Stjörnuskraut hrapinu merkt.

Stjörnuskraut hrapinu merkt.

Jólasagan er nefnilega ekki á yfirborðina né nokkuð annað það, sem í Biblíunni stendur, þar er einmitt allt á dýptina og þess vegna er innihald hennar svona mikið og krefjandi verkefni og verður jafnvel yfirþyrmandi ef trúin fylgir ekki lestri, því í trúnni er auðmýkt og virðingu fyrir hverju viðfangsefni fyrir sig að finna.

“Flugeldaskraut! líkt og skartgripabúðum sé skotið á loft upp mörgum í röð og splundrist þar allar í einni svipan. Ofan hrynur hið gneistandi skrúð! Kvöldmyrkrið hopar, það hniprar sig utar í heiminum, snöggvast. Við störum til lofts allir jafn glaðir, því eldarnir tindra fyrir alla jafnt, þar á hver sinn hlut. Og stjörnurnar gleymdar um stund bak við skrautið stjörnuskraut sem er hrapinu merkt. Í sýningarlok munu ljós þeirra birtast í langferð um tómið, á markaðri braut.

Ég reikna með að nóg verði af flugeldaskrautinu í kvöld. Það mun lýsa upp um stund, en er síðan hrapinu merkt eins og skáldið Hannes Pétursson kemst svo vel að orði. Raunveruleikinn á bak við glysið kemur síðan aftur í ljós með öllum sínum kostum og göllum. Stjörnurnar gleymdar um stund bak við skrautið. Virðist vera ríkt í okkur manneskjum að klæða raunveruleikann í umbúðir, sem er víst ein af vörnum okkar gagnvart honum. Með umbúðunum viljum við gleyma eitt augnablik, gleðjast eða flýja. Það geta verið ótal skýringar þar á bak við, jafn margar og aðstæður okkar gefa til kynna. En eitt er víst að alltaf stöndum við frammi fyrir raunveruleikanum aftur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Stjörnuskrautið er nefnilega hrapinu merkt. Meira að segja jólaboðskapurinn er settur í sparifötin, það gera allir í hátíðarljómanum, kirkjunnar þjónar eru þar engin undantekning, á bak við ljómann er síðan raunveruleikinn, hann er þarna alltaf, barnið fátæka vafið reifum í jötu, reiðir sig alfarið á unga og óreynda foreldra, er þurfa síðan að flýja með það undan grimmum harðstjóra.

Þetta er raunveruleg saga og framhald hennar heldur áfram að vera jafn raunverulegt, því barnið sem óx úr grasi, klæddi aldrei neitt í umbúðir, sagði allt umbúðalaust, gekk óttalaust til móts við lífið og til móts við dauðann. Óttinn er afl, sem fær okkur sömuleiðis til að klæða í umbúðir. Eins og við erum iðulega kát og oft hrifnæm þegar við störum til lofts við áramót, þá er það líka óttablandið. Ár kveður með sigrum og ósigrum og nýtt ár er framundan, sem við vitum ekkert hvernig verður né hvað mun fela í sér. Óvissan er hverri manneskju krefjandi. Þess vegna þykir okkur ef til vill gott að hverfa eitt augnablik inn í ljósadýrð flugeldaskrautsins og annað það skraut, sem jólum og áramótum fylgir. Þar á víst hver sinn hlut. Þar eigum við það öll sameiginlegt að velta innst inni fyrir okkur raunveruleikanum á bak við skrautið, sem eins og við sömuleiðis þekkjum getur verið ljúfur, en líka óvæginn.

Margt er það sem margur maðurinn vill hafa fast í hendi, ef ekki hreinlega allt. Krafan um fleiri svör í hinni tilveru. Þess vegna vaknar ósjaldan gremjan yfir því að vísindin skulu ekki vera búin að svara fleiri spurningum en raun ber vitni. Vísindin hafa reyndar svarað mörgu og eru enn að uppgötva eitt og annað nytsamlegt og gott, og meira að segja eitt og annað, sem varasamt þykir. Þessi fyrrnefnda gremja getur bitnað á trúnni. Sumir vilja draga í efa eitt og annað, sem trúin varpar ljósi á. Sumir vilja etja saman trú og vísindum, sem geta vel unnið saman og rætt saman eins og blessun Páfa yfir Darwinisma opinberar, þar sem þróunarkenningin þarf ekki að ganga í berhögg við sköpunarsögu heilagrar ritningar, enda hafa ófáir misskilið sköpunarsöguna í gegnum tíðina og talið hana vera vísindarit um það hvernig veröldin varð til. Sköpunarsagan leggur ekki áherslu á það hvernig veröldin varð til, heldur hvers vegna hún varð til. Biblían talar um tilgang og aflið þar á bak við.Og þá velta ýmsir fyrir sér Betlehemsfrásögninni og sannleiksgildi hennar. Sú frásögn er í raun ný sköpunarsaga, þar sem nýr Adam fæðist, Kristur sem ferskur sáttmáli Guðs við mannfólkið. Það fæst svo sem ekkert út úr því að fela sig á bak við skrautið í þeim efnum, heldur takast á við þá frásögn, þá helgisögn. Ég hreifst reyndar af kjarnyrtri og góðri skilgreiningu góðs kollega míns og vinar sr. Sigurðar Árna Þórðarsonar á jólasögunni, þar sem hann segir og nú vitna ég beint í þann ágæta mann:

“Jólasagan um komu Jesúbarnsins er sögð ár eftir ár. Hún er grunnsaga, helgisaga, með ýmsum einkennum yfirnáttúrusögu, sem heitir á fræðislangri legenda. Svona helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu - heldur dýptina. Þær skiljast ekki með einföldum hætti, heldur eiga sér plús eða ábót, sem ekki birtist nema með því að lúta að sögunni, hugsa um hana, upplifa hana – eða breyta henni.” Tilvitnun lýkur.

Jólasagan er nefnilega ekki á yfirborðina né nokkuð annað það, sem í Biblíunni stendur, þar er einmitt allt á dýptina og þess vegna er innihald hennar svona mikið og krefjandi verkefni og verður jafnvel yfirþyrmandi ef trúin fylgir ekki lestri, því í trúnni er auðmýkt og virðingu fyrir hverju viðfangsefni fyrir sig að finna. Trúin gerir nefnilega ekki bara ráð fyrir hlutunum, heldur styður þig í því að uppgötva þá. Og það er aldrei of seint. Þér gefst stöðugt ný tækifæri til þess, nýtt ár kemur, ný áramótaheit verða strengd eins og oft er nú til siðs og er vel.

Hvernig væri að takast á við dýpt Biblíunnar, dýpt lífsins og prófa þig áfram með trúnna að leiðarljósi. Ég persónulega stefni að því ásamt því að taka af mér nokkur kíló af holdi, efla þannig sál og líkama.Mér leiðist þegar verið er að afgreiða hlutina sem vonlausa eða helbera lygi, í slíkri afgreiðslu felst leti eða ótti. Mér leiðist þegar verið er að kalla fólk fífl eða hálfvita ef það vogar sér að vitna um trú sína.

Á sama hátt leiðist mér þegar verið er að kalla trúlausa sömu fúkyrðum af því að þeir hafa ekki fundið trúnna, þeir haldi bara áfram að leita og Guð veri með þeim í því stóra verkefni. Mér leiðist þegar fólk er að þrátta um það hvort það sé hættulegt eða ekki fyrir litlu börnin að heyra um Jesú. Heyrði reyndar meira um þetta talað sem þjónandi prestur á höfuðborgarsvæðinu og umræðan er þrautseig. Stöndum bara vörð um börnin okkar og gerum ekki Jesú hættulegan í huga þeirra, því þá missa þau af því að takast sjálf á við dýpt trúarinnar og marka sér braut í þeim efnum. Vinnum saman, eflum samvitund og horfum þannig saman til nýs árs. Það huggar og styður, enda hvatti Jesús Kristur fólk til samfélags og samhjálpar. Það eru sönn lífsgæði að vera hluti af samfélagi, þar sem fólk stendur saman og hjálpast að af heilindum og af trú. Það er ekkert skraut, það er ekkert yfirborð, það eflir manneskjuna í því að takast á við óvissu raunveruleikans, hvort sem það er tengt lífinu eða dauðanum.

Og margt er það í þessu samfélagi hér á Grenivík, sem eflir bjartsýni frammi fyrir nýju ári. Starfsemin í þessu byggðarlagi er ekki kreppukennd. Góður skóli, gott og vel rekið sveitarfélag, kröftug fyrirtæki, sem stækka og bæta við sig starfsfólki, Darri, Pharmartica og fiskvinnsla hefst í frystihúsinu strax á nýju ári. Guð blessi þetta blómlega atvinnulíf og megi það bera ávöxt hverjum íbúa hér til heilla og blessunar.

Svona atvinnulíf krefst elju og dugnaðar, eins og ræktun trúarinnar, að ég tali nú ekki um þolinmæði eins og kemur fram í dæmisögu Jesú hér í kvöld, þar sem maður nokkur sá ekki ávöxt fíkjutrésins eftir að hafa leitað ávaxtar á því og ekki fundið þrjú ár í röð, en rödd skynsemi og trúar bað hann um að bíða og gefa því tækifæri til að bera ávöxt, gefa því eitt ár enn og áburð um leið. Allt hefur sinn tíma, öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma, segir í spekiriti Prédikarans í Gt. Já og hvort sem það er að byggja upp fyrirtæki, uppgötva dýpt lífsins, eða byggja upp heila þjóð, þá hefur það sinn tíma, en eitt er víst að það kemur ekki með því að rýna stöðugt í skraut eða yfirborð, sem er meira stundargaman er hverfur jafn fljótt og það kom. Nei það hefst á því að takast á við raunveruleikann, í trú og þar af leiðandi óttaleysi, takast á við áleitnar spurningar lífsins, sem trúin á Guð styður ótvírætt við, rétt eins og hún gerir við lestur heilagrar ritningar.

“Og stjörnurnar gleymdar um stund bak við skrautið stjörnuskraut sem er hrapinu merkt. Í sýningarlok munu ljós þeirra birtast í langferð um tómið, á markaðri braut.” Guð blessi ykkur minningar liðinnar tíðar og Guð blessi ykkur hið nýja ár, sem framundan er. Í Jesú nafni. Amen.