Umræða?

Umræða?

Það er svo merkilegt að í allri þessari umræðu er Logos – Orðið – að tala við samtíð sína, sem, - í það minnsta í mynd flestra ráðamanna í Jerúsalem - virtist svo einbeitt að skilja ekkert af því sem hann segir. Að heyra ekkert nema það sem þeir vildu heyra eins og þeir gætu ekki hugsað sér að taka fyrri hugmyndir til endurmats; tileinkað sér eitthvað nýtt eða séð hlutina í öðru ljósi. Að hægt sé að tala um gamla hluti á nýjan hátt.

Flutt 18. mars 2018 í Dómkirkjunni

5. sd. í föstu 2018. Dómkirkjan. Útvarp.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Maður er nefndur Jordan Peterson; hann er kanadískur prófessor í klínískri sálarfræði auk þess sem hann hefur starfað við fag sitt sem ráðgjafi og haft til meðferðar fjölda manns með margs konar vandamál geðs og sálar. Þar á ofan er hann býsna vinsæll fyrirlesari og hefur hann fjallað – af töluverðri einurð - um mörg málefni samfélagsins og ýmist aflað sér vina eða andstæðinga vegna skoðana sinna; en hann hefur náð til margra með gagnrýni sinni á hinn svokallað pólitíska rétttrúnað, sem ég viðurkenni reyndar að ég veit ekki alltaf hvað er. En þar fyrir utan vil ég sérstaklega nefna hugleiðingar hans á sviði trúarlífssálarfræði og gildi hinna fornu sagna Ritningarinnar, sem eru sannarlega athyglisverðar.

En ástæða þess að ég nefni hann hér til sögunnar er, að ég sá á dögunum athyglisvert viðtal við hann, sem mér skilst að hafi farið víða. Þar ræðir Cathy nokkur Newman, fréttamaður og þáttastjórnandi á Rás 4 í Bretlandi við hann og er efnið – eða átti alla vega að vera það – jafnrétti kynjanna, heilbrigð hjúskaparsambönd og fleira því tengt. En sannast sagna varð frekar lítið úr einhverri samræðu eða að vitræn umfjöllun kæmist á nokkurt flug, því spyrillinn sagði í öðru hverju orði: „Svo þú ert að segja að…” og svo kom einhver staðhæfing, sem báru nú flestar mynd og líking strámanns.
En svar Petersons hófst hins vegar yfirleitt á orðunum „Nei ég sagði það ekki. Ég sagði…“ og svo endurtók hann orð sín með útskýringu sem aftur kallaði á spurningu spyrilsins sem hófst á „Svo þú ert að segja að…osfrv. “ Þannig beit þessi umræða sífellt í skottið á sér og sogaðist ofan í sjálfa sig.
Ég neita því ekki að þetta var all sérstætt á að hlýða en sem betur fer fara fæst viðtöl fram með þessum hætti. En þetta viðtal; ja, það var meira í ætt við þráttan en viðtal, því það leyndi sér ekki að spyrillinn var frá upphafi ósammála skoðunum Peterson og ætlaði að kveða hann í kútinn. Sem að sínu leyti er allt í lagi því menn eiga að standa fyrir máli sínu en þeir verða þá að komast að með mál sitt.

Nú er von að spurt sé; hver er tenging þessa viðtals við guðspjall dagsins?
Mér finnst hvort tveggja birta ákveðna umræðuaðferð eða umræðuhefð sem ber takmarkaðan árangur. Að vísu komum við í guðspjallinu inn í miðja samræðuna þar sem Jesús ræðir við forystumenn gyðinga um fortilveru sína og sambandið við föðurinn og hvernig sannleikurinn og Guð birtist í heiminum. Hvernig meðalgöngu Krists er varið og hvernig hann birtir Guð á jörð.
Það gekk vægast sagt brösuglega fyrir Jesú að fá þá til að skilja hvað hann átti við og raunar erum við komin á þann stað að viðmælendur hans spyrja: „Er það ekki rétt hjá okkur að þú sért útlendingur haldinn illum anda?”

Má þá ekki vænta þess að annað í samtalinu hljóti að taka mið af þessu viðhorfi?

Lesendur Jóhannesarguðspjalls, sem væntanlega hafa byrjað að lesa formálann að guðspjallinu þar sem segir: „Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð” þeir átta sig vafalítið á því hvað Jesús á við þegar hann ræddi um Hið guðlega Orð og hvernig það nálgast manninn; kemur til móts við manninn til að umbreyta og endurskapa – . Lesendur átta sig líka á því þegar segir í formálanum að hans eigin fólk hefðu ekki tekið við Orðinu; ljósi heimsins.

Það er svo merkilegt að í allri þessari umræðu er Logos – Orðið – að tala við samtíð sína, sem, - í það minnsta í mynd flestra ráðamanna í Jerúsalem - virtist svo einbeitt að skilja ekkert af því sem hann segir.
Að heyra ekkert nema það sem þeir vildu heyra eins og þeir gætu ekki hugsað sér að taka fyrri hugmyndir til endurmats; tileinkað sér eitthvað nýtt eða séð hlutina í öðru ljósi. Að hægt sé að tala um gamla hluti á nýjan hátt.

Þessum samræðum Jesú og faríseanna lauk með því að þeir tóku upp steina til að grýta hann og má segja að það sé forsmekkurinn að því sem síðar varð.

Já þær eru margar umræðurnar; kannksi mis - áhugaverðar eða tímabærar en þegar vel tekst til má reikna með að þær auki þekkingu okkar en ekki síst skilning; gagnkvæman skilning.

En stundum fer hún á einhverjar þær brautir sem geta virkað undarlegar:
Hér uppá Íslandi, þar sem er ekki einu sinni fyrir hendi formlegt samfélag gyðinga, það ég best veit, kemur fram frumvarp um að banna umskurð sveinbarna og gera það að refsiverðu athæfi. En hér eru vissulega samfélög múslima og líklegast snertir þetta frumvarp þau frekar en þá gyðinga sem hér eru.

Mér finnst rétt að ég taki fram, - svo ég geri nú grein fyrir minni eigin skoðun - að þá ég styð ekki umskurð sveinbarna og lít á hann sem óþarfa, sársaukafulla aðgerð.
Það er ekki inná mínum radar að trú þurfi á þessari aðgerð að halda. En það er mín skoðun og ég reikna með að eitthvað á annan milljarð manna sé mér ósammála. Þess vegna er ekki út í hött að spyrja að því, hvort okkur vanti svo sárlega andstæðinga að við leitum þeirra með þessum hætti. Þó vitaskuld séu það aldrei rök í prinsippmálum að láta fjölda andstæðinga stjórna því hvaða skoðanir maður tileinkar sér.

Það má líka benda á að í árdaga kristinnar fór fram umræða um umskurð. Henni lyktaði með því umskurður var afnuminn meðal hinna kristnu en það lá ekki frá upphafi í augum uppi að svo yrði. Helsti frummælandi þess var Páll postuli, sem sjálfur var umskorinn og benti hann á að umskurður var algerlega ónauðsynlegur og raunar lögmálsþjónkun sem gerði lítið úr fagnaðarerindinu; Skrifaði hann meðal annars Galatabréfið til þess að árétta þetta.

En það voru ekki allir sammála honum, og þá, eins og nú, væri líka allt í lagi að heyra viðhorf þeirra sem slíkt stunda, þeirra sem halda fast við þetta lögmál og því ekki að tala saman og að hverjir reyni að skilja aðra. Kannski kemur ekkert út úr því annað en að menn verða sammála um að verða ósammála og þá verður það bara þannig.
En þá má spyrja hversu gagnlegt það er fyrir umræðuna um þessi mál að gera þau að sakamönnum sem fylgja árþúsunda gömlum sið forfeðra sinna, sið sem þau tengja órjúfanlega sáttmála sínum við Guð?

Eftir því sem ég kemst næst þá var efnt til umræðuþinga um þessi mál í Þýskalandi auk þess sem allnokkur dómsmál áttu sér stað þar sem menn hafa lögsótt foreldra sína fyrir að láta framkvæma þessa aðgerð. Lending þýska þingsins var sú að telja umskurð sveinbarna ekki vera líkamsáras og því ekki refsivert athæfi og mér skilst að Danir hafi farið svipaða leið.

Spurningarnar sem vakna í þessu sambandi verða fjöldamargar og hugleiðingarnar hér að neðan gera þeim langt í frá skil.

Trompa mannréttindi alltaf trúfrelsi? Ég held að flestir geti tekið undir það að mannhelgina verður fortakslaust að virða; en spurningar vakna: Eru til einhver þau mannréttindi sem eru mikilvægari en önnur mannrétttindi?

Eru það t.d. mannréttindi að búa við trúfrelsi?
Er réttur foreldra sterkari en réttur barnsins?

Er löggjöf af þessu tagi líkleg til að stöðva umskurð? Og hvað með þá almennu venju Bandaríkjamanna að framkvæma umskurð yfir alla línuna? Hver er reynsla þeirra? Og hvað segir landlæknir?

Það er í raun hægt að halda áfram í hið óendanlega; mér finnst reyndar að rökin gegn umskurði séu sterkari en með en það er aðeins mitt mat.

Ég ætla mér ekki þá dul að halda að þessi umræða verði afgreidd hér í prédikunarstólnum; öðru nær. En við megum líka átta okkur á því að um leið og við ræðum mannréttindi þá ræðum við líka eilífðarmál, trú, samband mannsins við hið heilaga eins og maðurinn upplifir það.

Jesús var ekki hræddur við að taka umræðuna, eins og sést í guðspjalli dagsins þegar hann talaði við hina skriftlærðu og faríseana. Hann ræddi um hluti við þá sem þeir skildu reyndar ekki og náðu engri tengingu við, og vildu kannski ekki skilja. Það er líka athyglisvert að aðeins framar í guðspjallinu sagði hann við þá – og það virðist vera sami hópur og hann talar við í dag – „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.”

Raunar er margt annað í kennslu og starfi Krists sem bendir til þess að hann gekk á móti því sem samfélagið samtíma hans taldi vera góða siði og borgaralegt siðgæði; sem meðal annars fólst í því að grýta bersyndugar konur.

Hann er logos -orðið sem hefur verið frá upphafi er með manninum og þetta Orð – Þetta Orð - umbreytir, skapar að nýju þegar við því er tekið. Og þó svo að sumir samtíðarmenn hans hafi ekki tengt við orð hans og kennslu þá gerðu það nú samt æði margir eins og raun ber vitni.

Svo ég vísi aðeins aftur í samtal þeirra Petersons og Cathy Newman þá merkir það ekki að viðkomandi sé á móti barnavernd eða vilji ekki standa með börnum þótt hann bendi á að hugsanlega megi nálgast þetta málefni á annan hátt en að gera foreldrana að glæpamönnum.

Við hljótum að geta talað hvert við annað en látið grjóthnullungana eiga sig.