Hvaða máli skiptir einn sykurmoli?

Hvaða máli skiptir einn sykurmoli?

Leiksviðið er heimili fjölskyldu í fátækrahverfi í Teheren, höfuðborg Íran. Aðstæður eru erfiðar þessa dagana. Móðirin á heimilinu veik, smábarnið hóstandi, fimmta mánuðinn í röð gátu þau ekki borgað leiguna. Peningarnir eru búnir þennan mánuðinn. Hvaða máli skiptir þá einn sykurmoli?

Leiksviðið er heimili fjölskyldu í fátækrahverfi í Teheren, höfuðborg Íran. Aðstæður eru erfiðar þessa dagana. Móðirin á heimilinu veik, smábarnið hóstandi, fimmta mánuðinn í röð gátu þau ekki borgað leiguna. Peningarnir eru búnir þennan mánuðinn. Hvaða máli skiptir þá einn sykurmoli?

sykur

Eitt af því sem vekur athygli áhorfandans þegar horft er á írönsku kvikmyndina Children of Heaven er smá atvik sem gerist að kvöldi dags hjá fjölskyldunni sem myndin fjallar um. Faðirinn situr á gólfinu og heggur til sykurmola. Honum hefur verið falið þetta verkefni til undirbúnings hátíðar sem Sjía múslimarnir í hverfinu hans halda fljótlega. Hrúgan af sykurmolunum er stór.

Sara, sjö ára færir föður sínum te að drekka. Hann spyr hana hví hún hafi ekki komið með sykur handa honum. Hún verður hissa og spyr pabba sinn hvers vegna hún þurfi að koma með sykur, hann sitji fyrir framan hrúgu af sykri og hann svarar:

Ég get ekki tekið af þessum sykri. Moskan á þennan sykur. Mér hefur aðeins verið falin umsjón með sykrinum, ég á að gera hann tilbúinn fyrir hátíðina.

Hann heggur litla sykurmola úr stórum sykurklumpi. Það var enginn sem vigtaði sykurklumpinn áður en hann fékk hann í hendurnar. Það mun enginn setja sykurmolana alla á vigt til að mæla hvort að þeir skili sér allir. Enginn utan fjölskyldunnar myndi taka eftir því þó hann fengi sér einn sykurmola út í teið.

En hann ber virðingu fyrir verkefninu sem honum var falinn. Hann sýnir guði sínum lotningu með því að leggja sig allan fram. Líka þegar í ljós kemur að það er ekki til neinn molasykur á heimilinu. Þetta er ekki hans sykur.

Hann er trúr í hinu smæsta. Af því að honum hefur verið kennt það. Af því að trú hans er slík. Af því að hann vill vera heiðarlegur.

Í þessu vil ég reyna að taka þennan mann til fyrirmyndar. Ég vona að þú takir í sama streng. Hans trú, hans menning kenndi honum að vera trúr í hinu smá.

Jesús segir það líka við okkur og heitir okkur verðlaunum fyrir. En við þurfum að læra að hlusta og skilja:

yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. (Matt. 25.21)

Áhugasömum er bent á að myndin er til sýningar á Kirkjulistarviku Akureyrarkirkju, í kvöld mánudagskvöldið 9. maí kl. 20:00