Mynd kyrrðar í óreiðu alls

Mynd kyrrðar í óreiðu alls

Það er mynd kyrrðar mitt í óreiðu sem dregin er upp af því þegar konurnar gengu árla morguns hægum skrefum að klettagröfinni er Jesús hafði verið lagður í til hinstu hvíldar. Sól nýs dagas kastaði geislum sínum á þurran jarðveginn, gulleitt rykið þyrlaðist upp undan sandölum þeirra og lagðist hljóðlega niður aftur á jörðina.

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum? En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður. Mark. 16.1-7

Drottinn við þökkum þér og lofum þig, að við fáum að fagna á þessari hátíð og gleðjast yfir upprisu þinni, að þú lifir og ert mitt á meðal okkar. Við þökkum þér að við fáum að vera með. Líka við sem erum veik að trúa og við sem eigum bágt með að skilja hvað sigur þinn merkir. Fyll okkur sigurvissu og gleði, sem þráir að syngja og hrópa af fögnuði. Lát gleðina enduróma í sálum allra barna þinna og í öllum þínum helgidómum. Kristur er upprisinn! Amen

Áhyggjur

Það er mynd kyrrðar mitt í óreiðu sem dregin er upp af því þegar konurnar gengu árla morguns hægum skrefum að klettagröfinni er Jesús hafði verið lagður í til hinstu hvíldar. Sól nýs dagas kastaði geislum sínum á þurran jarðveginn, gulleitt rykið þyrlaðist upp undan sandölum þeirra og lagðist hljóðlega niður aftur á jörðina. Konurnar töluðu um sín á milli að þær hefðu áhyggjur af því hver myndi velta steininum frá grafarmunanum. Á örskotsstundu breytist áhyggjur þeirra í hræðslu viðbrögð. Þeim berst til eyrna orðin utan við gröfina: “Skelfist ekki. Þér leitið Jesús frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upprisinn, hann er ekki hér…viðbrögð kvennanna urðu þau; og lági þeim hver sem vill, að hlaupa í burtu frá gröfinni eins og fætur þeirra gátu borið þær. Sólin var komin hærra á loft, geislar hennar megnuðu ekki að stöðva þær. Ekki frekar en hægt sé að eyða mynd þeirri sem ég á frá æsku á leið til kirkju á páskadagsmorgni með foreldrum mínum og systkinum. Áhyggjur voru ekki að þvælast fyrir fótum mínum nema einna helst að messan yrði löng og leiðinleg og páskaeggið heima að springa úr spenningi að hitta mig eða var það öfugt. Ég sagði engum frá því hvað fór um huga minn þessa morgna páskaminninga æsku minnar.

Kjarkur

Þær þorðu ekki að segja nokkrum lifandi manni frá þessum atburði við gröfina. Hver hefði svo sem trúað því að maður, sem krossfestur hafði verið þremur dögum áður og látið lífið væri risinn upp frá dauðum. Um síðir og ekki löngu eftir barst fagnaðarboðkapurinn frá manni til manns. Orð engilsins “Skelfist ekki, hann er upprisinn” eru töluð til þín núna á þessum morgni sem og alla sunnudaga aðra. Við þurfum ekki að skelfast og hlaupa burtu heldur komum við saman í fögnuði. Og þvílíkur fagnaðarboðskapur eru þessi orð engilsins. Fagnaðarboðskapur sem yfirtekur hugi okkar mannanna barna á páskum, hvar og hvert sem nútímamanneskjan finnur sér stað til að vera á. Þá berst þessi fagnaðar frétt. Jesús er upprisinn. Hann hefur sigrað dauðann.

Dymbilvikan dagarnir fyrir upprisuhátíðina veita margþætt efni til íhugunar. Við erum minnt á dimma daga, erfið spor, þunga byrgði krossins, svik, þjáningu og dauða. Myrkrið og óttinn hafði allt í hendi sér, sigur þess var algjör.

Í sigri algjörleikans höfum við gengið undanfarna daga í myrkri þess og vonleysi til að við getum nálgast hið undursamlega ljós eilífs lífs. Það hefði ekki verið hægt nema við kæmum úr myrkrinu og inn í andstæðu þess ljósið. Eða hvernig er hægt að gleðjast ef við þekkjum eða skynjum ekki sorgina?

Eins er það með hátíð eins og páska. Hvernig getum við haldið hátíð hátíðlega ef við lifum ekki á degi hverjum í hversdagslegum raunveruleika.

Heilög

Þegar við höldum einhverja hátíð heilaga, þá verðum við í anda leidd til þeirra staða og tíma, sem hátíðin bendir okkur til. Við getum þess vegna ekki annað en gleymt því um hríð, sem liggur okkur næst í hversdagslífinu. Við lifum eina stutta stund eins og á öðrum tímum og hjá öðrum mönnum. Með þessum hætti minnir páskasdagsmorgunn okkur á gamla tíma. Það er sem við göngum með konunum Maríu Magdalenu og Maríu móður Jakobs og Salome. Göngum við hlið þeirra með þá atburði er höfðu átt sér stað dagana á undan á herðum íþyngjandi í sorginni í dagrenningu í átt að kletta gröfinni þar sem líkami Jesú var lagður. Við viljum þess vegna nema hér staðar, og í anda slást í fylgd með konunum sem þennan morgunn gengu til grafar Jesú, til þess að veita honum síðustu þjónustu.

Sól dagrenningar var þá ekki sú sama sem af gömlum vana reis upp til boðunar nýs dags. Heldur boðaði hún upphaf nýs tíma. Tíma er bjartur boðskapur páskanna segir okkur alla daga að lífið getur sigrað dauðann. Páskarnir minna okkur á þá staðreynd.

Mikill - meiri - mestur

Páskarnir eru mest allra hátíða. Hvað væru jól og hvað væri hvítasunna ef Jesús hefði ekki unnið þann sigur, sem hann vann á krossinum? Föstudagurinn langi og páskadagur fylgjast að. Dauði Jesú verða ekki aðskilin. Upprisa Jesú á Páskadag varð staðfesting Guðs á því að friðþægingarverkinu væri lokið. Hún var kvittun Guðs fyrir því að skuld okkar er greidd. Jesú dó í okkar stað og reis upp okkur til réttlætingar.

En í fögnuði páskanna megum við ekki gleyma alvöru krossins. Þá kann einhver að hugsa. Þessi dagur á að vera gleðidagur, sigurhrósdagur lífsins, en þú vilt gera hann að hryggðardegi.

Ég veit ekki, en það er mín tilfinning að við séum á eilífum flótta frá því sem er óþægilegt. Að reynt sé að sneiða hjá því með öllum ráðum og dáðum. Getur verið að það sé eðli manneskjunnar að útiloka óþægindi, það sem veldur röskun á daglegu lífi? Sá eða sú sem misst hefur náin ástvin og þeir eru margir meðal okkar sem syrgja og finna sig í myrkri sorgar og saknaðar. Þeir kannast oftar en ekki við að finna fyrir frá umhverfinu að fá ekki frið til að ganga veg sorgarinnar alla leið. Vegna þess að einhverjir aðrir treysta sér ekki til að ganga þeim við hlið. Hlaupa í felur.

Það er svo mikið talað um syndina, dauðann og allt þetta dapurlega og sorglega, því ekki að tala bara um lífið og það gleðilega, heyrist sagt. Hvernig er hægt að tala um lífið og gleði þess án þess að dapurleiki þess og sorg komi þar við sögu. Sorgin, missirinn er hluti af lífinu eins og gleðin og sólbjartar stundir.

Vissulega er tilefni til að gleðjast á þessum morgni. Hvort sem við göngum í huga með konunum að gröf Jesú eða látum hugan hvarfla til sinnar eigin æsku á leið í páskamessu snemma á syfjuðum morgni, fuglasöngur í lofti og sólstafir kitla vanga minninga og heima beið páskaeggið eftir að verða lokið upp og uppgvöta innihald þess. Gleði þess ósvikin á þeirri stundu, ekkert annað komst að.

Vissulega er tilefni á þessari stundu að gleðjast. Þá gleði tjáum við í tali og tónum skærum er lyftir okkur upp úr myrkri föstudagsins langa. Höfum í huga ef atburðir þeir sem gerðust þá hefðu ekki átt sér stað, værum við ekki hér með kitlandi sæld í hjarta. Værum við ekki að hlusta á fagran söng og tæran hljóm er tjáir okkur að Jesús er upprisinn. Ef ekkert myrkrið væri þá væri ekki til neitt er heitir ljós, andstæða myrkursins. Í mannlegri tilveru eru ljósir tímar, skuggar, gleði og sorg. Hafa stuðnig hvort af öðru. Ef ekki hefði farið á undan föstudagurinn langi og hefðu engir páskar runnið upp. Ef Jesús hefði ekki gefið líf sitt á krossi þá hefði engin upprisa átt sér stað.

Einstakur?

Páskaatburðurinn er ekki aðeins atburður sem átti sér stað fyrir margt löngu. Á hverjum einasta degi á hann sér hliðstæðu í lífi okkar, í okkar hversdagslega lífi. Það var myrkur í huga kvennanna sem gengu að gröf Jesú árla páskadagsmorguns til að votta hinum látna hinstu virðingu sína. Við skildum ætla að perlað hafa á tár á vöngum kvennanna. Geislar sólarupprisunnar hafa ekki megnað að þerra tár er féllu á þurran jarðvegin. Þá berst til þeirra orð engilsins: “Skelfist ekki…hann er upprisinn…”

Myrkrið í veröldinni varð frá þeirri stundu aldrei annað en taglhnýtingur ljóssins sem ber með sér von í þjáðan heim. Við lítum undan, aftur og aftur þorum við ekki að kannast við þá staðreynd að saklaus maður gekk á undan okkur með syndabyrgði okkar. Á eyrum skellur bjartur hljómur undursins og við lítum upp, undirleit eins og barn er veit að það hefur gert eitthvað rangt. Sök hefur verið skellt á saklausa manneskju. Það fylgir því sársauki að þora ekki að kannast við að vera manneskja af holdi og blóði. Að þora að viðurkenna að við erum í hópnum er stóð og horfði á á Jesú bera krossinn á Golgata. Það er staðreynd sem ekkert punktakerfi geta fríað okkur frá.

Að við játum ekki aðeins með vörum heldur og sálu að sá sem sigraði dauðann lifir með okkur í dag.

Syfjaður dagur

Við skynjum þennan atburð á hverju vori þegar náttúran rís upp til nýs lífs. Þá sem aldrei fyrr að boðskapur – stef páskanna hljómar okkur í eyrum.

Hvenær eigum við ekki sameiginlegt fagnaðarefni ef ekki á páskum, hátíð hátíðanna. Sigurhátíðinni, þegar lífssólin bjarta rís og sendir geisla sína á jörð alla. Hvaða fagnaðarhátíð er meiri þegar sól hækkar á lofti. Þegar sól eilífðarinnar rís upp yfir fjöll. Fjöll jarðlífsörðuleikana. Hvenær ef ekki nú á helgum páskum er hægt að snerta strengi fagnaðar í beygðri sálu, þegar við minnumst þess að lífið sigraði dauðann. Þegar konungur lífsins gengur fram í upprisuskrúðanum og mælir hin konunglegu orð til mannkynsins: “Ég lifi og þér munuð lifa.”

Enn og aftur höfum í huga að þetta stef á ekki aðeins við um atburð er eitt sinn gerðist fjarri okkur í tíma og rúmi. Það hljómar ætíð í lífi manna. Íklædd þeirri vitneskju að við göngum í gegnum myrka daga vonbrigða, þjáninga og sorgar. Upprisuboðskapur páskanna boða okkur að þessi stef verða ekki lokahljómur lífssynfóníunnar. Þó máttur tortímingar, kúgunar og haturs sé á meðal okkar, mun það þó þurfa víkja fyrir veldi skaparans sem skapar líf og mun viðhalda því og varðveita í sinni hendi. Máttur Guðs er máttur alls. Það er boðskapur páskanna fyrst og fremst. Ljós upprisunnar er okkur rétt, boðskapur páskanna hljómar okkur. Tökum við á móti þeirri gjöf Guðs eða látum við máttarorð hans fara framhjá lífi okkar. Fær hann að móta hugsanir okkar og verk? Þeirri spurningu verður hver og einn að svara fyrir sig.

Megi góður Guð gefa þér og fjölskyldu þinni gleðilega páskahátíð.