Systurnar tilbeiðsla og fullvissa

Systurnar tilbeiðsla og fullvissa

Vissan er grundvöllur tilbeiðslunnar – vissan er þetta hús í þessu umhverfi, vissan skóp þetta hús – um það vitnar sagan.

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Konan segir við hann: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður. Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“
Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“
Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“
Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“
(Jóh 4.19-26)

i.
Þetta guðspjall er, meðfram ýmsu öðru, um tilbeiðsluna. Og svo um fullvissuna. Og hvað á betur við hér í Strandarkirkju en einmitt hugleiðing um tilbeiðslu og fullvissu. Við erum hér á helgum stað – að mínu viti á einhverjum helgasta og kyngimagnaðsta stað sem finnst á okkar ágæta landi. Samt – eða kannski þess vegna – er hér fyrir utan gluggana auðn og tóm (hefur þó skánað), brjálað haf, óþekkur sandur sem kynslóðirnar hafa reynt að hefta á stefnulausri en linnulausri ferð sinni um þetta byggðarlag. Margur maðurinn myndi segja að hér sé einn allsherjar berangur.

En það bara skiptir engu máli. Því hér stendur hún Strandarkirkja og sér um sína – eins og svo oft er haft á orði. Hún er ekki út í bláin bænin eftir Sigurð heitinn Pálsson vígslubiskup sem hér er í fordyri hangandi; sú sem hefst á þessum sönnu orðum, mikilfenglegri yfirlýsingu:

Þetta er ekkert venjulegt hús,
heldur himinn á jörðu.
Því Drottinn himnanna býr hér

Hér býr vissan um Drottinn, um Guð – „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur.“ Segir Samverska konan. Hún veit. Áherslan er þar. Það sem hin Samverska kona er að vísa til – með vissu sinni – er stef úr 5. Mósebók sem Samverjar lögðu mikla áherslu á í Messíasarskilningi sínum; nánar tiltekið þetta: „Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða.“ (5. Mós. 18:15) Reyndar kölluðu Samverjar sinn Messías, Taheb – sem þýðir „sá sem endurreisir“, en það er önnur saga og ekki mikilvæg hér, í dag. Það er staðföst vissa þessarar fábreyttu alþýðukonu sem við skulum hafa hugann við.

Vissan er grundvöllur tilbeiðslunnar – vissan er þetta hús í þessu umhverfi, vissan skóp þetta hús – um það vitnar sagan. Vissan um eitthvað æðra sem stendur við einhvern óútskýranlegan stjórnvöl. Vissan um Guð – um Jesú Krist sem bróður í raunum; sem sigrandi bróður á elleftu stundu.

ii.
„Það sem er ótrúlegast við kraftaverk er að þau eiga sér stað.“ (G.K. Chesterton)

Í vitlausu veðri hröktust þeir hér sunnan við á grimmum sæ sem ferðast þúsundir mílna áður en hann brotnar á þessari strönd. Ónefndir menn á leið frá Noregi með við til húsagerðar. Í rudda sjó og fullkominni villu, í djöfullegu dimmviðri börðust menn fyrir lífi sínu, líklega á árunum upp úr 1100. Og þegar allt virtist þeim þrotið, líkamlegt þrek jafnt sem hugur, ákallar foringi þeirra æðri mátt, í örvænting hins deyjandi manns, og heitir að gefa allt það timbur sem í skipinu var til kirkjubyggingar á þeim stað sem hann næði landi heill – og þeir allir óskaddaðir. Þetta er það sem við köllum áheit – það fyrsta tengt Strandarkirkju; síðan hafa þau runnið hingað stríðum straumum því líkn og svör er hér að finna; á þessum, í þessu húsi, „himni á jörðu“.

Það skiptir engum togum að eftir áheitið birtist sjómönnunum sýn – það var sem þeir sæju engil baðaðan ljósi úti í svellþykkum sortanum – stýrði nú sá sem heitið vann og hafði að miði þessa sýn sem var stöðug og björt. Þarna var lifandi von í búningi ljóss. „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“ (Jóh. 8:12)

Já, hér var greinilega eitthvað einstakt áður en kirkjan var byggð, hér var eitthvað sem ekki verður skýrt með vísindalegum rökum raunhyggjumanna. En er engu að síður hluti af því sem alþýða manna upplifir reglulega og skáldin hafa fangað í gegnum aldirnar – og má í því sambandi minnast á orðin sem Shakespeare leggur Hamlet í munn þegar hann á tali við vin sinn Hóras minnir á að okkur er ekki ætlað að skilja alla hluti: „Það er til fleira á himni og jörðu, Hóras, en heimspekina þína dreymir um.“ (Hamlet I.v. 165-166 /Þýð. Helgi Hálfdanarson)

Nokkru síðar rann skipið upp í sandvík varða grjóti og klöppum á báðar hendur. Þar heitir nú Engilsvík. Hvarf þá hinn logandi engill en dagsbirta Drottins tók við. Þegar skipverjar fóru að átta sig á því hvað gerst hefði, og hvar þeir í raun væru staddir, sáu þeir að ljósveran hafði vísað þeim í gegnum snúið sund á milli háskalegra skerja og boða – að hrjúfri strönd sem hafði tvo granna; ólgandi úthafið og svartan skríðandi sand. En skipverjar stóðu við sitt – eftir þessar miklu herkjur – og reistu hina fyrstu Strandarkirkju úr viðnum sem skipið flutti – hið fyrsta áheit var staðreynd; hið síðasta er enn ekki komið í þetta hús – í þetta hús sem er „ekkert venjulegt hús, heldur himinn á jörðu. Því Drottinn himnanna býr hér“.

iii.
„Ég veit að Messías kemur – það er Kristur“ – segir samverska konan.
„Ég er hann, ég sem við þig tala“ – svarar hann.

Vissan og svarið – og vissan um svarið – eru ástæða áheita. Vitanlega eru menn oft komnir með bakið upp að vegg – eins og það er kallað – þegar þeir heita, þegar þeir leita til þess sem veröldin er svo gjörn á að hafna; þess sem lúrir þó í brjósti svo margra. Ég er að tala um trúna á það sem okkur er hulið – en vissuna um tilvist þess. Ég er að tala um það sem Páll dregur svo snilldarlega saman í þessu fræga versi: „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11:1)

Það er 5. júní. Árið er 2017. Þið eruð í Strandarkirkju í Selvogi. Djákninn í predikunarstólnum talar um kraftaverk – um áheit, um hrakningasögu sem auðveldast væri að afgreiða út af borðinu sem týpíska helgisögn sem kynslóðirnar hafa mótað og tilreitt eftir behag í aldanna rás; nánast lygasögu. Líklega er djákninn brjálaður.

Í dag trúir fólk ekki á svona bábiljur, í dag er nútíminn, í dag er merkilegasti tími allra tíma – allt gamalt er glatað, ekkert er nema það sé hægt að panta það á Ali Express, kaupa það í Costco eða framkvæma það með appi hvenær sem er sólarhringsins. Uppfinningarnar, snilld mannsins, vella út úr hverjum kima, eldflaugum er skotið og drónar fljúga, tölvurnar lifa sjálfstæðu lífi og segja „nei“ þegar þeim hentar, ekkert heimili blívur nema þar séu fjórtán þráðlausar fjarstýringar og raddstýrðir ljósarofar og samverkandi kaffivél. Bíllinn segir okkur hvenær við eigum að beygja og hvenær að bremsa; hann passar sjálfur að við séum á réttum vegarhelming og hann heimtar sjálfur að fara í uppherslu og lætur vita ef það gleymist vettlingur í aftursætinu. Við höfum ekki hugmynd um hvernig neitt af þessu virkar – en trúum á það samt.

Þrátt fyrir allt þetta er líka til líf. Fólk er með rabarbara í görðum og sultar jafnvel. Karlar fá vindverki. Menn gera kæfu í heimahúsum. Taka slátur. Fara í golf eða á kóræfingu. Og árstíðirnar eru á sínum stað og fiskurinn veiðist í sjónum. Og féð er rekið á fjall og aftur er smalað að hausti. Kind á lamb. Tíkin hvolpa. Kona prjónar peysu. Köttur veiðir mús. Það eru blóm í görðum og sóleyjar á engjum. Krían ver hreiðrið. Börn læra á hljóðfæri. Kerlíngar fá hælsæri. Sumir skrifa bækur en aðrir semja tónlist. Maður kaupir járnsög. Fólk verður ástfangið. Konur fæða börn. Stöku maður trúir á Guð – á Jesú Krist, krossfestan, dáinn, grafinn og upprisinn. - Og viðurkennir það.

En lífið á sér nú sem fyrr margar hliðar og fólk verður veikt. Manneskjurnar í henni veröld verða sorgmæddar og hræddar. Og ástvinir veikjast. Margvíslegar áhyggjur hrannast upp þegar auði er misskipt. Og þrengingar mannfólksins vaxa. Og það heitir á Strandarkirkju – vegna þess að allt virðist lokað; öllu virðist lokið, líkt og hjá sjómönnunum forðum tíð. Og Strandarkirkja bregst við – sem sagt er.

Körftugust er trú og tryggð
tæpan mátt að styrkja,
þó að sé á sandi byggð,
seig er Strandar kirkja.

Grunnur þótt sé gljúpur og laus,
get ég til hún standi,
guð sér sjálfur kirkju kaus
kringda marar sandi.

(Grímur Thomsen)

Þessi erindu tvö eru úr lengra ljóði eftir Grím Thomsen. Strandarkirkja sér enn um sína. Hingað berast áheit, og menn og konur um land allt fá svör. Fá líkn. Vegna vissu sinnar. Taka undir með Samversku konunni og segja með áheiti sínu: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur.“ Og hann svarar: „Ég er hann“.

Hann er hér. Andi hans er hér. Við erum hér. Við tilbiðjum hann hér. Vegna þess að:

Þetta er ekkert venjulegt hús,
heldur himinn á jörðu.
Því Drottinn himnanna býr hér.

„Það sem er ótrúlegast við kraftaverk er að þau eiga sér stað.“ (G.K. Chesterton)

Tilbeiðsla og fullvissa. Höldum okkur að þeim systrum. Strandarkirkja sér um sína. Takk Guð – fyrir þennan stað, takk fyrir þetta hús.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.