Hvað hefur forgang

Hvað hefur forgang

Er Guð og húsið hans þá bara fyrir mig þegar ég þarf á að halda ... En þá reynir mest á trú og rækt við Guð og kirkju þegar ekkert sérstakt er í húfi. Hvað hefur þá forgang?

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark 16.1-7

Ég þakka, Jesús, þér að þú hefur gefið mér þá von, sem vetri breytir í vor er sælu heitir. því linnir lof mitt eigi á lífsins sigurdegi. Amen

Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

Við fögnum sigri. Í garð er gengin sigurhátíð sæl og blíð. Við óskum hvert öðru gleði og fagnaðar og þökkum Guði. Sigurinn er hans í okkar þágu. Jesús Kristur sem dáinn var á krossi, er upprisinn. Lofgjörðin ómar. Nú hljómi lofsöngslag frá lífsins hörpu í dag.

Konurnar hlupu skelfingu lostnar í ofboði frá gröfinni á páskadagsmorgni. Gröfin var tóm, en skilaboðin voru skýr: “Þér leitið að Jesú frá Nsaret, hinum krossfesta. Hann er upprisinn”. En við sem stöndum eins og í fótsporum kvennanna við gröfina erum ekki óttaslegin, heldur fögnum í innilega í kærleika og trú.

Þetta voru hin stóru þáttaskil. Sorginni hafði verið snúið upp í sigur lífsins. Ljósið hafði borið sigurorð af myrkrinu. Jesús hafði oft sagt lærisveinum sínum að hann myndi líða í niðurlægingu og deyja, en rísa upp frá dauðum. Þeir höfðu hvorki meðtekið né skilið hvað Jesús átti við. Slík hugsun var svo fjarri öllum veruleika og ekki síður á skjön við Gyðinglega hefð um konunglega sigra í stríði sem helgaði og tryggði land fyrir þjóð og voldugt ríki. Í hugum lærisveinanna var Jesús Messías eins og Davíð konungur sem myndi leysa undirokaða þjóð úr fjötrum og reisa til sjálfstæðis og myndugleika á ný. En á páskadag þá upplukust augu lærisveinanna. Sigurinn sem í upprisunni var fólginn var meiri og stærri en nokkur veraldleg aðgerð manna gæti til leiðar komið og staðfest var á hvítasunnudag fimmtíu dögum síðar þegar heilagur andi komi yfir þá og kirkjan varð til. Við þekkjum þessa sögu. Enginn atburður hefur haft meiri áhrif á líf á jörð, en upprisa Jesú Krists frá dauðum.

Höfum við meðtekið og skilið hvað í sigri upprisunnar felst? Trúum við?

Það er víst að hér er margt ofar mannlegum skilningi eins og segir í heilögu orði að “friður Guðs sem æðri er öllum skilningi varðveiti hjarta vort og hugsanir vorar í Kristi Jesú, Drottni vorum” og við þekkjum orðin úr kærleiksóðnum sem segja: “Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis”. Skuggsjá er spegill. Í honum sjáum við sjaldnast mikið meira en myndina á sjálfum okkur. Hversu mjög við reynum að rýna í spegilinn, þá eykst þekkingin lítið við það og verður áfram í ráðgátu. Upprisan var lærisveinunum leyndardómur þegar Jesús reyndi að skýra út fyrir þeim afdrif sín. Og sumir þeirra trúðu ekki fyrr en þeir höfðu fengið að þreifa á naglaförunum eftir að hann var upprisinn. Þeir fengu að sjá og þreifa augliti til auglitis. En við fáum að sjá og þreifa á reynslu sögunnar, að upprisan var meira tímabundin uppákoma, tískubylgja sem sagan myndi gleyma og afmá. Upprisa Krists var að sönnu sigur lífsins.

Enginn atburður hefur verið meira rannsakaður og ræddur, fleiri bækur hafa verið skrifaðar um atburði bænadaga og páska en um nokkur önnur atvik í mannkynssögunni og öllum vísindalegum aðferðum hefur verið beitt sem maðurinn hefur valdi sínu til að komast að sannleiksgildi og kjarna máls. Eigi að síður er upprisan mörgum leyndardómur, en hefur lifandi þýðingu fyrir líf, af því að kraftar upprisunnar eru að verki hér og nú, leyndardómur sem er aflvaki í lífi fólks. Því Guð var, er og verður og máttarverkin hans hafa reynst fólki til hjálpræðis. Um það vitnar sagan um samband Guðs og manns í gegnum aldirnar. Og gerir enn.

Það er rétt, að upprisan brýtur öll lögmál náttúru og eðlisfræða. En veröldin, og allt sem í henni bærist, verður heldur ekki nákvæmlega sett undir mæliker, ekki frekar en að málbandi verði skellt á fegurðina og vonina, ástina og réttlætið svo úr verði ein óvéfengjanleg niðurstaða. Í fótboltanum eru úrslitin skýr í lok leiks, en enginn getur mælt tilfinningarnar og áhrifin sem þau geta haft í för með sér. Við vitum ekki einu sinni hvað morgundagurinn ber í skauti sínu. Lífið er á svo mörgum sviðum, í öllum litbriðum sínum og atvikum, leyndardómur í innsta eðli sínu, eigi að síður opinberum sem mótast af svo mörgu og verður ekki alltaf útskýrð með orðum.

Það skynjum við svo vel þegar fyrir augu og eyru berast verkin öll á sviði listarinnar sem sótt hafa viðfangsefni sín í máttarverk trúarinnar. Og þar eru flestir á einu máli, að hvergi rís listin hærra í sköpun sinni en einmitt á sviði kristinnar trúarinnar. Myndlistin og ljóðin, tónlistin og frásögnin, þar sem trúin fær hold, atvikin í lífi Jesú, samleið hans á jörð með fólki og orðið sem hann mælir, eins og lifandi veruleiki hér og nú, leyndardómur sem opinberast í verkum manna og boðar: Kristur er upprisinn og er mitt á meðal okkar og þráir að eiga samleið með okkur.

Þess vegna er kirkja hér í Breiðdalnum, ekki einvörðungu fallegt hús Guði helgað, heldur samfélag sem hefur valið Guð að kjölfestu fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.

Er Guð og húsið hans þá bara fyrir mig þegar ég þarf á að halda? Til að skíra og ferma barnið mitt, samfagna á sérstökum tímamótum í lífi mínu, ganga í heilagt hjónaband, kveðja ástvin hinstu kveðju og geyma í mold? Allt stórviðburðir sem við veljum umgjörð í skjóli almáttugs Guðs í bæn og von um nálægð hans og blessun. En þá reynir í raun mest á trú og rækt við Guð og kirkju þegar ekkert sérstakt er í húfi. Hvað hefur þá forgang?

Við erum alltaf að velja okkur verk á dagskrá til forgangs. Mörg láta sér nægja að berast með tímans straumi og elta fjöldann. Fylgja tískunni. Sum láta sér fátt um finnast og loka sig af. Aðrir fara óhræddir ótroðnar slóðir í leit að sönnum lífsgæðum. Það er athyglisvert hve lífið er í föstum skorðum og bundið vana frá degi til dags. Við viljum öll njóta öryggis og trausts í lífsháttum okkar. Er það svo að Guð og kirkjuganga eigi ekki við nema við einstök tækifæri og við sérstakar aðstæður þegar ég þarf nauðsynlega á að halda? Þetta eru spurningar sem mikilvægt er að velta fyrir sér opnum huga og fórdómalaust.

Samfélagið í kirkjunni nærist af rækt safnaðarins við boðskap upprisunnar með lifandi þátttöku í helgihaldinu. Sinnuleysi og doði gagnvart gefandi félagsstarfi bitnar með tímanum á þroskanum til að njóta lífsins. Sú hætta vofir yfir að verða í sporum þeirra sem ekki skildu hvað Jesús átti við í orðum og verkum sínum, eða glepjast af fordæmi ríka mannsins sem ekki skildi neitt í neinu fyrr en ævin var öll liðin hjá, tímanum, þegar tækifærin öll blöstu við, var kastað á glæ. Það er of seint að lifa lífinu þegar það er liðið hjá. Að nýta og njóta, skapa og þakka, á meðan dagur er, það er dýrmæt hvatning og gefur lífinu svo mikið gildi í innihaldsríkum gæðum. Það opinberar leyndardómur upprisunnar.

Eins og við njótum nú af einlægni er við komum saman á páskadagsmorgni og samfögnum sigri upprisunnar í lofgjörð og þakkargjörð.

Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottinn vorn, Jesú Krist. Amen