Kerfið eða fólkið?

Kerfið eða fólkið?

Ég er ekki viss um að við getum sett okkur í spor þessara einstaklinga. En okkur hættir til þess að dæma þau, rétt eins og veikindi þeirra sé þeim að kenna, líferni þeirra hafi leitt til þess að þau smituðust. Í öllu falli þurfum við að spyrja okkur hvort verið geti að þau séu ímynd þeirra sem við viljum ekki hafa samneyti við. Og við getum lært af þeim. Þau biðja aðeins um eitt: Um miskunn Drottins.

Textar Lexía / Fyrri ritningarlestur: Davíðssálmur 146 Pistill/ Síðari ritningarlestur: Galatabréfið, 5, 16-24 Guðspjall: Tíu líkþráir. Lúkasarguðsspjall 17, 11-19

Biðjum: Vertu Guð faðir ... Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Að velja veginn Það er vandratað í lífinu. Okkur gengur misvel að finna vegi sem liggja til góðs. Vegvísarnir sem við treystum á reynast misgóðir og ekki er hyggjuvit okkar sjálfra alltaf hjálplegt. Hér áðan var lesið úr 146. Davíðssálmi. Það eru ekki vandaðar kveðjur sem þau sem fara með völdin fá í þessum sálmi, svokallað tignarfólk. Orðin eru skýr: Þeim er ekki treystandi. Þau geta enga hjálp veitt. Og sálmahöfundurinn minnir á að þau eru bara mannleg, að loknu verki hér á jörðu verða þau aftur að moldu og áform þeirra að engu. Takið eftir: Hér er talað um valdafólk sem framfylgir eigin áformum en spyr ekki um vilja Drottins!

Annað gildir um Guð Jakobs, þann Guð sem við trúum á og skapað hefur þennan heim. Trúfesti hans er af öðrum heimi, í æðri mætti, ekki mannleg, heldur guðleg. Og sálmahöfundurinn telur upp hvers þessi trúfasti Guð er megnugur. Hann líknar og læknar í orðsins fyllstu merkingu. En einnig í yfirfærðri merkingu. Mörg okkar hafa upplifað þennan Guð og þá frelsun sem hér er talað um: • setið í fangelsi tilfinninga okkar og Drottinn hefur leitt okkur út • ekki séð neina lausn í erfiðum málum sem við höfum staðið frammi fyrir, lagt málið í bæn til Drottins og hann hefur opnað okkur nýja sýn • verið algerlega búin að vera að loknum erfiðum tíma og fallið í hendur Drottins sem hefur reist okkur upp.

Þannig höfum við getað valið veginn á ný, haldið för okkar áfram, í trausti þess að Drottinn muni vel fyrir sjá.

Að velja samferðafólkið Og við lesum að þessum Guði er ekki sama. Hér bendir sálmahöfundurinn á að Drottinn elskar réttláta. Kannski eigum við auðvelt með að skilja það, svona fræðilega séð. En hver er réttlátur? Ekki treystum við sjálfum okkur til að vera réttlát, þekkjum hversu oft við villumst af veginum. Og hinir? Hér eru þrír hópar nefndir sérstaklega til sögunnar sem standa undir vernd Drottins: Útlendingar, ekkjur og munaðarlausir. Og þau sem velja að treysta ekki Drottni? Orðin í sálminum eru skýr: Þau fara villur vegar. Af þessu að dæma ætti okkur ekki að reynast erfitt að velja samferðafólk, því hver getur verið betur til samferða fallinn en sá maður eða sú kona sem stendur sérstaklega undir vernd Drottins?

Verkefnið er því væntanlega að finna samferðafólk úr hópi útlendinga, ekkna og munaðarlausra. Eða hvað? Já og svo voru það þarna þessi sem nefnd eru réttlát. Þau eru í sérstöku uppáhaldi hjá Drottni. En hvernig þekkjum við þau?

Öngstræti Það er erfitt að horfast í augu við svarið við þeirri spurningu: Allt of oft áttum við okkur ekki á því að við höfum valið rangan veg, verið samferða fólki sem við hefðum ekki átt að hafa neitt með að sælda. Við höfum, rétt eins og valdafólkið sem var nefnt hér í upphafi, haft eigin fyrirætlanir, ekki spurt um vilja Drottins. Það er ekki fyrr en við erum komin í öngstræti, allt komið í óefni að ljósið rennur upp fyrir okkur: Rangur félagsskapur, röng leið.

Í þessu samhengi er mikilvægt að hlusta vel á það sem höfundur Galata-bréfsins talar um í texta dagsins: Mikilvægi þess að lifa í andanum! Hér er stefið úr sálminum endurtekið, við minnt á að fylgja Drottni skapara okkar og treysta honum fyrst og fremst. Hér er dregin upp svart-hvít mynd af veruleikanum. Okkur sagt annars vegar frá einkennum þess að lifa ekki í anda Guðs. Slíku líferni er líkt við líf villidýrsins sem eltir eigin hvatir, girndir holdsins. Slíkt líferni skapar hreinasta stríðsástand þar sem manneskjan er einskis virði, rétt eins og hún sé án tilfinninga og hörmungarnar láta ekki bíða eftir sér. Hins vegar er greint frá því hverju líferni í anda Guðs kemur til leiðar. Það er hreinasta paradísarástand, svo fagurt að heimsins bestu málarar ná ekki að festa það á mynd, né bestu rithöfundar í orð.

Þessi svart-hvíta, einfalda mynd fær nokkuð hærra flækjustig þegar við horfum á okkar eigið líferni því gráu svæðin eru svo mörg. Hér þurfum við hvert og eitt að skoða þann veg sem við höfum gengið hingað til. Sum okkar velja að sækja 12-spora fundi eins og þá sem hefjast hér í kirkjunni eftir tíu daga til þess að sættast við og gera upp fortíðina. Önnur velja að leita til trúnaðarvina, ræða málin og hugsa upphátt. Enn önnur velja að skrifa dagbók eða jafnvel birta á prenti hvað þau hafa upplifað. Leiðirnar til uppgjörs eru margar. Og sum velja einnig að iðrast frammi fyrir Drottni og biðja um handleiðslu hans.

Ég fell fram fyrir fætur Jesú En oft á tíðum er það einmitt svo erfitt að falla fram fyrir fætur Jesú, iðrast þess sem við höfum gert rangt, biðja um miskunn hans. Okkur þykir jafnvel sem við hendum stoltinu út í hafsauga, séum einskis virði fyrst að við getum ekki leyst málin sjálf.

Hér erum við minnt á að við erum ekki öðruvísi en þau sem fara með völdin. Okkur hefur ekki verið treystandi til þess að taka lífið í eigin hendur, við höfum ekki reynst hjálpleg sjálfum okkur. Við erum bara mannleg, að loknu verki hér á jörðu verðum við aftur að moldu og áform okkar að engu. Við höfum valið að treysta ekki Drottni og því höfum við farið villur vega. Við erum þessi óguðlegu sem nefnd eru í textanum. Það er vilji Drottins sem skiptir máli, hann þarf að leiða okkur svo að við fáum lifað í andanum og notið þeirra ávaxta sem slíkt líferni hefur í för með sér.

Tíu líkþráir falla fram fyrir fætur Jesú Í guðsspjalli dagsins falla tíu líkþráir fram fyrir fætur Jesú og biðja um miskunn hans. Við vitum lítið um þetta fólk, aðeins að almenningsálitið var ekki á þeirra bandi. Enginn vildi né mátti hafa samneyti við þetta fólk. Það var eina ráðið sem yfirvöldin þekktu til að reyna að hindra smit. Ég er ekki viss um að við getum sett okkur í spor þessara einstaklinga. En okkur hættir til þess að dæma þau, rétt eins og veikindi þeirra sé þeim að kenna, líferni þeirra hafi leitt til þess að þau smituðust. Í öllu falli þurfum við að spyrja okkur hvort verið geti að þau séu ímynd þeirra sem við viljum ekki hafa samneyti við. Og við getum lært af þeim. Þau biðja aðeins um eitt: Um miskunn Drottins. Jesús tekur þeim vel og sendir þau til æðstu prestanna. Úrskurður þeirra hafði lífsbreytandi áhrif fyrir fólk. Ef æðstu prestarnir úrskurðuðu að þú værir líkþrár þurftir þú að yfirgefa þorpið þitt þegar í stað, varst útskúfuð / útskúfaður. Að sama skapi, ef þeir úrskurðuðu að þú værir heill heilsu fékkstu að gerast hluti af samfélaginu aftur.

Takk Drottinn Níu eru uppteknir af hinum lífsbreytandi úrskurði æðstu prestana. Einn kemur til baka. Hann hugsar ekki um kerfið. Hann hugsar um Drottinn. Hann fellur fram fyrir Jesú og þakkar honum, lofar hann, upplifir að honum hefur verið miskunnað. Jesús saknar þess að hinir níu mæta ekki til að þakka fyrir sig. Og Jesús vekur sérstaka athygli á því að sá sem kom til baka og þakkaði fyrir sig var útlendingurinn úr hópnum - sá eini sem kerfið náði ekki til?

Nú þekkjum við einn réttlátan: Það er útlendingurinn sem féll fram fyrir fætur Jesú og þakkaði fyrir sig. Hver eru hinir níu?

Kirkja sem tekur afstöðu í anda Jesú Við sem kirkja þurfum að taka afstöðu í anda Jesú. Hann forðast ekki samneyti við þau sem eru útskúfuð úr samfélaginu, hvað þá að hann styðji kerfi sem útskúfar. Jesús læknar, hjálpar fólki að gerast aftur hluti af samfélaginu. Við sem kirkja höfum útskúfað fólk úr samfélaginu og okkur er ekki að takast að gera öllum ljóst að við styðjum ekki kerfi sem útskúfa. En er það ekki vegna þess að við erum að reyna að gera það í eigin mætti?

Við sem kirkja þurfum að spyrja okkur hvort verið geti að við höfum gengið til liðs við kerfi sem svipar til þess kerfis sem æðstu prestarnir höfðu komið upp: Þeir tók ákvarðanir sem útskúfuðu fólk frá samfélaginu, tóku kerfið fram fyrir fólkið.

Föllum sem kirkja fram fyrir fætur frelsarans, biðjum um miskunn hans og mætum öll til að þakka honum fyrir! Of oft hefur Jesús þurft að spyrja: Hvar eru hinir níu?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.