Konur til aukinnar ábyrgðar!

Konur til aukinnar ábyrgðar!

Nýtt Kirkjuþing kom saman í lok október s.l. og eins og venja er var kosið nýtt Kirkjuráð fyrir yfirstandandi kjörtímabil í lok þings. Í annað skipti frá upphafi voru kosin í Kirkjuráð tvær konur og tveir karlar.

Nýtt Kirkjuþing kom saman í lok október s.l. og eins og venja er var kosið nýtt Kirkjuráð fyrir yfirstandandi kjörtímabil í lok þings. Í annað skipti frá upphafi voru kosin í Kirkjuráð tvær konur og tveir karlar. Kynjasamsetningin í Kirkjuráði var sú sama á meðal kjörinna fulltrúa frá árinu 2002 til 2005. Nú sitja því í Kirkjuráði ein kona og einn karl úr hópi vígðra fulltrúa og ein kona og einn karl úr hópi leikra. Fimmti fulltrúinn í Kirkjuráði er Biskup Íslands sem situr þar vegna embættis síns. Þar sem kona gegnir nú embætti Biskups Íslands eru konur í fyrsta skipti í hreinum meirihluta í Kirkjuráði. Þetta eru eiginleg kaflaskil í starfi íslensku kirkjunnar og þeim ber að fagna.

Að lokinni kosingu fulltrúa í Kirkjuráð á Kirkjuþingi haustið 2010 skrifaði ég pistil sem birtist á tru.is undir yfirskriftinni „Vantraust á vígðar konur?“, þar sem engin vígð kona var í hópi kjörinna fulltrúa í Kirkjuráði annað kjörtímabilið í röð. Tæplega fjórum árum áður hafði ég skrifað annan pistil sem einnig birtist á tru.is þar sem ég lýsti vonbrigðum með hlut vígðra kvenna á Kirkjuþingi sem hafði þá hrapað úr rúmum 33% niður í tæplega 17%. Allt frá árinu 2002, þegar konum fjölgaði frá einni konu í sex, hefur hlutur kvenna á Kirkjuþingi verið mjög breytilegur. Tvö kjörtímabil í röð voru konur tæplega helmingur í hópi leikra fulltrúa, en á nýju Kirkjuþingi eru þær aðeins 35%. Vígðar konur eru nú 33%, en alls eru 10 konur af 29 fulltrúum á yfirstandandi þingi.

Hér má sjá kynjasamsetningu á Kirkjuþingi allt frá árinu 2002, en þá var í fyrsta skipti kosið til Kirkjuþings eftir að jafnréttisáætlun kirkjunnar tók gildi 1. janúar 1999: Kirkjuþing 2002–2005

Fulltrúar alls: 21 Konur: 6 (29%) Karlar: 15 (71%) Vígðir fulltrúar: 9 Konur: 3 (33%) Karlar: 6 (67%) Leikir fulltrúar: 12 Konur: 3 (25%) Karlar: 9 (75%)

Kirkjuþing 2006–2009

Fulltrúar alls: 29 Konur: 10 (35%) Karlar: 19 (65%) Vígðir fulltrúar: 12 Konur: 2 (17%) Karlar: 10 (83%) Leikir fulltrúar: 17 Konur: 8 (47%) Karlar: 9 (53%)

Kirkjuþing 2010–2013

Fulltrúar alls: 29 Konur: 11 (38%) Karlar: 18 (62%) Vígðir fulltrúar: 12 Konur: 3 (25%) Karlar: 9 (75%) Leikir fulltrúar: 17 Konur: 8 (47%) Karlar: 9 (53%)

Kirkjuþing 2014–2017

 
Fulltrúar alls: 29 Konur: 10 (34%) Karlar: 19 (66%) Vígðir fulltrúar: 12 Konur: 4 (33%) Karlar: 8 (67%) Leikir fulltrúar: 17 Konur: 6 (35%) Karlar: 11 (65%)


Vissulega snýst kynjafnrétti um fleira en hausatölu. Að á Kirkjuþingi sitji jafnmargar konur og karlar tryggir ekki að raddir kvenna heyrist til jafns við raddir karla, hvað þá að konur og karlar deili jafnri ábyrgð og njóti sömu virðingar innan kirkjunnar okkar. En tölurnar segja engu að síður sína sögu. Íslenska þjóðkirkjan hefur sett sér metnaðarfull markmið um að konur og karlar eigi að standa jafnt að vígi og þeirra kraftar og hæfileikar skuli nýtast til jafns á vettvangi kirkjunnar.

Því markmiði verður ekki náð fyrr en að konur og karlar eiga jafnan aðgang að ábyrgðarstöðum innan kirkjunnar. Kynjahlutfall á nýju Kirkjuþingi sýnir að við eigum enn langt í land. Aftur á móti kýs ég að líta svo á að kynjasamsetning Kirkjuráðs gefi ástæðu til bjartsýni um að í framtíðinni muni konur vera kallaðar til enn meiri ábyrgðar innan íslensku þjóðkirkjunnar svo að hæfileikar þeirra og kraftar megi nýtast enn betur innan veggja hennar.