Biblían

Biblían

Á þessum degi eigum við í auðmýkt að þakka fyrir að eiga Biblíuna á Íslensku; það er ekki sjálfgefið.

Hveragerðiskirkja 19/2 2017 - Biblíudagurinn

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

i.
Góðir kirkjugestir, nú hrúgast allt á sama daginn. Í dag er Konudagurinn og við skulum ekki hafa fleiri orð um það, nógsamlega getur sá dagur verið þjakandi öllum sómakærum karlmönnum. Og fjárútlátin maður minn … jamm!

En í dag er líka Biblíudagurinn; hann er léttari fyrir pyngjuna, haldbetri fyrir andann og minna fitandi. Biblíudagurinn er ætíð haldinn hátíðlegur annan sunnudag í níuviknaföstu; hann er því „hræranlegur“ eins og sagt er um þær hátíðir sem hlaupa um dagatalið eins boxari sem í góðu standi dansar um í hringnum. Sem að vísu er alls ekki hringur heldur ferhyrningur. Í ár er Biblíudagurinn sum sé 19. febrúar, og ber upp á fyrsta dag Góu.

Á þessum degi eigum við í auðmýkt að þakka fyrir að eiga Biblíuna á Íslensku; það er ekki sjálfgefið. Um leið erum við minnt á að lesa hana og kynna okkur boðskap hennar. Við megum lesa hana – það er heldur ekki sjálfgefið að menn megi það – þó svo að þeir eigi eitt stykki af þeirri ágætu bók. Hér er ég með eintak frá Sovétríkjunum sálugu frá árinu 1968 – ég nefnilega safna Biblíum – þetta Biblíueintak lítur út eins og leiðarvísir um hvernig skipta eigi um kúplingsdisk og gírkassa í öllum gerðum Moskóvíts frá upphafi. Kápan er úr plasti, olíuþolin virðist mér, og á henni stendur akkúrat ekki neitt – ekki nokkur vísbending um hvaða skræða þetta er. Þannig var það haft svo menn og konur gætu verið rólegri að fletta upp í þessu, t.d. í neðanjarðarlestinni eða í almenningsgarðinum. Þetta var bók sem var svo sem „leyfð“ – eða öllu heldur látið eiga sig að væri til. En verr séð að menn væru að lesa í henni – hvað þá tileinka sér efnið.

Hér á Íslandi höfum við frjálsræði, ennþá í það minnsta, í þessum efnum. Hið íslenska Biblíufélag var stofnað 10. júlí 1815 og er elsta starfandi félag á Íslandi. Það vinnur að útgáfu, útbreiðslu, kynningu og síðast en ekki síst notkun Biblíunnar. Hið íslenska Biblíufélag er öllum opið, árgjaldið er vægt, og í félaginu má finna fólk úr öllum kirkjudeildum og úr hinum ýmsu kristnu trúfélögum. Félagið stendur í samstarfi við ámóta félög erlendis og stuðlar að útbreiðslu þessarar bókar bókanna um víða veröld og helst þar sem þörfin er brýnust vegna ofsókna gegn Kristni – og eða vegna sárrar fátæktar.

ii.

Og hvað er hún svo, þessi Biblía?

Ég svara því svo sem ekki hér í stuttu máli, innhald hennar er með þeim hætti að heimspekingar, bókmenntafræðingar, guðfræðingar og margar aðrar sortir af vitringum hafa ekki komist nema að hluta ofan í alla þá speki. En hér skipta spekingar ekki nema takmörkuðu máli. Það er Orðið sem blívur – það er máttur þess og dýrð; það er leyndardómurinn sem hefur gert það að verkum að þetta er útbreiddasta bók veraldar, sú mest selda, sú umtalaðasta, sú sem er mestur brunnur allra brunna fyrir skáld og rithöfunda að ausa úr þegar þeir stinga niður penna, óþrjótandi uppspretta listverka af öllum toga um aldir. Þetta er Biblían.

Hún er auðvitað safn rita, rita sem menn komu sér saman um að þar skyldi fá inni. En þetta ritsafn hefur auðvitað mátt standa undir ágjöf frá misvitrum mönnum sem reyna að tala það niður, líkt og boðskapinn sem í því er. Algeng rangfærsla um tilurð Biblíunnar er:
„Það var nú bara á einhverju kirkjuþingi í Níkeu sem það var ákveðið af elítu kirkjunnar hvað ætti að vera í þessari bók.“ Og þeir sem lærðari vilja teljast, ég heyrði einmitt í einum um daginn sem orðaði þetta svona: „Það var nú bara á kirkjuþinginu í Níkeu árið 325 að menn hnoðuðu þessu saman, þeir sem réðu voru að setja lýðnum fyrir.“

Þá fáum við reglulega að heyra að í Biblíunni sé samsafn af þjóð- og draugasögum frá Austurlöndum; þetta „Austurlöndum“ er ætíð látið fylgja. Hvað ætli það sé?

Þetta er auðvitað saman súrruð þvæla, allt nema það að það var kirkjuþing í Níkeu árið 325. Fimmbókarrit Gamlatestamenntisins var þegar til staðar, og fornir textar Hebrea – lögbækur þeirra og spádómsrit.

Nýjatestamentið mótaðist í grasrótinni; það má sjá í því hvaða rit voru flest til í uppskriftum og hvað hafði farið víðast; hvað hafði fylgt fólki og hvað fólk vildi lesa og hafa til hliðsjónar. Það var alls ekki kirkjuþing sem gerði þá texta gildandi sem hafa lifað – það var fólkið sjálft, hinir kristnu, sem valdi ritin með notkun sinni.

Handritarannsóknir hafa sýnt okkur að við lok 2. aldar höfðu ákveðin bréf öðlast sérstöðu – voru þau rit sem fólkið vildi. Þetta voru: Guðspjöllin fjögur, Postulasagan, þrettán bréf eftir Pál, það sem við þekkjum í dag sem Fyrra bréf Péturs og Fyrsta Jóhannesarbréf. Þessi rit virðast hafa verið notuð nánast allstaðar þar sem kristnir fóru. Hin sjö sem útaf standa voru alls ekki óþekkt en höfðu ekki sömu útbreiðslu: Hebreabréfið, Jakobsbréfið, Annað Pétursbréf, Júdasarbréfið, Annað og Þriðja Jóhannesarbréf og Opinberunin.

Þessi útbreiðsla og mikla dreifing rímaði fullkomlega við hugmyndir Ágústínusar kirkjuföðurs; hann setti fram áherslur um það hvað hann teldi mikilvægast að rataði í Nýjatestamentið.

- Ritin skulu eiga sér postullegan uppruna. Þá meinar hann að þau séu rituð af postula eða nánum samstarfsmanni hans.
- Ritin skulu innibera postullegt efni. Það vill segja, þau áttu að bera vitni boðskap Krists.
- Ritin urðu að hafa almenna útbreiðslu. Þar á hann við að þau skuli vera þekkt sem víðast og fólki kunn.

Það var svo á kirkjuþinginu í Karþagó árið 397 – þá voru vel að merkja flestir dauðir sem sóttu Níkeuþingið árið 325 – sem endanleg ákvörðun var tekin um þau 27 rit sem nú eru í Nýjatestamentinu. Ritin voru ekki negld niður með ákvörðun að ofan, ókunn rit í áróðursskyni, eins og stundum er þvælt um og kjaftað þegar þarf að höggva með orðum.

Nei, þetta voru nákvæmlega þau rit sem fólkið hafði valið, kosið sér til samfylgdar frá því þau fóru að berast um og bera vitni fagnaðarerindinu um Jesú Krist – þann sem sigraði dauðann.

iii.

Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“

Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“

(Markúsarguðspjall 4:26-32)

Þessi orð Markúsar guðspjallamanns eru ekki um Biblíuna, enda vissi hann ekkert um neina Biblíu. En, þau eru samt eins og sniðin að henni og ég ætla að leyfa mér að leggja örstutt út af þeim með Biblíuna í forgrunni.

Í upphafi sáir Kristur orðum í þá jörð sem mennirnir eru; hann þröngvar ekki boðskap sínum upp á neinn, hann bara sefur og vakir, nætur og daga, á meðan sæðið, - orðin, vaxa og dafna í hugum okkar. Hann veit svo sem ekki með hvaða hætti orðið kann að þróast með hverjum og einum – enda erum við bornir frjálsir menn. En þá kemur að orð hans bera ávöxt, Biblían er hluti þeirrar uppskeru.

Já, - Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu.

Hvað er smæst? – fyrst orð, svo eitt lítið tákn, þá einn bókstafur og svo aftur orð og svo bók og svo … Líkt er það mustarðskorni. Sjáið þið hvernig guðspjall dagsins og Biblían og saga hennar fallast í faðma?

Og ekki síst hér:

En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.

Þetta orð hefur reynst öllum orðum meira, orðið sem Hann gróðursetti í hjörtu mannanna. Og svo gróskumikið hefur það tré orðið, Biblían sjálf, að við mannfólkið í heiminum getum hreiðarað um okkur í skugga þess. Biblían getur orðið okkur skjöldur og hlíf – er okkur skjöldur og hlíf ef við leyfum. Biblían getur orðið okkur viðspyrna til lífs og framgangs – sömuleiðs, ef við leyfum.

Í dag er Biblíudagurinn – og svo er víst líka Konudagurinn – fari nú hver til síns heima kyssi konu sína (sé á annað borð einhver kona að kyssa) og fletti svo upp í Biblíunni. Ég skipti mér ekki af því hvort menn fara líka í bakarí eða blómabúð …

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.