í skólanum? Viltu fá meira sjálfstraust og innri vellíðan?

Þessar spurningar eru undir liggjandi þeim boðskap sem á okkur dynur á hverjum degi. Þú opnar vart dagblað eða tímarit svo ekki sé verið að auglýsa góða leið til að grennast, fegrunaraðgerðir án uppskurðar (eða með uppskurði), allskyns námskeið til þess að öðlast innri ró, meiri lífshamingju og betra sjálfstraust svo eitthvað sé nefnt.

Þessar spurningar eru líka ein af undirliggjandi ástæðum þess að stór hluti íslendinga fór fram úr sér í neyslu síðustu ár. Hér hefur lengi vel þótt fínt að vera með mjög há laun og berast á með því að búa fínt, eiga flotta hluti, fara mikið til útlanda og síðustu ár gat stór hluti Íslendinga veitt sér allt þetta. Jafnvel þau sem ekki höfðu efni á að taka þátt í ríkidæmispartýinu var gefinn kostur á að taka lán, skuldsetja sig til þess að vera nú ekki minni máttar. Annars gætu allir haldið að þau væru misheppnuð!

Allmenningsálitið skiptir svo miklu máli á þessu litla landi þar sem við þurfum öll að vera bæði dugleg og vel heppnuð. Þetta getur síðan leitt til þess að okkur finnst við alltaf þurfa að bæta okkur, verða svolítið mjórri, svolítið fallegri, svolítið sterkari og bara svolítið betur heppnuð.

Viltu verða heill?

Í guðspjalli dagsins heyrðum við sögu um það þegar Jesús læknaði sjúkan mann. Það eru margar svona lækningasögur í Biblíunni og margar þeirra eru nokkuð líkar hver annarri.

En þessi saga er um margt ólík öðrum lækninga og kraftaverkasögum af Jesú.

Í fyrsta lagi er það ekki sjúki maðurinn sem leitar Jesú uppi, heldur hefur Jesús frumkvæðið og kemur til hans og spyr hvort hann vilji hjálp. Í flestum öðrum sögum er það fólkið sem þarf lækningu sem hefur upp á Jesú og leggur oft mikið á sig til þess að ná athygli hans. Í þessari sögu er það Jesú sem sér manninn og býður fram aðstoð sína.

Í öðru lagi virðist maðurinn ekki hafa minnsta áhuga á því hver Jesús er. Hann spyr aldrei hver hann sé eða hvað hann heiti og eftir að hann hefur læknast gengur hann bara í burtu. Hann þakkar ekki einu sinni fyrir sig, hvað þá meir.

Í þriðja lagi spyr Jesús manninn vægast sagt undarlegrar spurningar. Hann spyr: „Viltu verða heill“? Þetta er heldur ögrandi spurning, eða hvað? Hann er búinn að liggja út af, veikur í 38 ár! 38 ár! Auðvitað vill hann verða heill! Hverskonar spurning er þetta! En maðurinn lætur ekki svo lítið að svara spurningunni. Í staðinn fer hann að útskýra hvers vegna honum hafi ekki tekist að verða heill og að möguleikar hans að læknast í lauginni séu litlir sem engir. Hjá manninum er að finna áhugaverða blöndu af uppgjöf og von, vantrausti og löngun.

Í mörgum öðrum lækningasögum í Biblíunni er einn aðal boðskapurinn að þau sem fá lækningu, trúa á og treysta Jesú. Í þessari sögu er ekki minnst á það. Maðurinn virtist ekki hafa nokkurn áhuga á því hver Jesús var og ég held að það sé einmitt einn aðal boðskapur sögunnar. Að það er ekki vegna þess hvernig maðurinn hugsar eða hvað hann gerir, sem hann læknast. Það er eingöngu fyrir Jesú sem hann verður heill. Á meðan maðurinn er upptekin við að velta sér upp úr því hvers vegna hann kemst ekki ofan í laugina og finna ástæður og kannski afsakanir fyrir því hvers vegna honum hefur ekki tekist að lækna sig, mætir Jesús allt annarri spurningu. Jesús sér sjálfur hvers maðurinn þarfnast og það er ekki það sem maðurinn sjálfur var uppteknastur af. Jesús gaf manninum líf, heilindi og heilsu en ekki þá praktísku lausn sem maðurinn var að hugsa um.

Lækning mannsins varð ekki vegna dugnaðar hans sjálfs eða hæfni. Hann læknaðist fyrir náð.

Von

Þessi saga boðar von. Hún boðar þá von sem við höfum í Jesú Kristi. Það er annarskonar von en sú sem er fólgin í því sem ég talaði um hér í upphafi. Þetta er ekki bjartsýni sem byggist á töframeðulum og öðru sem hjálpar þér að breyta sjálfri þér og lífi þínu.

Sú von sem Jesús sýnir okkur með þessari sögu er vonin á Guð og náð Guðs. Náðin er ókeypis, kostar ekkert og er gefins. Þú þarft ekki að fá bestu einkunnirnar, hæstu launin, vera fallegust eða sterkastur til að fá að vera í sambandi við Guð.

Í ríki Guðs skipta einkunnir, hitaeiningar eða launaumslög engu máli. Lífið er ekki eitthvað sem við þurfum að „redda“ heldur gjöf sem við eigum að taka við. Guð vill fylgja þér í gegnum lífið og Guð vill gefa þér það sem þú þarft en það er oft ekki það sama og það sem þú vilt, eða það sem þér finnst þú þurfa.

Gleymum því ekki að maðurinn í sögunni bað ekki um hjálp. Hann hrópaði ekki á Jesú í neyð sinni. Hann var upptekinn við að reyna að „redda“ hlutunum sjálfur. Samt kom Jesú til hans að fyrra bragði. Á sama hátt kemur Jesús til þín og vill sýna þér hvað það er sem raunverulega skiptir máli. Hann vill gera okkur heil hvort sem við munum eftir að biðja hann um hjálp eða ekki!

Amen.