Leyndardómurinn

Leyndardómurinn

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Þorlákskirkja 7. febrúar 2016 - (Sunnudagur í föstuinngangi)

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“
(Matt 3.13-17)

Þetta er skemmtileg frásögn hjá guðspjallamanninum. Við gætum uppfært hana til nútímans:

„Sææællll! Til í að skíra mig?“
„Nei ég fer ekkert að skíra þig. Skírð þú mig frekar, þú ert alveg með´etta.“
„Hei, láttu ekki svona, þú bara skírir mig.“
„Nei, þú skírir mig og málið er dautt.“
„Nei, sko, Jói – þú átt að skíra mig, það bara þannig.“
„Ókei – látum vaða.“

Og svo bara skírir Jói, sem er betur þekktur sem Jóhannes skírari, Jesús Krist í ánni Jórdan. Og málið er dautt.

Nei annars, það er ekki dautt. Þvert á móti, málið er til orðið, það lifnar á þessari stundu. Mál málanna hefur göngu sína, vex og eflist og …

Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

Þið skulið ekkert vera að pæla mikið í þessari dúfu – kannski var bara Mattheus guðspjallamaður áhugamaður um fugla, ég er það reyndar líka – minn uppáhaldsfugl er kría – ég hefði haft kríu þarna hefði ég verið hann, enda er ég fæddur í miðju kríuvarpi – en það er önnur saga og kemur þessu máli ekki við. Við sættum okkur við dúfuna – hún er tákn. Leyndardómur.

Ég hefði samt haft kríu …

En sum sé, þarna er ekkert dautt; þarna verður nýtt til. Nýtt upphaf: Frelsari okkar þiggur skírn.

En hvað er það? -þetta stapp þeirra á milli í byrjun, um það hvort Jóhannes eigi að skíra Jesús eða Jesús Jóhannes? Hvað er það sem þarna er verið að segja okkur?

Jú, það er verið að birta okkur leyndardóm. Ef svo má að orði komast, svo langt sem það nær að hægt sé að birta leyndardóm án þess hann hætti þá um leið að vera leyndardómur.

Við þurfum fyrst og síðast að athuga hvers vegna Jesús bregst við með þessum hætti – vill ólmur fá Jóhannes til þess að skíra sig enn ekki öfugt. Jesús veit að Jóhannesi hefur verið falið vald, Jesús veit að Jóhannes hefur hlutverk, Jesús veit að með því að þiggja – ég undirstrika – þiggja, skírnina af Jóhannesi hefur hann uppfyllt ritningarnar. En það er meira í þessu – eins og við komum að síðar …

ii.
Jóhannes hafði þegar þarna var komið skírt fólk, margmenni, hann prédkaði líka að mikil tíðindi væru í vændum. Löngu áður hafði koma hans sjálfs verið boðuð, hjá Jesaja spámanni:

„Greiðið Drottni veg um eyðmörkina,
ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni …“
(Jes 40:3)

En á öðrum stað, hjá spámanninum Malakí, stendur:

Sjá, ég sendi sendiboða minn, hann á að ryðja mér braut. Drottinn, sem þið leitið, kemur skyndilega til musteris síns og boðberi sáttmálans, sem þið þráið, hann kemur, segir Drottinn hersveitanna. (Mal 3:1a)

Og nú var komið að því við ána Jórdan:

„Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.

Fólkið sem hafði áður gengið til skírnar hjá Jóhannesi gekk þar til syndaaflausnar, til nýs lífs og hreinna. Það undirbjó sig þannig fyrir þann sem Malakí spámaður hafði vitnað um að kæmi til þess að frelsa og hreinsa. Það var venjulegt syndugt fólk, fólk eins og ég og þú sem kom til Jóhannesar – í trú. Það upplifði eftirvænting og spennu því þessi dularfulli maður sem klæddist úlfaldahári og át engisprettur og villihungang – boðaði enn annan sem koma skyldi að upplyfta boðskapnum í nýjar og hærri hæðir. Og það sem var enn dularfyllra var að Jóhannes þekkti ekki Jesú – ekki persónulega, (þrátt fyrir að ég hafi sviðsett samtal þeirra kumpánlegt hér við upphaf þessarar prédikunar). Hann boðar komu Jesú meðal annars með þessum orðum:

Ég skíri ykkur með vatni til þess að þið takið sinnaskiptum en sá sem kemur eftir mig er mér máttugri og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. (Mt. 3:11)

En um kynni þeirra segir Jóhannes á öðrum stað: „Sjálfur þekkti ég hann ekki.“ (Jóh 1:31a)

Samt, já – samt. Vill Jesús þiggja skírn hjá Jóhannesi. Já, ég sagði „þiggja“. Hann vill þiggja það af Jóhannesi að fá að vera líkur þeim sem eru syndugir – syndlaus sem hann er – og leita hjálpræðis í gegnum skírn. Hann vill standa með þeim sem eru – munið þið – eins og ég og þú, eins og þið. Hann vill setja sig í okkar spor – hann gerir það þar og þá og hann gerir það nú. Hann felur sig Guði föður sínum á þessari stundu – við sem eigum að breyta eftir gjörðum hans eins vel og við getum – felum okkur honum í skírninni, Kristi.

Mikilvægast hér er að gefa því gætur að þetta er leyndardómur, mystík, sem í raun er ekki á okkar valdi. „Skírnin grundvallast ekki á trúnni, heldur trúin á skírninni,“ segir Lúther. Það vill segja: Guð gengur til liðs við samfélag okkar – líkt og Jesús gengur í guðspjalli dagsins til liðs við synduga og breyska – hann játast okkur sem frelsari og á því þarf ég að byggja sem syndugur maður. Á því þarft þú að byggja sem maður eins og ég. Á því byggjum við trúna á Jesú Krist. Guð er grundvöllurinn eini, hann kannast við þig hverja stund, allt frá upphafi – því færum við börnin til skírnar í þeirri vissu að hann þekki þau öll; það er ekki löngun okkar í serimóníur og prjál og flottar myndir úr kirkjunni sem ráða því að barnið er velkomið! Það er velkomið vegna þess að Jesús tók af skarið og þáði skírnina af Jóhannesi. Það er velkomið vegna þess að hann gjörðist maður og bauð að við yrðum upphafin úr valdi myrkurs og syndar og boðin velkomin inn í ríki Hans, sonar Guðs, og til þess óendanlega kærleika sem þar veitist öllum.

iii.
Á skírnardegi er vatn í skírnarfontinum sem þarna stendur. Þar verður til leyndardómur – ekki leyndardómur vélarinnar sem festir atburðinn stafrænt á mynd – heldur hinn, þar er til reiðu fyrir einstaklinginn gjöfin sem felst í göngunni með frelsaranum frá Nasaret. Þetta er gjöf sem veitir fyrirgefningu syndanna og það sem meira er eilífan aðgang að Guði – verndi maður gjöfina. Vernd gjafarinnar felst einmitt, meðal annars, í fermingunni. Þið ykkar hér inni sem eruð fermd eða ætlið brátt að fermast hafið gert opinbert að þið ætlið að fara vel með þessa gjöf, rækta hana og gera hana í lífi ykkar sýnilega öðrum. Það er ekki lítið!

Samband ykkar hvers og eins við leiðtoga lífsins, Jesú Krist er síðan leyndardómur sem þið fægið í gegnum lífið. Æfið í gegnum lífið. Með ástundun, bæn og lofgjörð – með því að breyta líkt og Kristur þegar tækifærin til þess gefast. Og það vantar ekki tækifærin eins og öllum mun kunnugt.

Við ykkur, krakkar sem nú gangið til fermingarfræðslu og sinnið henni af myndarskap og elju – mætið vel og hagið ykkur frábærlega – við ykkur vil ég segja: Hugsið um leyndardóminn ykkar með Jesú Kristi, hugsið um litlu hlutina sem sanna fyrir ykkur að helgin er nær þegar þið gangið hingað inn einu sinni í viku. Hvers vegna ætli það sé að þið ærslist á leið hingað en gangið hljóðlega í helgidóminn? Ekki höfum við fræðararnir verið að hvetja ykkur til þess – þið hafið alltaf gert það, þið talið lægra og umgangist kirkjuna ykkar af fádæma virðingu. Hvað er það? Hvað er það þegar fólk gengur að skírnarskál með vígðu vatni og vætir fingurgóma og leggur að augum eða aumum blettum? Hvað er það? Hvað er það þegar litla barnið í skírnarkjólnum þarf að fá að sofna í honum að aflokinni skírn? Hvað er það? Hindurvitni kann einhver að segja, hjátrú og þvæla segir enn annar – en ég segi; það er leyndardómurinn. Leyndardómurinn sem er tengdur þessum stærsta leyndardómi af öllum leyndardómum, Guðdómnum.

Sömuleiðs er dúfan leyndardómur – og krían, ef út í það er farið. Það að segja skilið við hið gamla og fá að vera nýr eða ný í boði Krists er leyndardómur. Við þurfum ekki að skilja hann en það yndislegt að fást við hann – út á það ganga t.d. allar listir; bókmenntir, málaralist og tónlist – það er glíman við leyndardóminn.

Í hvert einasta sinn sem barn er borið til skírnar hljómar rödd frá himnum og segir: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Alltaf, nema þegar röddin segir: „Þessi er mín elskaða dóttir sem ég hef velþóknun á.“

Er það ekki dásamlegur leyndardómur?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.