Erum við samskotafælin eða glaðir gjafarar?

Erum við samskotafælin eða glaðir gjafarar?

Spurningin um samskot í kirkjum landsins við guðsþjónustur, eins og tíðkast víða um heim, hefur lengi verið ákveðið feimnismál hér á landi. Margt kemur eflaust til. Ekki er hefð fyrir því og svo er borið við að ekki eigi að tala um peninga í kirkju, alla vega ekki biðja um þá, fólk greiði jú sóknargjöld og fleira er tínt til í afsökunartón. Ábendingar talsmanna Hjálparstarfs kirkjunnar og Kristniboðssambandsins, auk tilhlaupa Kristniboðs- og hjálparstarfsnefndar kirkjunnar sýna að á brattann er að sækja. Að baki virðist liggja ótti, að ekki megi rugga bátnum, er að þessu máli kemur og trúlega eitthvað fleira.
Ragnar Gunnarsson - andlitsmyndRagnar Gunnarsson
18. október 2018

Spurningin um samskot í kirkjum landsins við guðsþjónustur, eins og tíðkast víða um heim, hefur lengi verið ákveðið feimnismál hér á landi. Margt kemur eflaust til. Ekki er hefð fyrir því og svo er borið við að ekki eigi að tala um peninga í kirkju, alla vega ekki biðja um þá, fólk greiði jú sóknargjöld og fleira er tínt til í afsökunartón. Ábendingar talsmanna Hjálparstarfs kirkjunnar og Kristniboðssambandsins, auk tilhlaupa Kristniboðs- og hjálparstarfsnefndar kirkjunnar sýna að á brattann er að sækja. Að baki virðist liggja ótti, að ekki megi rugga bátnum, er að þessu máli kemur og trúlega eitthvað fleira.

Gjafmild þjóð

Íslendingar eru gjafmild þjóð enda nýtur hún velsældar þó svo víða sé pottur brotinn og ekki sé búið að útrýma fátækt og eymd. En gjafmildin birtist ekki einungis í stórsöfnunum með aðstoð fjölmiðla heldur gefa tugir þúsunda Íslendinga reglulega, flestir mánaðarlega, til góðgerðasamtaka sem starfa ýmist hérlendis eða erlendis og sum gera hvort tveggja. Meðal samtaka er njóta þess eru Kristniboðssambandið og Hjálparstarf kirkjunnar. Ekki síst í ljósi þessarar gjafmildi vaknar spurningin: Hvað eru menn hræddir við? Fer orðspor kirkjunnar á hliðina við samskot? Er það ekki frekar trúverðugt að hún og þá söfnuðurinn sjálfur lætur sig aðra varða með þessum hætti?

Í nokkrum kirkjum höfuðborgarinnar, t.d. Hallgrímskirkju og Grensáskirkju, hafa verið tekin samskot allan ársins hring, í hverri einustu guðsþjónustu í langan tíma. Samskot hafa verið tekin í Tómasarmessum í Breiðholtskirkju í tvo áratugi. Einhverjir tilburðir til lengri og styttri tíma hafa verið gerðir annars staðar. En það er engin ástæða til að láta þar við sitja, enda reynslan úr fyrrnefndum kirkjum mjög góð. Margir þakka fyrir þetta tækifæri. Bæði Kristniboðssambandið og Hjálparstarfið njóta þessa ríkulega. En hvernig er unnt að gera þetta svo vel fari?

Lagt á djúpið

Fyrsta skrefið er að kynna hugmyndina. Það má gera í tveim eða þrem guðsþjónustum. Auðvelt er að byrja á að safna fyrir ákveðnu verkefni, s.s. að styrkja kirkjubyggingu í Eþíópíu eða Keníu, nám guðfræðinema, rekstur biblíu- eða guðfræðiskóla, verkefni sem tengist beinu boðunar- og safnaðarstarfi eða þróunarsamvinnuverkefni. Þetta þarf þó ekki en getur auðveldað það að fara af stað. Því næst er að byrja og kynna samskotin þannig að þetta sé tækifæri, engin skylda og sjálfsagt að láta söfnunarkörfuna ganga framhjá. Þeir sem eru ekki með peninga, en vilja styrkja málefnið, gætu fengið upplýsingar um bankareikning viðkomandi. Eðlilegast er að taka samskotin í guðsþjónustunni sjálfri, frekar en þegar gengið er út.

Ráðsmenn góðra gjafa

Samskot eru jafnframt tilefni til að minna á, að okkur er trúað fyrir gjöfum lífsins, ekki einungis okkar vegna, heldur líka svo við getum blessað aðra. Sá sem gefur minnir sig jafnframt á að peningar eiga ekki að stjórna okkur. Það er ekki okkar eiginlegi fjársjóður. Með gjöfum okkar játum við trú okkar á að Guð er sá sem sér fyrir okkur enda hefur hann skapað okkur og gefið getu og hæfileika til að starfa. Þannig eru gjafir okkar til starfsins í Guðs ríki einnig þakkargjörð til Guðs.

Hér hefur verið minnst á Kristniboðssambandið og Hjálparstarf kirkjunnar, tvenn samtök sem eru nátengd kirkjunni. Þá má bæta við Hinu íslenska biblíufélagi og Gídeonfélaginu. Sums staðar er hvatt til samskota til annarra sérstakra verkefna eða samtaka eða í líknarsjóð safnaðarins. Gott er að vera með reglu og viðmið til hvers er safnað á hverjum tíma. Ef ekkert er skipulagt gerist heldur ekkert. Jafnvel á sérstökum fráteknum dögum, eins og biblíudeginum og kristniboðsdeginum er ótrúleg tregða til að standa að samskotum svo vel fari. Þessu má breyta. Það er engin skömm að taka samskot. Ef Drottinn hefur blessað mig, hví skyldi ég þá ekki blessa aðra?

Í nágrannalöndunum er þó nokkur hluti af tekjum kristniboðssamtaka kominn frá söfnuðum landsins. Söfnuðir á Íslandi þurfa að vakna og láta sig varða að fagnaðarerindið berist út um heim og að neyð náungans, heima og heiman, sé mætt með kærleika og virðingu í þakklæti til Guðs og gleði yfir að fá að gefa.

Er ekki kominn tími til að taka samskot?