Á óreimuðum skóm

Á óreimuðum skóm

Jesús elskar ykkur eins og þið eruð frá skaparans hendi, en ekki fyrir það sem þið fáið áorkað í lífinu. Hann þekkir allar mannlegar tilfinningar, þannig að það er ekkert sem getur skilið ykkur frá honum, hann mun aldrei afneita ykkur-því svarið þið játandi hér á eftir

Dagurinn með stóru déi er runninn upp. Ekki aðeins dagurinn heldur og stundin, fermingardagur og stund ykkar. Dagurinn í gær er minning, dagurinn á morgunn er draumur, dagurinn í dag er lífið sjálft. Þarna sitjið þið prúð en kannski ekki svo frjálsleg í fasi. Hvernig er hægt að vera frjálsleg í fasi sveipuð hvítum kyrtli? Ég get sagt ykkur krakkar ef þið lofið að segja engum frá að fermingarmyndin af mér með hár niður á axlir var allt annað en fermingardrengur með frjálslegt fas. Líktist meira að ég hafi á þeirri stundu er augnablikið var fryst að ég hafi séð....

Samt voruð þið spennt; þegar þið rétt við það að taka ykkar fyrstu spor inn í fermingarfræðslu vetrarins, fyrir þeirri hugmynd þegar einhver ykkar spurði „hvenær þið ættuð að máta þarna þetta hvíta... æi...“ orðið var týnt...það sem er týnt er bara googlað í dag, .„æi þarna...yfirhöfn...“ og ég þóttist ekkert skilja og hváði „yfirhöfn“ er´t að meina Reykjavíkurhöfn? spurði ég eins og álfur út úr hól í Elliðarárdalnum með fimmaura brandara.

Óþolinmóð æskan stundi upp. „Æi, þú veist...sloppinn...“ já þú meinar fermingarkyrtilinn“ svaraði ég og þóttist vera komin til sjálfs míns og skilnings. Þessar samræður áttu sér stað á síðastliðnu hausti. Síðan eru liðnir margir dagar, vikur og mánuðir ef ekki í ykkar huga árafjöld. Ef þið fengjuð tækifæri hér og nú til að hitta ykkur fyrir þá og nú munið þið eflaust ekki kannast við ykkur frá því í haust og nú á fermingardegi ykkar Pálmasunnudag. Ekki bara það að þið eruð í fermingarkyrtlum og með bjarta ásjónu. Á mæltu máli þýðir það að þroskast. Með öðrum orðum kæru fermingarbörn – þið hafið þroskast frá því sem þið voruð við upphaf ferðar okkar síðastliðið sumar og haust til þess sem þið eruð í dag.

Fögnuðurinn er ykkar og okkar og fjölskyldu ykkar. Sá fögnuður er fölskvalaus. Við heyrðum um annarskonar fögnuð í guðspjalli dagsins sem sr. Bragi Skúlason las okkur. Annars konar fögnuður segi ég. Jesús Kristur kom inn í Jerúsalemborg ríðandi asna og fólkið fagnaði honum, fólkið breiddi klæði sín á veginn og veifaði pálmagreinum til að fagna komu hans, en þannig var konungum fagnað á þeim tímum. Við skulum ekki ætla þegar þið gangið héðan út á eftir; í ykkar huga eftir alltof langan tíma, að fólkið ykkar breiði klæði sín fyrir fætur ykkar og veifi pálmagreinum ykkur til heiðurs. Í dag er miklu fremur veifað símum áfastir við selfiestöng; eða á okkar ylhýra montpriki og myndavélum vegna þeirrar þrár að stöðva tímann og stundina - en samt hafa aðstandendur ykkar gert allt til þessa dags og þessarar stundar að breiða klæði sín fyrir fætur ykkar og munu gera áfram á þann veg sem þið gangið til framtíðar.

Ég ætla mér ekki að segja á hvaða tímum það hafi verið erfiðast að vera unglingur. Fyrir utan að það er ómögulegt að segja um nema í að vera því unglingsárin varir ákveðin tíma. Fyrir utan að heilu kynslóðirnar hafa komið og farið án þess að vera þess aðnjótandi að falla undir safnheitið unglingur.

Þau eru mörg sem hafa þá hjartans sannfæringu, reyndar þarf ekki sannfæringu til heldur má lesa um það í fjölmiðlum og staðreyndir tala sínu máli að þið kæru fermingarbörn munið kannski komast næst því í íslandssögunni ef ekki veraldarsögunni að vera eins og Jesú. Unglingar, ungt fólk í dag eru allir eins og Jesú, búa heima til þrítugs og ef þau gera nokkurn skapaðan hlut þá er það kraftaverk. Sama sagan – í vetur krakkar hef ég kastað á ykkur misdýrum bröndurum. Yfirleitt fylgir á eftir að ég segi að nú megið þið hlægja því þetta var brandari.

Það er ekki brandari að þið eruð hér, samt pínulítið sætt að sjá ykkur svona prúð-hárgreiðslan í lagi að ekki sé talað um klæðnaðinn sem undirstrikar æsku ykkar. Þið eruð forvitin eins og þegar þið spurðuð nýverið á æfingu hvað gerist ef einhver segir Nei í staðin fyrir Já. Þið voruð ekki viss um hvort mætti spyrja svona spurninga, en samt spennandi að feta sig út á þá braut - en ekki of langt. Þið eigið eftir að komast lengra og þið eigið eftir að fá svör og ekki svör við margvíslegum spurningum. Svör sem þið ekkert endilega viljið heyra eins og ef einhver skyldi segja nei og við prestarnir sögðumst bara halda áfram til þess næsta. Það væri svolítið lame að leggja á sig heilan vetur fræða með prestunum og öðrum fræðurum „vil‘t þú gera...og svo í endann segja - Nei!

Þið eruð hér til að segja já. Þið segið Já - við lífinu. Þið segið já - við því að við manneskjurnar erum allskonar. Þið segið já - við kærleikanum. Þið segið já - að vera besta útgáfan af ykkur sjálfum. Þið segið já - við fögnuðinum sem bíður ykkar. Þið segið já - innra með ykkur, en eruð ekkert endilega að hrópa á torgum „Hósanna lof sé Drottni“ eins og við heyrðum í guðspjallinu, ekki bara að það sé svo stórt að erfitt er að klæða búning skilnings heldur þetta einfalda orð -JÁ-sem opnar svo margar dyr og um leið lokar öðrum. Í hvert sinn sem dyr opnast lokast aðrar og öfugt. Það að segja Já eða Nei getur lífi breytt. Lífið fyrir utan spennt í óreimuðum skóm bíður eftir ykkur, forvitið eins og þið með ótal spurningar á vörum, sem ekki endilega öllum verður svarað.

Jesús elskar ykkur eins og þið eruð frá skaparans hendi, en ekki fyrir það sem þið fáið áorkað í lífinu. Hann þekkir allar mannlegar tilfinningar, þannig að það er ekkert sem getur skilið ykkur frá honum, hann mun aldrei afneita ykkur-því svarið þið játandi hér á eftir.

Spurning ykkar um Já eða Nei er gild á öllum tímum. Hún var gild þegar Jesús reið á asna inn í Jerúsalemborg vitandi vits hvað beið hans dagana á eftir nú í kyrruviku. Hún er gild í ykkar lífi og þeim árum sem bíða ykkar samofin veröld sem búið er að pakka saman og smætta svo allt er í seilingarfjarlægð. Næstum ómögulegt að geta sér til um hvað er rétt og hvað er rangt. Öndvert við það sem þið játist hér á eftir er betra að segja NEI-í byrjun lífs ykkar sem fermdir einstaklingar-Nei-við því sem þið hafið ekki forsendur til að ætla hvert leiðir ykkur. Já, við því að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs ykkar. Eitthvað sem er stærra en draumar ykkar, en með nógu mikilli þrjósku og ákveðni er allt hægt. Eitthvað sem ratar ekki á Instagram, Twitter, Tumblh, Facebook, Snappið og læt ég hér staða numið því viss er ég um að einhverjir hér í kirkjunni halda að presturinn sé farin að tala tungum á stóra degi ykkar kæru fermingarbörn. Amen