Bylting í hjálparstarfi innanlands

Bylting í hjálparstarfi innanlands

Hjálparstarf kirkjunnar eru fyrstu hjálparsamtökin hér á landi til að breyta aðstoð úr biðröð og mat í poka í inneignarkort í verslunum. Þetta skref er til fyrirmyndar og það er reisn yfir því.

Styrkir til kærleiksþjónustu

Hjálparstarf kirkjunnar eru fyrstu hjálparsamtökin hér á landi til að breyta aðstoð úr biðröð og mat í poka í inneignarkort í verslunum. Þetta skref er til fyrirmyndar og það er reisn yfir því. Frá þessu er sagt í Margt smátt sem fylgdi með Fréttablaðinu um helgina. Þar eru þessar breytingar kynntar. Þær eru bylting og löngu tímabærar.

Allir sem sjá vilja vita að aðstoð við efnalítið fólk hefur margfaldast á liðnum árum og að margir nýir hafa bæst í hópinn vegna gjörbreyttra aðstæðna eftir Hrun. Umræður hafa verið miklar og ýmsir hafa hneykslast á þeim aðferðum sem hefur verið beitt. Þá er átt við biðraðir eftir mat í poka. Hjálparsamtök hafa ekki haft möguleika á að leyfa umsækjendum að velja innihald pokans nema í litlu mæli og ef viðkomandi hefur haft uppburði í sér til að segja frá sérþörfum sínum t.d. vegna ofnæmis eða sjúkdóms.

Byltingin felst einmitt í því að nú getur sá sem fær aðstoð valið þær nauðsynjar sem hann þarf mest á að halda í verslunum með inneignarkorti sínu. Það að afhenda inneignarkort  er hins vegar mun dýrari leið en að gefa mat. Fyrirtæki hafa oft gefið vörur af miklum rausnarskap en ekki er enn ljóst hvort þau gefi afslátt á vörum sem fólk verslar beint hjá þeim. En þrátt fyrir það þorir Hjálparstarfið að breyta um aðferð í þeirri von að vel gangi að afla fjár. Þess vegna er nú hafin söfnun til að gera tilraun með inneignarkortin til 7 mánaða. Reynslan verður svo metin og þá verður vonandi hægt að halda áfram á þessari nýju braut.

Allir sem hafa starfað við hjálparstörf vita að það er alls ekki sama hvernig hjálp er veitt. Hún verður að hafa markmið og Hjálparstarfið hefur alltaf litið á aðstoð sína sem neyðaraðstoð en ekki framfærslu til lengri tíma.  Það er í sjálfu sér ekki að breytast en sú reynsla sem hefur skapast eftir Hrun veldur því að nú verður bæði boðið upp á fjármálaráðgjöf og fjölskyldumeðferð.

Það hefur verið spenna í aðstoð við efnalitla hér á landi. Þá er ég ekki bara að tala um spennu og óánægju með biðraðirnar heldur líka samstarf á milli þeirra sem vilja gefa þurfandi nauðsynjavöru. Hjálparsamtök hafa ekki forgangsraðað á þann hátt að ákveðinn hópur hafi verið veitt aðstoð fram yfir aðra og aðeins Hjálparstarfið hefur skráð nákvæmlega hvers konar  aðstoð er veitt og hvaða aðilum þó að sjálfsögðu þannig að þagnarskylda sé virt. Þessa skráningu hafa yfirvöld geta notað til að sjá hvar kreppir mest að.

Það hefur sýnt sig að það eru barnafjölskyldur sem eiga erfiðast með að sjá sér farborða. Þess vegna eru það barnafjölskyldur sem geta fengið inneignarkortin sem nú er verið að taka upp. Þessi hjálp er enn sem fyrr skilgreind sem neyðaraðstoð en ekki framfærsla. Fólk sem ekki hefur börn á framfæri sínu á áfram kost á að fara til annarra samtaka sem bjóða aðstoð með daglegar nauðsynjar. Hjálparstarfið hefur veitt margs konar aðra hjálp eins og fatagjafir og fleira og það stendur enn öllum þurfandi til boða auk ofangreindrar aðstoðar með fjármál og fjölskylduráðgjöf.

Að lokum vil ég óska Hjálparstarfinu til hamingju með að bylta aðferðum í hjálparstarfi á Íslandi.