Sorg og fjalllendi

Sorg og fjalllendi

Þegar sorgin knýr dyra hjá manni er eins og allt breytist og maður er kominn á slóðir, sem eru flóknar og erfiðar og auðvelt að festast í. Allt getur orðið eins og urð og grjót og upp í mót eins og segir í ljóðinu “Fjallganga” eftir Tómas Guðmundsson.
Sigurður Arnarson - andlitsmyndSigurður Arnarson
14. maí 2012

Eftirfylgd við syrgjendur Erindi flutt hjá Krabbameinsfélaginu 10. maí 2012

Ég ætla að ferðast aftur í tímann, nánar tiltekið í Öræfasveitina.

Hún vann sem kaupakona á bæ einum. Hafði misst ástvini og leið illa.

Húsmóðirin á bænum ætlaði að skreppa upp á fjall næsta morgunn í grasatínslu og hafa kaupakonuna með. Þær áttu að koma til baka seinnipartinn.

Svo lögðu þær af stað klukkan þrjú að nóttu til.

Kaupakonunni fannst teygjast úr ferðinni og smá saman áttaði hún sig á því að húsmóðirin var á leið upp á hæsta tind Íslands.

“Ertu viss um að við séum á réttri leið, gætum við ekki villst í þokunni? Hér er allt hvítt, dautt, engin kennileiti. Auður (húsmóðirin) kallaði um öxl: ég er á réttri leið en ert þú á réttri leið?Hafi þér einhvern tíma fundist þú vera á réttri leið, reyndu þá að finna hana aftur.........“ “Þá sagði Auður: líttu í norðvestur, þar sérðu hæsta tind landsins, er hann ekki indæll í sólinni, langar þig ekki þangað? Nei, Auður mín, hló Karitas (kaupakonan) því að hún vissi að konan var að grínast, eftir því sækist ég nú ekki. Eftir hverju sækist þú þá? spurði Auður. Við eigum stutt eftir á tindinn eftir þess löngu og hörðu uppgöngu. Mundirðu ekki harma það allt þitt líf að hafa látið kjarkleysi koma í veg fyrir að þú næðir honum? Ég legg ráðin í þínar hendur ljósa góða. Nú ræður þú stefnu okkar. Förum við á tindinn eða förum við niður?”

Og áfram héldu þær göngunni.

Karitas undraði sig svo á því hversu óþreytt hún varð allt í einu, einhver afgangsorka, sem hún hafði ekki vitað um, og hugurinn varð svo undarlega kyrr, eins og hugsanir hennar hefðu flúið, það var svo mikill léttir. Síðar sagði hún við Auði:

“Ætlarðu upp alla þessa brekku? Og beið ekki eftir svari því á þeirri stundu var sem allt brysti innra með henni, flóðgarðar létu undan þungu briminu, grjótið tvístraðist um líkama hennar, hún varð að hleypa hamförunum út, þessu brjálaða brimi. Tárin streymdu niður kinnarnar eins og kátur lækur, sem losnar úr klakabrynju..........“. “Ég hef misst alla, grét Karitas ofan í klútinn, börnin mín, systur, Káru mína, manninn minn, allt farið, allt farið... “ “Og nú er Guð að að refsa mér, ég veit það, grét Karitas. Því ætti hann að refa þér eitthvað frekar en mér? sagði Auður. Æ það er svo margt, sem þú veist ekki.”

Síðar sagði Auður við Karitas: “Þú misstir sjálfa þig, það er rétt, en reyndu ekki að finna þig aftur. Það gengur aldrei. Finndu heldur aðra og nýja Karitas.”Þegar þær komust upp á tindin var, sem að vitund þeirra opnaðist og allt varð svo létt. ______________________

Frásögn þessi er úr bókinni “Karitas án titils” eftir Kristínu Marju Baldursdóttur.

Fyrir nokkrum árum síðan fékk konan mín bókina senda til sín frá vinkonum. Tilefnið var að amma hennar, sem var okkur mjög kær, var þá nýlátin og vinkonurnar sendu þessa bók með hlýju korti.

Í bókinni er sorginni lýst meðal annars í fjallgöngu upp á Öræfajökul.

Auður leiddi Karitas áfram. Ræddi fyrst um grasaferð, sem endar með göngu upp í hæstu hæðir í íslensku landsslagi. Skref fyrir skref, vörðu fyrir vörðu leiddi Auður Karitas upp. Fylgdi henni eftir, var henni leiðsögn og styrkur í erfiðri göngu og ekki bara líkamlegri göngu heldur í andlegu ferðalagi, sem sorginni er hægt að líkja við.

Sorgarstigum er lýst, eins og til dæmis; afneitun, depurð, losti, reiði, hyllingum, nýju mynstrunum og samþykkt á magnaðan hátt.

Auður sagði Karitas að í sorginni hafi hún misst sjálfa sig og hvatti hana til að finna annan og nýjan farveg í lífinu, nýja Karitas. ________________________

Þegar sorgin knýr dyra hjá manni er eins og allt breytist og maður er kominn á slóðir, sem eru flóknar og erfiðar og auðvelt að festast í. Allt getur orðið eins og urð og grjót og upp í mót eins og segir í ljóðinu “Fjallganga” eftir Tómas Guðmundsson. ________________________

Styrk hönd er rétt fram. Hönd manneskju, sem er ekki hrædd, kalinn eða útbrunnin heldur örugg og traust. Hönd manneskju sem hugar að sjálfri sér og sinni líðan. Manneskju, sem hreyfir sig, hvílir sig, borðar reglulega og ræktar sig andlega. Manneskju, sem er ekki föst í áhyggjuneti eða eigin hagsmunabaráttu svo einhver dæmi séu nefnd. Manneskju, sem er í orði og verki náunga sínum náungi. Manneskju, sem er ekki að þykjast að vera eitthvað annað en hún er. Kemur fram eins og hún er klædd, mannleg með kosti og galla. ___________________ Syrgjandi er reiður Guði fyrir að leyfa ekki barninu sínu að lifa lengur. Finnst að Guð hefði frekar átt að taka sig til sín frekar.

Einnig er viðkomandi hissa á lækninum, sem sagði frá krabbameinsgreiningunni að viðkomandi ætti að láta alla ættingja og vini vita af krabbameininu til þess að viðkomandi fengi styrk og þrek frá sínum nánustu. En þveröfugt átti sér stað, flestir forðuðu sér þegar þeim voru sagðar fréttirnar, ræddu ekki við viðkomandi og létu hann í friði þannig að einmanaleikinn helltist yfir. Það vildi hann ekki, hann þurfti og vildi að sér yrði fylgt eftir. Fengi stuðning sinna, en þau hurfu flest. Af hverju? Voru þau hrædd? Við hvað?

Skiptir eftirfylgd máli fyrir þau sem greinast með lífshættulega sjúkdóma eða þau, sem syrgja látna ástvini? Já, hún skiptir máli. En það skiptir einnig máli hvernig eftirfylgdin fer fram. Hvað er sagt, hvernig og hvenær. Hið forkveðna “Aðgát skal höfð í nærveru sálar” skal haft, sem leiðarljós.

Vörðurnar, sem gengið er eftir þurfa að vísa rétta leið. “Að vera eða að gera.” Maður sé rétt útbúinn og tilbúinn að takast á við aðstæðurnar, ýmissa veðra er von.

Að maður yfirfæri ekki tilfinningar sínar yfir til viðmælenda sinna. Setji sjálfum sér og öðrum skýr mörk. Spyrji sjálfan sig reglulega af því: “Hvernig líður mér og af hverju líður mér svona?” Hverjir eru styrkleikar mínir og hverjir eru veikleikar mínir? Treystu sjálfum eða sjálfri þér.

“Guð elskar þig eins og þú ert”; sagði handleiðarinn minn í sálgæslu eitt sinn við mig og augun mín fylltustu af tárum og hjartað af tilfinningum. En mér létti við þetta, að við mig væri sagt að Guð elskaði mig eins og ég er.

Reglulega er maður spurður af nákomnum ættingjum eða vinum þeirra, sem hafa fegnið erfiðar sjúkdómsgreiningar eða hafa misst; “Hvað á ég að segja? Hvernig á ég að haga mér?” Vertu þú sjálfur eða sjálf. “Heill en ekki hálfur.”

Gerðu þitt besta. Ekki forðast aðstæðurnar, taktu á þeim með því, sem þér hefur verið gefið. Lofaðu engu, sem ekki er hægt að standa við. Láttu ekki sektarkennd stjórna þér hafðu samand og gerðu það skipulega. ____________________

Færðin var þung og erfið fyrir þær niður í mót. Létt yfir Auði eins og hún hefði lokið góðu dagsverki, hún talaði hátt. Karitas hlustaði með öðru eyranu meðan hún reyndi að koma skikk á líf sitt og framtíð í huganum.

Allt í einu sagði Auður: “Heyrðu mig ljósa góða, við skulum ekki hafa orð á jökulferð okkar alveg strax. Þeir verða svo óttalega skelfdir, karlmennirnir, ef þeir frétta af slíku, þeir vilja sjálfir vera leiðsögumenn í þess háttar ferðum, treysta ekki kvennfólkinu.” Þegar niður var komið og heim í bæinn sagði Karitas börnunum sínum að um haustið færu þau norður til Akureyrar til bróður hennar og að börnin myndu fara í skóla. Aðalmálið væri að fá góða vinnu og gott húsnæði svo þau gætu alltaf verið saman. En það var kvíði í svip barnanna hennar. Karitas sagði: “Hitt er annað að ég var sárlasin þegar ég kom hingað (í Öræfasveitina), hélt engu niðri og hafði ekkert sofið í margar vikur, marga mánuði. Fólk verður lasið ef það sefur ekki. Hún stóð upp, ætlaði að fara, hætti við, stillti sér upp fyrir framan þá (syni sína), sagði hugsi: samt finn mér ég vera sofandi allan tímann. Ég var sofandi en vissi meðan ég svaf að ég var ekki sofnuð.”