Sálmur um alþjóðlegt kirkjusamfélag

Sálmur um alþjóðlegt kirkjusamfélag

Kirkjurnar í Póllandi, kaþólska kirkjan, mótmælendakirkjurnar og rétttrúnaðarkirkjan vilja benda á að þegar Biblían talar um sigur Krists þá er það annarskonar sigur. Það er sigur sem reisir við þá sem eru kúgaðir, hafa verið undirokaðir, smælingjana. Hugsun leiðist inn á brautir sem eru því miður að verða framandi en ein af grunnhugsunum kristninnar. Það á sér stað barátta milli góðs og ills. Það er ekki barátta sem er gerð upp milli þjóða eða handboltaliða, en niðurstaðan skiptir okkur öllu máli.

Yfirskrift alþjóðlegu samkirkjulegu bænavinnar 2012: Sigur Krists umbreytir okkur

Guðspjall bænavikunnar 2012: Jóh. 12: 23-26.

Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

1. Eflaust hafa mörg okkar verið spennt yfir handboltanum, strákunum okkar, í síðustu viku. Ég sat með nokkrum körlum á fimmtudaginn þar sem leikurinn á miðvikudaginn kom til tals, ræddur í þaula og menn veltu vöngum. Einhver hafði ekki ætlað að horfa á leikinn því að spennan varð honum um megn. Mjótt á munum allan tímann, háspenna fram á síðustu sekúndu. Og mikið er sigurinn sætur!

Yfirskrift bænavikunnar er: „Sigur Krists umbreytir okkur”. Það er líka sætur sigur en öðru vísi en í íþróttum. Undirbúningsnefnd bænavikunnar var að þessu sinni frá Póllandi og bendir á að framundan er Evrópumót í fótbolta sem fer fram í Austur Evrópu, Úkraínu og Póllandi. En önnur og veigameiri ástæða fyrir vali á þessu þema var saga Póllands. Sú þjóð hefur margoft mátt þola ósigur, kúgun og niðurlægingu, land á milli heimsvelda, þar sem stríðandi öfl hafa ætt yfir land þeirra, hvað eftir annað. Það vill svo til að þar sem er sigur þar er líka einhver sem tapar í stríði og í íþróttum. (Norðmennirnir voru frekar fúlir þegar við tókum þá á miðvikudaginn! Og enn frekar eftir leikinn á föstudaginn!)

Kirkjurnar í Póllandi, kaþólska kirkjan, mótmælendakirkjurnar og rétttrúnaðarkirkjan vilja benda á að þegar Biblían talar um sigur Krists þá er það annarskonar sigur. Það er sigur sem reisir við þá sem eru kúgaðir, hafa verið undirokaðir, smælingjana. Hugsun leiðist inn á brautir sem eru því miður að verða framandi en ein af grunnhugsunum kristninnar. Það á sér stað barátta milli góðs og ills. Það er ekki barátta sem er gerð upp milli þjóða eða handboltaliða, en niðurstaðan skiptir okkur öllu máli. Við höfum þessa hugsun skýra í stórkostlegum bíómyndum hin síðari árin: Hringadróttinssögu, Narníubókunum og Harry Potter. Þessi dramatíski skilningur á lífinu er miklu margslungnari og gæfulegri í alvörunni en í þessum spegilmyndum ævintýramyndanna.

2. Óvinurinn er ekki handboltalið eða önnur þjóð heldur illt afl. Sigur Krists er ekki fólginn í því að kúga menn til undirgefni þvert á móti kemur hann í auðmýkt og veikleika, til að þjóna og gefa líf sitt í þessari baráttu gegn því sem illt er, til þess að við fáum notið sigurs hans. Hann reisir þannig menn við, gefur þeim sjálfsvirðingu að nýju, styrkir og eflir, gefur líf, ljós og kraft. Baráttan sem við eigum í er ekki við hold og blóð, segir postulinn, heldur við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Hvað heita þessar verur í bókmenntunum sem ég nefndi: Sauron, Ísdrottningin, sá sem ekki má nefna. Og í Biblíunni höfum við harmsögulegan þríhljóm í moll, synd, dauði og djöfull. Djöfulsins, segja menn í tíma og ótíma, þegar illa gengur. Og það er mikið rétt í því. Það er einhver djöfulgangur í tilverunni sem gengur illa að hemja.

Jesús segir um örlög sín í guðspjallinu: „Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.” Sú mikla harmsaga sem hann gekk í gegnum voru átök Guðs við illskuna í tilverunni. Við erum sem sagt ekki að fást við nein aukaatriði í trúnni heldur kjarnan sjálfan. Játning okkar og trú er að Jesús hafi með því að deyja og rísa upp á þriðja degi frá dauðum sigrað illskuna, sett henni skorður, gefið okkur ljós til að skilja og skynja hvað er okkur fyrir bestu og hvað leiðir til ógæfu og glötunar.

Í þessu er trú okkar svo veik. Við eins og þorum ekki að trúa því og halda því fram að þannig er því farið. Að það sem Jesús gerði fyrir okkur hafi með lokabaráttuna að gera, sigur yfir illskunni í tilverunni, í persónulegu lífi okkar og samfélagi manna, og meir en það, með örlög alheimsins. Heimurinn dæmir mig vafalaust sem ruglukoll ef ég held þessu í alvöru fram. En ég geri það nú samt.

3. Það er í bæninni sem þetta verður augljósast. Það er stundum talað um bænabaráttu. Saga Jesú hefur að geyma lýsandi dæmi og fyrirmynda handa okkur. Síðustu daga hef ég verið að skoða bréf sem Marteinn Lúther skrifaði til Péturs bartskera, vinar síns. Það er margt hægt að læra af því, en þar segir guðfræði prófessorinn að hann taki fræðin og biðji yfir Faðir vorinu eins og barn. Sú bæn hefur allt það að geyma sem við þurfum að biðja um enda kenndi Jesú okkur þessa bæn. Í því biðjum við að það verði hjá okkur einnig að nafn hans helgist hjá okkur, að ríki hans komi til okkar, að vilji hans verði hjá okkur. Og lokabænin er að við frelsumst frá illu.

Fyrirbænaþjónustan sem Jesús lagði okkur á hjarta leiðir til þess að við finnum til með öðrum, viljum leggja lið, það er þjónustan sem við erum kölluð til, kristið fólk, að biðja, biðja fyrir öðrum eins og sjálfum okkur. Og þá vitum við ekki af því fyrr en við erum farin að þjóna öðrum eins og Jesús gerði.

Mér finnst það stórkostlegt að hér í bæ eru söfnuðirnir með bænastundir nær alla daga vikunnar að biðja fyrir öðrum og samfélaginu. Það hefur verið gert í bænavikunni undanfarin ár að farið er á milli safnaðanna á þessar bænastundir og sameinast í bæn. Í þessari viku eigum við eftir að vera í Hvítasunnukirkjunni og í Kaþólsku kirkjunni. Í þessu bænastarfi erum við að biðja að Guðs ríki komi til okkar, að við frelsumst frá illu.

4. Við ætlum hér á eftir að taka okkur stund til bæna. Við syngjum milli fyrirbænanna eitt erindi í einu af bænasöng Matthíasar Jochumssonar: Lát þitt ríki ljóssins Herra. Matthías var bænarinnar maður, nokkuð sem allt of sjaldan er bent á.

Það eru dýrmætar, blessaðar, hvíldarstundir að biðja, iðja, sem við ættum að leggja miklu meiri rækt við. Það er á þeim stundum sem við lifum nærveru Guðs meira en í annan tíma. Þá gerist það líka stundum að það er eins og Guð tali til okkar. Marteinn Lúther lýsir því þannig í áðurnefndi bréfi „að heilagur andi prédiki”, og þá er rétt að hlusta. Þá vísar Guð okkur veginn, það er vegurinn til lífsins. Þá er hann að reisa okkur upp og gefa okkur það sem við þurfum til vegferðarinnar. Þannig lifum við sigur hans í okkar daglega lífi án þess að sigra aðra heldur miklu frekar til að styðja og styrkja aðra til sigurs í sínu lífi. Sigur Krists er sigur okkar, mannkynsins, yfir því sem illt er.

Ég samdi bænasöng við lag eftir pólska tónskáldið Wojciech Kilar sem kórinn syngur fyrir okkur í upphafi bænastundarinnar. Hann fjallar um það að fylgja Jesú í lífinu og leyfa honum að umbreyta okkur svo við líkjumst honum meir og meir, svo að einingin vaxi. Það felur í sér að við verðum að breytast og vera fús til þess að vera eins og leir í hendi Guðs.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Amen.

Sálmur um alþjóðlegt kirkjusamfélag

Lag: Wojciech Kilar

Drottinn Guð, kom þú, dvel þú oss hjá, drag þú oss nær þér veginum á, göngum við saman, samferða þér, syngjum þér lofsöng, er þér einum ber. Sameina aftur söfnuðinn þinn, sem dreifðir þú um veröld, enn á ný, svo að mannkynið komist þar inn, Krist, þig að hylla, himnaríki í.

Faðir vor, þú sem sendir þinn son, styrktu þín börn í himneskri von, mótaðu oss í lófa sem leir, líkjumst við honum, ekkert viljum meir. Heimurinn sjái soninn þinn þá söfnuði þínum í og fylgi þér, biðjum við þig um brennandi þrá, birtir af degi, ljósið Kristur er.

Heilagi andi helgaðu oss heilsteypt og sönn við lýsandi kross, þar eflist andinn, ástúð í sál, auðmýkt að þjóna, mildi, kærleiksbál. Gerðu oss eitt í anda og trú, einingin vaxi, byggi nýja brú heimshluta milli, himnesk er sú, heilaga þrenning oss umbreyti þú.

Lagið er að finna í efni vikunnar hja WCC bls. 30