Orð dagsins

Orð dagsins

Hrós er nokkuð sem mér þykir vera of lítið notað. Að minnsta kosti vildi ég óska þess að ég væri duglegri að hrósa öðrum. Þegar ég lít í eigin barm uppgötva ég að það kemur þó oftar fyrir að ég hrósi einhverjum sem er að byrja eitthvað nýtt, kemur með nýung inn í starfið, gerir eitthvað bráðsnjallt og skemmtilegt.

Hrós er nokkuð sem mér þykir vera of lítið notað. Að minnsta kosti vildi ég óska þess að ég væri duglegri að hrósa öðrum. Þegar ég lít í eigin barm uppgötva ég að það kemur þó oftar fyrir að ég hrósi einhverjum sem er að byrja eitthvað nýtt, kemur með nýung inn í starfið, gerir eitthvað bráðsnjallt og skemmtilegt. Ef aftur á móti er um viðburð eða starf að ræða sem hefur verið á sínum stað árum, jafnvel áratugum saman, hættir mér til að gleyma því að hrósa. Ég tek því sem sjálfgefnum hlut að af því þetta hefur alltaf verið svona, þá bara sé þetta svona. Kirkjukórinn, presturinn, meðhjálparinn og kirkjuvörðurinn hafa alltaf mætt í messuna, árum saman, því ætti ég að taka mig til og hrósa þeim? Grundvöllur allrar velgengni kirkjunnar byggir á trúfesti þeirra sem þjóna henni, því að þeim takist – þó árin líði - að sinna sínu starfi af alúð og trúmennsku og taki með sömu gleði og ánægju á móti kirkjugestum eins og á fyrsta deginum í starfinu, full tilhlökkunar og gleði, handviss um handleiðslu Guðs. Í dag vil ég leyfa mér að hrósa þeirri alúð og trúmennsku sem er að baki því starfi sem nefnist “Orð dagsins”. Í 38 ár hefur verið hægt að hringja í símanúmer „Orð dagsins“ og hlusta á valinn biblíutexta. Frá upphafi hefur þessi þjónusta verið skráð í símaskrána og er þar enn: 462 1840. Sagan að baki þessari þjónustu er stutt. Tveir áhugamenn um kristniboð áttu samtal um þetta sameiginlega áhugamál sitt. Það voru nafnarnir Jón Oddgeir Guðmundsson og Jón Hilmar Magnússon. Þar gat Jón Hilmar þess að henn hefði heyrt frásögn í erlendri útvarpssendingu um að víða væru kristnir menn að koma upp símaþjónustum þar sem einstaklingar gætu hringt inn daglega og hlustað á texta úr Biblíunni ásamt stuttri hugleiðingu. Samtalið gaf Jóni Oddgeir engan frið og hann fann köllun í hjarta sér til að ganga í málið. Fljótlega fór hann á fund símstöðvarstjórans á Akureyri þar sem hann sótti um símanúmer og samdi um leigu á símsvara frá Pósti og Síma, en á þeim tíma hafði stofnunin einkaleyfi á dreifingu slíkra tækja. Frá upphafi hefur Jón Oddgeir einnig fjármagnað þessa starfsemi og meðal annars gefið út Bílabænina svonefndu til þess að standa undir þessum kostnaði. Það væri óskandi að við hefðum fleiri þá elju og þann dugnað sem krefst þess að halda sleitulaust úti sjálfboðinni þjónustu áratugum saman til eflingar kristni hér á jörð. Ein leið til að sækja sér hvatningu til slíks gæti verið að hringja í „Orð dagsins“ 462 1840.