Mikilvægi hins trúarlega

Mikilvægi hins trúarlega

Margvíslegar breytingar í samfélaginu kalla á margþátta skilgreiningar á hugtakinu trú eða trúarbrögð. Mikilvægt er að rannsaka áhrif trúar(bragða).

Fyrir nokkrum árum kom út bók sem ber þann ágæta titil ,,if god is a dj..." Bókin er afrakstur rannsóknarverkefnis háskólanema í félagsráðgjöf í Esslingen í Þýskaland. Þeir töluðu við tugi venjulegra unglinga um lífsgildi og viðhorf þeirra. Þar er dregin upp mynd af trúarlífi unglinga og þykir höfundum ljóst að engan veginn sé hægt að tala um að mikilvægi hins trúarlega (þ. Religiösen) fari minnkandi. Hins vegar sé ljóst að trúarheimurinn er að breytast þó þær breytingar séu enn fyrst og fremst meðal unga fólksins.

Þegar rætt er um trú og trúarbrögð við fólk eru viðbrögðin fjölbreytt og síáhugaverð. Þannig er mér minnisstætt samtal mitt við bandaríska konu sem ég hitti. Þessi ágæta kona var mjög ánægð með tíu ára dóttur sína sem að hennar mati hafði náð undraverðum trúarþroska, enda búin að búa til eigin trúarbrögð. Ég reyndi að samgleðjast konunni yfir þessum árangri dóttur hennar. En væntanlega örlaði á fordómum mínum.

Ég upplifi stöðugt á ný að margt er mér framandi, svo framandi að ég fyllist jafnvel kvíða eða ótta í þess garð. Á sama hátt upplifi ég, að þegar ég segi frá fjöltrúarlegum upplifunum mínum og fræðilegu rannsóknarstarfi þar að lútandi, að viðmælendur mínir bregðast jafnvel við með skilningsleysi. En eru það ekki eðlilegustu viðbrögð í heimi? Erum við ekki og verðum við ekki ófullkomnar manneskjur? Sjálfsagt, en um leið tel ég það vera skyldu okkar (og um leið kristilega skyldu mína) að taka okkur tíma í sjálfsskoðun og gagnrýni.

Breyttur heimur sem felur í sér önnur menningarviðmið, aukna einstaklingshyggju, fólksflutninga og félagsleg samskipti á nýjum vettvangi, m.a. á veraldarvefnum, þýðir að trúarlíf á sér nú í síauknum mæli stað utan trúarbragða og trúarstofnanna í formi einstaklingsbundins trúarlífs (e. religious individualism). Því er þörf á nýjum leiðum og nýjum skilgreiningum á því hvað hugtök eins og trú og trúarbrögð fela í sér.  Slíkar skilgreiningar þurfa að geta staðist í fjöltrúarlegu samhengi. Þörf er á þverfaglegum skilgreiningum sem taka tillit til þess að trú og trúarlíf tengist ekki alltaf í hugum fólks trúarbrögðum eða trúarstofnunum. Og hér tek ég undir með Dr. Heinz Streib sem telur að þessar nýju skilgreiningar eigi að setja trú og trúarlíf í lífssögulegt, sálfræðilegt og félagslegt samhengi fólksins og hverfa frá því trúarstofnanalega samhengi embættismannsins sem skilgreiningar um trú, trúarlíf og trúarbrögð hafa gjarnan verið settar í.

[Pistillinn er útdráttur úr samnefndri grein undirritaðs sem birtist í Morgunblaðinu, 20. júní 2011, bls. 17]