Bréf á Pálmasunnudegi: Fögnum hófsemdinni

Bréf á Pálmasunnudegi: Fögnum hófsemdinni

Það er okkur öllum hollt að íhuga á þessum Pálmasunnudegi, hvaða mynd við drögum upp í eigin huga af innreið Jesú þennan dag. Ég held að við þurfum hvert og eitt að spyrja okkur hvar við stöndum, hvort það sé sýnilegt að við höfum tekið afstöðu, valið að fylgja Jesú Kristi.

Kæri vinur. Í dag er Pálmasunnudagur - Fyrir margt löngu fagnaði mannfjöldinn Jesú og margir lögðu pálmagreinar á götuna eða sveifluðu þeim.* Í hugum flestra voru pálmagreinarnar ekki bara einhverjar trjágreinar. Pálmtré voru jafnvel talin heilög og mörgum þótti þau vera tákn um líf og sigur. Þannig minnti pálmatréið Ísraelsmenn á sjálfstæðið og sigursælan konung þeirra.** Rómverjum var því væntanlega brugðið, því þeir þekktu þessi tákn og þessar sögur. Um leið hefur margur átt erfitt með að ráða í táknin, því Jesús kom ríðandi á ösnufola, sem hins vegar var tákn um ofbeldislausan friðarkonung og hófsemd.

Úr myndasafni bibl�ubrúðugerðarfólks � Þýskalandi
Í gegnum aldirnar hafa listamenn dregið upp ýmsar myndir af þessari innreið Jesú í Jerúsalem. Elsta listaverkið sem til er og sýnir innreiðina er frá árinu 359 og er til sýnis í Páfagarði í Róm. Umræddri höggmynd svipar til ýmissra listaverka sem sýna konunga og keisara, hátt upp hafna yfir lýðnum. Listaverkið þykir mér meðal annars merkilegt fyrir þær sakir að það er hoggið í marmara og er hluti af líkkistu Junius Bassus, sem var háttsettur embættismaður í Róm. Junius Bassus hafði snúist til kristni stuttu fyrir andlát sitt, en verið heiðinn fram að þeim tíma.# Þessi háttsetti embættismaður hafði tekið afstöðu, valið að fylgja Jesú Kristi.

Listamaður sem dregur upp mynd af innreið Jesú í Jerúsalem gerist (ó)meðvitað hlutdrægur. Menningarbakgrunnur listamanna virðist til dæmis oft hafa ráðið því hvort að Jesús sat klofvega á ösnufolanum eða einvega (samhliða mynd úr nútímanum myndi sýna Jesús stundum sitjandi í hnakk og stundum í söðli). Að sama skapi mótar lífssýn og söguþekking listamannsins það hvernig myndin er dregin upp. Ef listamaðurinn er upptekinn af ösnufolanum, tákninu um friðarkonunginn og hófsemdina, má ætla að myndin sýni alþýðlegan Jesú og fljótandi mörk milli lærisveina hans og almennings. Ef listamaðurinn er hins vegar upptekinn af táknmyndunum að baki heilögum pálmagreinunum, er ekki ólíklegt að klæðnaður og fas Jesú sé í ætt við upphafna konunga og mörkin skýr milli lærisveina hans og almúgans.

Það er okkur öllum hollt að íhuga á þessum Pálmasunnudegi, hvaða mynd við drögum upp í eigin huga af innreið Jesú þennan dag. Ég held að við þurfum hvert og eitt að spyrja okkur hvar við stöndum, hvort það sé sýnilegt að við höfum tekið afstöðu, valið að fylgja Jesú Kristi. Og ég held að kirkjan öll þurfi að spyrja sig hvaða mynd hún dregur upp af þessum atburði og hvernig hún yfirfærir þá mynd á kenningar og daglegt líf í kirkjunni.

Stundum þegar ég hugsa um það hvernig ég hafi upplifað innreið Kirkju Jesú Krists á Íslandi á viðkomandi vordegi á Íslandi fyllist ég vonleysi, því mér þykir sem þar fari purpurabúinn steingervingur sem situr klofvega á vélknúnum, líflausum, þykjustuasna. Mér þykir sem lærisveinarnir hafi tekið á sig mynd varðhundanna sem ekkert þekkja nema eigið ágæti og gegna fyrst og fremst einni skyldu, þeirri að gæta eigin hagsmuna. Og ég ákalla þann Jesú Krist sem ég þrái að þekkja og finn hann ekki í þessari (hug)mynd minni.

Stundum þegar ég hugsa um það hvernig ég hafi upplifað innreið Kirkju Jesús Krists á Íslandi á viðkomandi vordegi á Íslandi fyllist ég ólýsanlegri gleði, því mér þykir sem þar fari alltumvefjandi kærleikur sem situr einvega á látlausum ösnufola. Ég sé ekki mörkin milli lærisveinanna og almennings og upplifi að hinn minnsti á meðal okkar skipti jafn miklu máli og Jesús Kristur sjálfur. Hagsmunir heildarinnar ganga framar hagsmunum einstakra. Og ég ákalla þann Jesú Krist sem ég þrái að þekkja og gleðst yfir því að finna hann í þessari (hug)mynd minni.

Fögnum hófsemdinni - er yfirskrift þessa pistils. Með yfirskriftinni vil ég hvetja til þess að við einblínum á táknið sem felst í því að Jesús Kristur kemur ríðandi á ösnufola. Hófsemdin hefur verið mér hugleikin undanfarið og þá ekki hve síst vegna þess að Gunnar Hersveinn kemst svo vel að orði um hana í bók sinni Þjóðgildin, en þar bendir hann á að þegar dansinn dunar, þá er það hófsemdin sem situr eftir ein. Það er enginn til í að bjóða henni upp í dans, hún þykir ekki skemmtileg, ekki vinsæl, ekki merki um það að framfarir séu í nánd.

Að þetta sé ekki auðvelt, er mér ljóst og vil ég sérstaklega benda á pistil sr. Döllu Þórðardóttur hér á trú.is þar sem hún minnir á að fyrsta kraftaverk Jesú framkvæmdi hann þegar allir höfðu þegar fengið hóflega nóg af víni. Einnig bendir hún á að það hafi verið heill englakór sem söng við jötu Jesúbarnsins og að Kristur gefur fyrirheit um líf í fullri gnægð.

Það hefur ekki breyst frá fyrsta Pálmasunnudegi: Það er erfitt að ráða í táknin. Megi góður Guð blessa okkur og hjálpa okkar að átta okkur á því hvað hann vill segja okkur með þessum táknum. Sjálfum mér óska ég þess að það verði sýnilegt í mínu lífi að ég hef tekið afstöðu að fylgja Jesú. Kirkjunni minni óska ég þess að hún fylgi Jesú Kristi. Með kærri kveðju Djákninn á Glerá

---------------------------------------- * sjá Jóh. 12, 13-15; Mt. 21, 1-11; Lk. 19, 28-40. ** sjá 1. Makk. 13,51 og 2. Makk 14,4.